Fréttir

Doktorsvörn í líffræði – Pauline Anne Charlotte Bergsten

Mánudaginn næsta, 12. september, mun Pauline Bergsten verja doktorsverkefni sitt í líffræði. Verkefnið ber heitið: Rannsókn á neðanjarðar örverusamfélögum í basalti á eldfjallaeyjunni Surtsey við Ísland.

Doktorsvörnin fer fram í hátíðarsal aðalbyggingar HÍ og hefst kl 10:00.

Andmælendur:
Dr. Steffen L. Jörgensen, dósent við Háskólann í Bergen, Noregi
Dr. Oddur Þ. Vilhelmsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Leiðbeinandi er Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og fagstjóri hjá Matís

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Pauline Vannier, verkefnastjóri hjá Matís
Dr. Snædís H. Björnsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Doktorsvörn stýrir: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ

Ágrip
Surtsey er eldfjallaeyja á rekbelti suðaustan við Ísland. Hún myndaðist í röð neðansjávargosa á árunum 1963-1967 og hefur verið friðuð síðan. Surtsey hefur þá sérstöðu að þar hefur verið mögulegt að rannsaka landnám lífvera og framvindu vistkerfa frá upphafi. Rannsóknin sem hér er lýst snýr að örverusamfélögum í eynni, í umhverfi þar sem nýmyndað basalt mætir jarðhita og sjó. Þar er að finna breytilegt hitastig sem nálgast efri mörk þess sem talið er lífvænlegt.
Alþjóðlegur rannsóknarleiðangur var farinn til Surtseyjar árið 2017 til að afla sýna með borunum. Kjarnasýnum var safnað á mismunandi dýpi ásamt vatnssýnum og heitri gufu úr sprungum á yfirborði eyjarinnar. Þessi doktorsritgerð er fyrsta heildstæða rannsóknin á örverusamfélögum neðanjarðar í Surtsey. Margvíslegum aðferðum var beitt til að rannsaka þau einstöku sýni sem aflað var.
Markmiðið var að auka þekkingu á samfélögunum og efnaferlunum er þau byggja á. Samsetning örvera var greind með því að raðgreina tegundaákvarðandi 16S rRNA gen og annað erfðaefni sem einangrað var úr umhverfinu. Að auki voru bakteríustofnar einangraðir og þeim lýst og smásjáraðferðum beitt. Magn DNA var metið í borkjörnum en samkvæmt því var fjöldi örvera áætlaður á bilinu 5×104 til 1×106 á gramm.
Niðurstöðurnar bentu til þess að afar lítinn lífmassa væri að finna í umhverfinu. Slíkt eykur áhrif mengunar sem getur orðið við sýnatökur. Þrátt fyrir lítinn lífmassa eru örverusamfélög neðanjarðar í Surtsey mjög fjölbreytt og samanstanda bæði af bakteríum og arkeum. Sumar þeirra eru jaðarörverur eða hafa áður greinst í jarðvegi og sjó en aðrir hópar eru lítt þekktir. Greiningar á ættartengslum og lífsháttum benda til þess að sumar fái orku úr lífrænum efnum en aðrar úr ólífrænum og tengist hringrásum brennisteins, köfnunarefnis og metans. Þó tókst ekki að styðja þessar niðurstöður með greiningum á umhverfiserfðamengjum. Fjölmargar auðgunarræktir voru framkvæmdar við ólík skilyrði og með mismunandi ætum. Um 200 bakteríustofnar voru einangraðir. Þar af voru nokkrar nýjar tegundir og einni þeirra, hitakæru bakteríunni Rhodothermus bifroesti lýst að fullu, erfðamengi hennar raðgreint og samanburður gerður við tvær þekktar tegundir sömu ættkvíslar. Í ljós kom að við aðstæðurnar sem notaðar voru tókst aðeins að einangra um 2,15% af þeim örverum sem kennsl voru borin á með 16S rRNA raðgreiningum. Smásjárgreiningar á hraunsýnum sýndu ýmis form sem líktust örverum í samtengdum blöðrum í basaltgleri.
Niðurstöður rannsóknarinnar í heild bentu til mikils landnáms örvera í Surtsey á þeim 50 árum sem liðin eru frá goslokum. Örverurnar gætu hafa dreifst frá nálægum vistkerfum og aðlagast umhverfinu í hrauninu.
Niðurstöðurnar sem lýst er í þessari ritgerð mynda grunn að framtíðarrannsóknum á örverusamfélögum neðanjarðar í Surtsey og framvindu samfara breyttum aðstæðum eins og lækkandi jarðhita.

Frekari upplýsingar má finna með því að smella hér.

Fréttir

Bændasamtök Íslands heimsóttu Matís

Bændasamtök Íslands kíktu í heimsókn til okkar í Matís þann 7. september síðastliðinn. Þau Gunnar Þorgeirsson, formaður, Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri, og Guðrún Birna Brynjarsdóttir, sérfræðingur, skoðuðu framgang í vefjaræktun á stofnútsæði kartaflna sem Matís sinnir fyrir Bændasamtökin. Einnig var farið yfir önnur samstarfsverkefni en þau eru fjölmörg og stefnt er að því að auka þau enn frekar í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá myndir af vefjaræktuðum kartöflum sem ræktaðar eru hjá Matís.

Matís þakkar Bændasamtökum Íslands fyrir komuna og hlakkar til áframhaldandi góðs samstarfs. 

Fréttir

Ánægjulegar fréttir fyrir íslenska matvælaframleiðslu og samstarfsaðila Matís

Þróun á umhverfisvænni umbúðum, graspróteinum, hliðarafurðum garðyrkju og matvælum úr stórþörungum ásamt tegundagreiningum á saltfiski eru á meðal nýrra verkefna Matís í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.

Síðustu vikur reyndust íslenskum matvælaframleiðendum og samstarfsaðilum Matís vel, en þrettán verkefni sem Matís kemur að hlutu styrk úr Matvælasjóði þegar sjóðurinn tilkynnti sína þriðju úthlutun. Fyrr í sumar höfðu átta aðrir sjóðir tilkynnt að tíu samstarfsverkefni sem Matís er þátttakandi í hefðu verið tryggð fjármögnun. Þessi frábæri árangur sýnir vel styrk og mikilvægi þess samstarfs sem Matís á í við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla af öllum stærðum og gerðum, jafnt innan lands sem utan. 

Markmið Matís er að styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, og starfsfólk fyrirtækisins er stolt af því að fá tækifæri til að vinna með framsýnum fyrirtækjum, stofnunum og frumkvöðlum í að móta framtíðina. Hér á eftir fylgir stutt yfirlit yfir 23 ný Matís samstarfsverkefni sem fengu jákvæð svör um styrkfé á undanförnum vikum. Myndin hér að neðan sýnir að samstarfsaðilar Matís í verkefnunum dreifast um land allt.

Matvælasjóður

Verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju er samstarfsverkefni Bændasamtakanna, Orkídeu og Matís þar sem leita á leiða til að skapa aukin verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju á borð við blöð sem falla til við afblöðun í ylrækt, plöntur sem eru hættar að gefa uppskeru, hverskyns afskurð eins og rósablöð, ystu blöð af káli, gulrótagrös og kartöflugrös. Ýmis verðmæt efni má finna í þessum hliðarafurðum en nú fara þau að mestu í moltugerð eða urðun með tilheyrandi kostnaði. Senn líður að því að bannað verður að urða lífrænan úrgang í þeim mæli sem gert er í dag vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Því er mikilvægt að finna þessu hráefni farveg til að auka verðmæti og draga úr sóun.

LuLam Wrap (Matvælaumbúðir úr lúpínu) er samstarfsverkefni Efnasmiðjunnar, Sedna–Biopack, Sölufélags garðyrkjumanna og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa umhverfisvænar, niðurbrjótanlegar umbúðir úr íslenskri alaskalúpínu og þara, og prófa þær til notkunar fyrir matvæli.

Bragðefni unnin úr sjávarfangi er samstarfsverkefni North Seafood Solutions, Útgerðarfélagsins Lokinharma, Iceland Seafood Iberica og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa bragðefni og bragðkrafta úr hliðarafurðum fiskvinnslu hérlendis. Þessar vörur eru ætlaðar einkum á erlenda markaði fyrir veitingahús og mötuneyti.

Kjötsnakk – verðmætasköpun með fullvinnslu á hrossakjöti er samstarfsverkefni 1000 ára sveitaþorps, Orkídeu og Matís. Markmið verkefnisins er að auka fullvinnslu á íslensku hrossakjöti og þróa nýjar og verðmætar afurðir úr þessu vannýtta hráefni þ.á.m. kjötsnakk. Einnig verða markaðsinnviðir byggðir upp til að auka áhuga og neyslu Íslendinga á kjötsnakki úr hrossakjöti.

Vinnsla fásykra úr stórþörungum með ensímvinnslu er nýsköpunarverkefni sem unnið verður innan líftæknihóps Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferð til framleiðslu fásykra úr stórþörungum og auka þannig nýtingu þörunga sem vaxa í miklum mæli við strendur Íslands. Fásykrur eru notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.

BruXOS – Verðmætasköpun úr hliðarafurð bjórgerðar er samstarfsverkefni Ölgerðarinnar og Matís, þar sem markmiðið er að skapa verðmæti úr hrati frá bjórgerð með því að nýta ensím til að umbreyta trefjum í hratinu í xylosa fásykrur. En eins og kom fram hér að ofan eru fáskykrur notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.

Upprunavottun á íslenskum saltfiski á Spáni er samstarfsverkefni samtaka Íslenskra saltfiskframleiðenda, Hafrannsóknarstofnunar og Matís. Í verkefninu er stefnt að því að þróa erfðafræðilega aðferð sem getur greint á milli þorsks frá Íslandsmiðum og þorsks sem er veiddur við Noregsstrendur og í Barentshafi. Saltfiskframleiðendur hér á landi grunar að saltaðar þorskafurðir frá Noregi séu stundum ranglega merktar sem íslenskar á mörkuðum í Suður-Evrópu. Markaðsstaða íslenskra saltfiskafurða hefur um langa tíð verið mjög sterk í Suður-Evrópu, sérstaklega á Spáni, Portúgal og Ítalíu. Á þessum mörkuðum hafa íslenskar afurðir ákveðna sérstöðu og er verð fyrir íslenskan saltfisk almennt hærra en fyrir salfisk frá öðrum svæðum. Gangi markmið verkefnisins eftir mun því verða unnt að sannreyna að saltfiskur sé ekki seldur undir fölsku flaggi.

Tenging NIR við vöxt og meltanleika fóðurs fyrir laxfiska er samstarfsverkefni Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda, Síldarvinnslunnar, Eskju, Ísfélags Vestmannaeyja, Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa líkan til að meta gæði fiskimjöls sem hráefni í laxeldisfóður á skjótan, auðveldan og ódýran hátt. Líkanið mun byggja á NIR tækni (nær innrauðri litrófsgreiningu) sem gefur upplýsingar um innihald og einkenni mælisýna. Þessar upplýsingar er hægt að nota og bera saman við in vivo raunmælingar og fá þannig spá fyrir ýmsa þætti í hráefninu. Þar má nefna, efnainnihald og meltanleika hráefnis, samsetningu næringarefna á borð við amínósýrur og fitusýrur svo eitthvað sé nefnt. NIR tæki gefur í raun fingrafar hráefnisins. Með NIR líkaninu verður því unnt að meta gæði fiskimjöls, sem mun veita fiskimjölsframleiðendum gögn til að bæta sínar afurðir og styrkja samningsstöðu sína gagnvart fóðurframleiðendum. Að sama skapi mun afrakstur verkefnisins gera fóðurframleiðendum kleift að velja rétta „rétta“ fiskimjölið fyrir sitt fóður.

Er grasið er grænna hinum megin? (grasprótein) er samstarfsverkefni Matís, Bændasamtakanna, Landbúnaðarháskólans og Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins. Mikil eftirspurn er eftir próteini og einn mögulegur próteingjafi er gras. Erlendis, sérstaklega í Danmörku, hafa verið framkvæmdar rannsóknir á sviði próteinvinnslu úr grasi með góðum árangri. Markmið verkefnisins er að hefja rannsóknir á þessu sviði á Íslandi og framkvæma grunnvinnu sem síðan er hægt að byggja á. Ekki er hægt að yfirfæra niðurstöður frá Danmörku beint yfir á íslenskar aðstæður og því mikilvægt að framkvæma rannsóknir á þessu sviði hér. Prótein unnið úr grasi er hægt að nýta bæði sem fóður og fæði. Einnig hafa rannsóknir sýnt að hrat frá próteinvinnslu er nýtanlegt sem fóður. Í verkefninu verður sýnum af grasi safnað úr tilraunaræktun mismunandi yrkja og aflað þekkingar á próteininnihaldi og eiginleikum einangraðs próteins.

Næringargögn – lykill að lýðheilsu landsmanna og nýsköpun matvælaiðnaðarins er samstarfsverkefni Matís, European Food Information Resource (EuroFIR), Félags Smáframleiðenda Matvæla (SSMF), Mjólkursamsölunnar og annarra fyrirtækja í matvælaiðnaði. Þegar fullyrt er um hollustu og öryggi matvæla þarf upplýsingar og þekkingu. Markmið verkefnisins er að bæta og uppfæra íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM). ÍSGEM er nú í umsjón Matís en ekki hefur tekist að fjármagna viðhald hans síðastliðin 12 ár. Það háir jafnt matvælaiðnaði, vísindamönnum og almenningi að geta ekki að fullu treyst upplýsingunum. Skref verður stigið til að auðvelda matvælaiðnaði og almenningi notkun á gagnagrunninum á vefsíðu Matís. Við vöruþróun í matvælaiðnaði er mikilvægt að geta skoðað samsetningu hráefna þegar stefnt er að ákveðnum markmiðum í þróuninni.

Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða er samstarfsverkefni Icelandic Lamb markaðsstofu og Matís. Verkefnið snýr að úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts og greiningar á efnainnihaldi kjöts og aukaafurða sem eru vaxandi verðmæti. Verkefninu er ætlað að uppfæra gömul og jafnvel úrelt gögn og vista í opinberum gagnagrunnum.

Furan fitusýrur sem gæðavísir er samstarfsverkefni True Westfjords og Matís þar sem markmiðið er að nýta Furan fitusýrur til að meta gæði lýsis, en True Westfjörds er framleiðandi að kaldunnu lýsi sem selt er undir vörumerkinu Dropi.

Bætt gæði a sjófrystum ufsa er samstarfsverkefni Útgerðafélags Reykjavíkur og Matís, þar sem leitast verður við að bæta vinnsluferla og gæði sjófrystra ufsaafurða.

Tækniþróunarsjóður Rannís

BIOTOOL, Hátækni til umhverfisvöktunar í fiskeldi er samstarfsverkefni RORUM (Rannsóknir og ráðgjöf í umhverfis- og byggðamálum), Háskóla Íslands, Danska Tækniháskólans (DTU) og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa alhliða erfðasameindatæki til vöktunar botndýrasamfélaga vegna fiskeldis. Tækið sem um ræðir er mjög næmt og mun hafa í för með sér mikinn sparnað í tíma og kostnaði sem er mikilvægt fyrir bæði fiskeldið og opinbera eftirlitsaðila. Verkefnið byggir á einstökum langtíma gögnum og nýjustu tækni í umhverfis erfðafræði. Notast verður við mjög hraða og umhverfisvæna tækni sem nýtir umhverfis DNA (eDNA) til þess að vakta og nema breytingar í botnsamfélögum.

Fagráð í sauðfjárrækt

Aukin afköst og hagkvæmni í greiningum á riðugeni er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Matís. Nú er staðan í greiningum á riðugeni gjörbreytt. Verndandi breytileiki gegn riðu, þ.e. í sæti 171 í riðugeninu, hefur fundist í hjörð í Þernunesi í Reyðarfirði  og umfangsmiklar rannsóknir eru í gangi til að kanna áhrif annarra breytileika í riðugeninu á næmni gagnvart riðu: 137, 138 og 151. Auk þess er mikilvægt fyrir bændur að fá upplýsingar um sæti 136 og 154, líkt og Matís hefur greint um árabil. Því er ljóst að bændum og ráðanautum bráðvantar arfgerðagreiningar á öllum þessum sex sætum í sem flestum gripum. Markmið verkefnisins er að auka afköst og lækka verð á greiningum riðugens hér á landi. Verður styrkurinn notaður til að mæta kostnaði við raðgreiningu á riðugeni til bænda og RML.

Lóu sjóðurinn

Veiðar og vinnsla rauðátu í Vestmannaeyjum er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Rannsóknaþjónustu Vestmannaeyja, Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja og Matís. Í verkefninu mun raunhæfi veiða og vinnslu á rauðátu í Vestmannaeyjum verða kannað.

Sjóður til eflingar hringrásarhagkerfis á Íslandi

Örverur til auðgunar fiskeldisseyru er samstarfsverkefni Sjávarklasans og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að nýta lífræna hliðarstrauma (úrgang) frá laxeldi í áburð.

Bestun Framkvæmdar á nýtingur hliðarstrauma til lífkola og áburðargerðar er samstarfsverkefni Landeldis og Matís, en markmið verkefnisins er að Markmið verkefnisins er að rannsaka og skrásetja endurheimt næringarefna úr mismunandi þurrefnasíum í landeldi og besta meðhöndlun þeirra til lífkolagerðar. Leitast er við að rannsaka og besta ferla við blöndun búfjáráburðar, fiskiseyru, fóðurleifa og dauðfisks úr landeldi, með það að markmiði að hámarka jarðvegsbætandi eiginleika lífkola og kraft áburðar. Rannsakað verður hvernig framleiða má lífkol á sem hagkvæmastan hátt.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Vöktun sjókvíaeldissvæða með hraðvirkum erfðafræðilegum aðferðum er samstarfsverkefni RORUM og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa hraðvirkar erfðafræðilegar aðferðir til að vakta líffræðilegan fjölbreytieika í botnlögum undir og við laxeldiskvíar.

EIT food

Samband fóðurs og árstíðabundinni sveiflna á næringarinnihaldi mjólkur (NUTRIMILK – Connecting milk seasonality and nutritional requirements to inform farm-to-fork innovations for optimum nutrient supply). Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann í Reading, Bretlandi. Markmið verkefnisins er að skoða breytingar á næringarsamsetningu eftir árstíð. Verkefnið mun (i) kanna áhrif framleiðslukerfis (lífræn framleiðsla vs hefðbundin) og árstíðar (janúar-desember), á styrk snefil- og steinefna í mjólk og (ii) meta hvaða áhrif það hefur á steinefnainntöku mismunandi samfélagshópa þvert yfir árið.

Norska rannsóknarráðið (Forskningsrådet)

Greining á ástæðum laxadauða í fiskeldi (Causal categorisation of mortality as a model system for sustainable growth and increased value creation in aquaculture) er verkefni sem fjármagnað er af Norska Rannsóknaráðinu og er leitt af dýralæknasviði NMBU Háskólans í Noregi. Aðrir þátttakendur eru ÅKERBLÅ AS, SINTEF, PISCADA AS, LERØY, Laxar, Arctic Fish, Arnarlax og Matís. Markmið verkefnisins er að greina ástæður laxadauða í fiskeldi og leitast við að nýta þá þekkingu til að draga úr laxadauða.

BlueBio Cofund

Efling sjávarútvegs í Evrópu með mótun „fingrafars“ vannýttra fisktegunda til að auka sjálfbærni og draga úr sóun (EuFish_SustainableGrowth – European fisheries enhancement through “Omic” characterization and innovative seafood production from underutilised fish species. Verkefnið er leitt af Háskólanum Naples Federico II, Ítalíu og unnið í samstarfi með AquaBioTech ltd, Stazione Zoologica Anton Dohrn of Naples, Brim, Grími kokki og Matís. Markmið verkefnisins er að skoða vannýttar fisktegundir með því að nýta þær betur sem næringarríka fæða og/eða sem fóður í fiskeldi. Með því að nýta fjölbreyttar fisktegundir getum við aukið aðgengi að næringarríku sjávarfangi og dregið úr matarsóun. Þróuð verða sértæk fingraför mismunandi tegunda sem hægt verður að deila með hagsmunaaðilum í gagnagrunni.

BláGræntFóður (Synergy of blue and green sectors for resilient biomass production and processing to develop sustainable feed ingredients for European aquaculture). Verkefnið er leitt af SINTEF í Noregi, með þátttöku Háskólans í Åarhus, Háskólans í Tallin, Háskóla Íslands, Laxá og Montasjen í Noregi. Markmið verkefnisins er að þróa fiskeldisfóður úr graspróteinum og fjaðurmjöli frá alifuglarækt.

Fréttir

Ráðstefna 8. september. Nýsköpun og tækifæri í íslenskri matvælaframleiðslu

Orkídea og Landbúnaðarháskóli Íslands halda ráðstefnu um nýsköpun og tækifæri í matvælaframleiðslu þann 8. september næstkomandi á Hótel Selfossi. Rósa Jónsdóttir og Kolbrún Sveinsdóttir starfsmenn Matís halda þar erindi um Framleiðslu nýrra próteina fyrir matvæli og fóður.

Brýnt er að auka matvælaframleiðslu í heiminum verulega á næstu áratugum vegna sífellt vaxandi íbúafjölda heimsins. Í þessu felast miklar áskoranir þar sem stór hluti af nýtanlegu gróðurlendi heimsins er þegar notað í landbúnaðarframleiðslu. Nýtanlegir fiskistofnar eru margir komnir að þolmörkum og vaxandi skortur er á orku og vatni til fæðuframleiðslu. Í þessum áskorunum felast jafnframt mikil tækifæri fyrir Ísland sem ætlunin er að varpa ljósi á þessum viðburði sem er samstarfsverkefni Orkídeu, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Háskólans á Bifröst, Íslandsstofu, Lax-inn fræðslumiðstöðvar, Matís, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Samtökum smáframleiðenda matvæla og Ölfus Cluster.

Myndbandsupptökur frá ráðstefnunni má finna með því að smella á hnappinn hér að neðan:

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér:

Fundarstjóri: Vigdís Häsler, framkv.stj. Bændasamtaka Íslands

Fréttir

Matís kemur að leit erfðaþátta bógkreppu

Bógkreppa er arfgengur erfðagalli í sauðfé á Íslandi. Gallinn er að öllum líkindum víkjandi, sem þýðir að til þess að lömb fæðist með einkenni bógkreppu þurfa þau að fá gallaða genið frá báðum foreldrum. Þetta hefur í för með sér að erfðagallinn hefur leynst árum saman í íslenska fjárstofninum og skýtur síðan óvænt upp kollinum.

Matís er þátttakandi í verkefni sem miðar að því að finna erfðamark sem hægt væri að nýta til að greina gallann í arfblendnum einstaklingum. Ef slíkt erfðamark fyndist væri hægt að útrýma erfðagallanum úr íslensku fé og tryggja að hann bærist ekki inn á sæðingastöðvar.

Rannsóknaverkefnið er styrkt af Fagráði í sauðfjárrækt, leitt af Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og auk Matís kemur RML að verkefninu.

Sjá nánar á vefsíðu Bændablaðsins með því að smella hér

Mynd: Shutterstock

Fréttir

Erfðabreytingar á örverum

Gestir hlaðvarpsþáttarins Matvælið að þessu sinni eru þeir Björn Þór Aðalsteinsson, verkefnastjóri hjá Matís og Tryggvi Stefánsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri hjá Algalíf. Í þættinum fara þeir yfir markaðsleg og rannsóknarleg sjónarmið í tengslum við erfðabreytingar á örverum.

Björn Þór segir okkur frá verkefninu Thermo-Tools sem líftæknihópur Matís hefur verið að vinna að síðastliðin ár. Thermo Tools verkefnið miðar að því að þróa ný tæki til að erfðabreyta hitakærum örverum. Ísland hefur þá sérstöðu að vera með mikið magn af heitum hverum og þar af leiðandi mjög gott aðgengi að hitakærum örverum. Hitakærar örverur lifa við mjög hátt hitastig, allt frá 50-121°C, og liggur vandamálið í því að þau tæki og tól sem alla jafna eru notuð við erfðabreytingar virka ekki við svo hátt hitastig.

Tryggvi Stefánsson hjá Algalíf segir okkur frá framleiðslu þeirra á Astaxanthin og hvernig markaðurinn sem Algalíf starfar á, setur skýra stefnu gegn erfðabreytingum og mikilvægi þess að þeir séu með non-GMO vottun í þeirra framleiðslu.

Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan:

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir

Fréttir

Skráning er hafin í Græna frumkvöðla framtíðar

Grænir frumkvöðlar framtíðar (GFF) er fræðsluverkefni hjá Matís sem ætlað fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla. Markmiðið er að fræða nemendur um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess, sjálfbærni og nýsköpun á nýstárlegan og skemmtilegan hátt. Verkefnið er opið öllum skólum landsins og hefur Matís opnað fyrir skráningar fyrir skólaárið 2022-2023.

Verkefnið fer fram í skólum undir leiðsögn kennara og hægt er að staðfæra verkefnin eftir þörfum hvers og eins skóla. Verkefninu er skipt í fjórar vinnustofur, vettvangsheimsóknir og MAKEathon. Vinnustofurnar innihalda fræðilega umfjöllun og verkefni, vettvangsheimsóknirnar eru í sjávarútvegsfyrirtæki og MAKEathonið er nýsköpunarkeppni

Við hvetjum áhugasama kennara og skóla til að skrá sig til leiks fyrir skólaárið 2022-2023. Skráning er ekki bindandi og því mega þeir sem eru forvitnir endilega skrá sig líka. Einnig er hægt að hafa samband við verkefnastjóra verkefnisins Justine Vanhalst í netfang justine@matis.is ef einhverjar spurningar vakna. Þú finnur Græna frumkvöðla framtíðar einnig á heimasíðunni graenirfrumkvodlar.com og inn á instagram.

Rafrænn upplýsingafundur verður haldinn þann 18. ágúst næstkomandi, klukkan 13-13:30, þar verður farið yfir alla fleti verkefnisins og fólki gefinn kostur á að spyrja spurninga, nánari upplýsingar um fundinn eru sendar við skráningu.

Skráning fer fram með því að smella á skráningarhnappinn hér að neðan:

Hér má sjá stiklu frá sjónvarpstöðinni N4 um Græna frumkvöðla framtíðar, þátturinn kemur út síðar í haust.

Langar þig að lesa meira um Græna frumkvöðla framtíðar? Hér fyrir neðan er viðtal við Katrínu Huldu Gunnarsdóttur sem hefur unnið að verkefninu frá upphafi:

Fréttir

Torula gersveppamjöl í fóðri fyrir Atlantshafslaxa, áhrif á vöxt og örverur í þörmum

Vísindagreinin „Torula yeast in the diet of Atlantic salmon Salmo salar and the impact on growth performance and gut microbiome.“ var birt  af vísindatímaritinu Scientific Reports nú á dögunum, sem gefið er út af Nature. Rannsökuð voru áhrif Torula gersveppamjöls á vaxtarafköst og þarmaörverur eldislaxa, þar sem hefðbundnum próteinum í fóðri var skipt út fyrir gersveppamjöl. Niðurstöðurnar kunna að koma á óvart.

Með örum vexti laxeldis eykst þörfin á að finna og þróa viðeigandi staðgengil fyrir hefðbundna próteingjafa í fóðri. Torula gersveppamjöl (Candida utilis) hefur verið skilgreint sem nýprótein (e. Alternative Protein) sem getur komið í stað hefðbundins próteins í fóðri. Hægt er að rækta gersveppinn á sjálfbæran hátt. Í þessari rannsókn voru skoðuð áhrif gersveppamjöls á vaxtarafköst og þarmaörverur í ferskvatns Atlantshafslöxum. Prófað var fóður sem innihélt prótein úr sjávarfangi, t.d. fiskimjöl, sem og blandað sjávar- og plöntuprótein þar sem hefðbundnum próteinum var skipt út fyrir aukið magn af gersveppamjöli (0%, 10%, 20%).

Þessi rannsókn sýndi að á vaxtarstigi laxa í ferskvatni, getur gersveppamjöl að hluta komið í stað hefðbundinna próteina í samsettu fóðri, en að ákjósanlegasta magn inntöku er háð heildarsamsetningu fóðursins og tegundum próteina sem verið er að skipta út. Í fóðrinu sem innihélt prótein úr sjávarfangi leiddi þessi rannsókn í ljós að 20% gersveppamjöl má setja í fóðrið án þess að breyta vaxtarafköstum og með hugsanlegum ávinningi fyrir örverusamfélagið í þörmum eins og aukningu á sumum mjólkursýrubakteríum.

Til samanburðar, í fóðrinu sem sameinar prótein úr sjávarfangi og plöntuprótein, styður 10% innihald af gersveppamjöli betri vaxtarafköst en hefðbundin prótein. Við hærra inntökugildi, 20%, var enginn ávinningur af vexti og hugsanlega skaðlegar breytingar á örverum í þörmum, svo sem fækkun mjólkursýrugerla og aukið magn baktería sem tengist hægari vexti í öðrum tegundum laxfiska.

Kynntu þér nánar þessar áhugaverðu niðurstöður og lestu vísindagreinina í heild sinni hér

Birgir Örn Smárason fagstjóri hjá Matís og Sigurlaug Skírnisdóttir verkefnastjóri hjá Matís, eru í hópi höfunda greinarinnar, fyrir nánari upplýsingar er hægt að ná í þau í eftirfarandi netföng birgir@matis.is og sigurlaug.skirnisdottir@matis.is

Fréttir

Grænir frumkvöðlar framtíðar

Tengiliður

Katrín Hulda Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri

katrinh@matis.is

Grænir frumkvöðlar framtíðar (GFF) er fræðsluverkefni hjá Matís sem hóf göngu sína í júní 2021. Hlutverk verkefnisins er að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál, og er verkefnið styrkt af Loftslagssjóði. Katrín Hulda Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Matís hefur unnið að verkefninu ásamt Justine Vanhalst verkefnastjóra hjá Matís. Katrín deilir hér með okkur ferðalagi verkefnisins frá upphafi.

„Það var ánægjulegt að sjá hve áhugasamir og í raun vel að sér krakkarnir voru um áhrif loftslagsbreytinga. Það varð fljótlega ljóst að þetta er málefni sem brennur á þeim og þau eru mjög meðvituð um þá umræðu sem er að eiga sér stað í þjóðfélaginu um þessar mundir.“

Afhverju Grænir frumkvöðlar framtíðar?

„Ég var nýbúin að klára kennaranám þar sem ég hafði lært ýmis hugtök eins og lausnaleitarnám, nemendamiðað nám og leikjavæðing. Þegar ég sá auglýst starf við að vinna í GFF þá fannst mér það henta fullkomlega. Það bæði passaði vel að þeirri hugmyndafræði sem ég vildi tileinka mér sem kennari, tók á málefnum sem mér þykja mikilvæg og myndi gefa mér reynslu í að búa til námsefni. Ég sótti því um og hef verið hér síðan.” segir Katrín Hulda.

Ekki þarf að leita langt yfir skammt til að hafa áhrif

„Markmið GFF er að vekja áhuga og efla þekkingu grunnskólabarna á loftslags- og umhverfismálum, nýsköpun og sjálfbærri auðlindanýtingu í þeim tilgangi að virkja þau til baráttunnar gegn loftslagsvánni og hvetja þau til grænnar nýsköpunar.”

„Þetta var gert með því að veita nýstárlega og áhugaverða fræðslu og virkja þau í hugmyndavinnu og nýsköpun í samvinnu við fyrirtæki í heimabyggð með sérstaka áherslu á umhverfisáhrif og auðlindanotkun. Með því var ætlunin að efla tengsl milli aðila innan heimabyggðar nemenda og sýna þeim að oft þarf ekki að leita langt yfir skammt til að geta haft áhrif.“ 

„Með nýstárlegri fræðslu var aðallega verið að hugsa um að gera þetta spennandi, áhrifamikið og valdeflandi fyrir krakkana. Það hefur svo þau áhrif að minnka loftslagskvíða. Til þess að berjast gegn loftslagskvíða meðal barna og ungmenna hefur m.a. verið mælt með því að segja þeim satt, gefa erfiðum tilfinningum rými og leyfa þeim að taka þátt í baráttunni. Höfundar námsefnis GFF höfðu þetta í huga við sín skrif. “ útskýrir Katrín Hulda.

Áskoranir í kjölfar Covid 19 voru leystar með útsjónarsemi

„Markmiðunum var náð og gekk verkefnið betur en við þorðum að vona. Auðvitað breyttist skipulagið aðeins vegna Covid-19 faraldursins, en skólarnir voru ótrúlega útsjónarsamir í að redda málunum. Sem dæmi um það má nefna að á Sauðárkróki var ekki hægt að heimsækja fyrirtækin vegna heimsóknabanns, vegna Covid fjöldatakmarkana. Þess í stað fengu nemendur heimsóknir frá fyrirtækjunum, þar sem sagt var frá starfsemi þeirra. Það voru kynningar, myndbönd og ýmislegt fleira og þótti takast mjög vel til.”

Nesskóli
Árskóli

„Endurgjöf frá kennurum og öðrum þátttakendum kom mjög vel út, og var mjög dýrmæt við að betrumbæta verkefnið fyrir næstu umferð. Það má líka nefna að mikill skortur er á námsefni um loftslags- og umhverfismál fyrir þennan aldurshóp og því ákveðið skarð sem verkefnið fyllir upp í.” segir Katrín Hulda.

Kom eitthvað nýtt eða jafnvel óvænt í ljós?

„Það var skemmtilegt að sjá hversu hæfir krakkarnir eru í nýsköpun. Ekki nóg með að þeir koma með stórsnjallar hugmyndir heldur sýndu þeir vönduð vinnubrögð og afrekuðu margt á afar stuttum tíma þegar MAKEathonin áttu sér stað. MAKEathon er nýsköpunarkeppni þar sem keppst er um að útbúa bestu lausnina á tilteknu vandamáli. Í okkar tilfelli fóru keppnirnar fram yfir tvo daga og gerðu krakkarnir frumgerðir, líkön eða veggspjöld af lausnum sínum á umhverfisvandamálum.

Það var ánægjulegt að sjá hve áhugasamir og í raun vel að sér krakkarnir voru um áhrif loftslagsbreytinga. Það varð fljótlega ljóst að þetta er málefni sem brennur á þeim og þau eru mjög meðvituð um þá umræðu sem er að eiga sér stað í þjóðfélaginu um þessar mundir. Þar að auki ríkti mikill baráttuvilji meðal þeirra en þeim finnst þetta vera stærsta vandamálið sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.” segir Katrín Hulda.

„Hægt var að staðfæra verkefnin eftir þörfum hvers og eins skóla. Kennararnir tóku verkefnin og gerðu þau að sínum eigin, til dæmis tengdu kennarar í Grunnskóla Bolungarvíkur námsefnið við sögu Bolungarvíkur og kennarar á Sauðárkróki nýttu tækifærið og notuðu eina tilraunina til að kenna nemendum sínum skýrslugerð.”

„Það var líka flott að sjá hve valdeflandi MAKEathonið var fyrir nemendur. Það að fá tækifæri til að glíma við „alvöru vandamál“, þ.e. sömu vandamál og fullorðna fólkið í þeirra nærumhverfi glímir við, virtist gefa þeim nýjar forsendur og metnað. Það skipti þau miklu máli að þetta væri ekki bara eitthvað skólabókadæmi sem væri svo stungið ofan í skúffu og aldrei gert neitt meira með.”

Fyrsta ár verkefnisins lauk með glæsibrag og áhrifin leyna sér ekki

„Fyrsta ári verkefnisins, af vonandi mörgum, lauk í vor með glæsibrag. Landskeppni MAKEathons, nýsköpunarkeppni GFF var haldin og úrslitin kynnt í Nýsköpunarvikunni. Allir þátttakendur voru hæstánægðir og virtist mikill vilji fyrir því að halda verkefninu áfram.

Áhrifin hafa fyrst og fremst verið á nemendurna. Þeir hafa lært mikið, bæði fræðilega, þ.e. um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, en líka praktískt, þ.e. vinnubrögð. Aukinn skilningur á eðli loftslagsbreytingar og áhrifum þeirra m.a. á þeirra nærumhverfi hefur náðst. Sjónarhorn krakkanna á heimabæ sinn breyttist fyrir vikið, sem og á þau fyrirtæki sem starfa þar. Þau lærðu að sjá tækifæri í sínu nærumhverfi. Þar komu FabLab smiðjurnar og Djúpið Frumkvöðlasetur sterk inn, en þeirra sérþekking er m.a. að kenna krökkum nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Kennararnir hafa einnig fengið ný vopn í kennslufræði vopnabúrið sitt, bæði hvað varðar fræðilega þekkingu en líka nýjar kennsluaðferðir. Vonandi munu þessar aðferðir nýtast þeim áfram, hvort sem þeir kenni umhverfisfræði eða einhverjar aðrar greinar. Svo má ekki gleyma þeim áhrifum sem verkefnið hefur haft á okkur sjálfar. Við erum fullar innblásturs og viljum gjarnan taka nemendurna, og sköpunargleði þeirra, okkur til fyrirmyndar.” segir Katrín Hulda.

Árskóli
Grunnskóli Bolungarvíkur
Nesskóli

Hver eru næstu skref?

“Námsefnið sjálft verður gert aðgengilegt á netinu eins og samið var um. Það væri þó gaman að geta gefið það almennilega út, þá með myndskreytingum og fallegri framsetningu. Ætlunin er að sækja um styrk fyrir slíku.”

„Hvað varðar næsta skólaár þá er búið að opna fyrir skráningu skóla sem vilja taka þátt. Bæði elstu bekkir grunnskóla og framhaldsskólar geta tekið þátt. Hlutverk Matís er að vera þeim innan handar, en námsefnið er allt saman til og því ætti ekki að þurfa mikil afskipti þar til að MAKEathonum kæmi. Opnað hefur verið fyrir skráningu og lýkur henni 1. september. Áhugasamir fá stutta google-könnun sem þeir fylla út.”

Þeir sem vilja kynna sér verkefnið enn fremur eða nálgast kennsluefni er bent á heimasíðu verkefnisins: https://graenirfrumkvodlar.com/. Verkefnið heldur einnig úti instagram síðu með ýmsum fróðleik og myndum: https://www.instagram.com/gff_matis/.

Sérstakar þakkir til samstarfsaðila: Stefán Þór Eysteinsson hjá Matís, Gunnar Þórðarson hjá Matís, Ragnhildur Friðriksdóttir fyrrum starfsmaður Matís, Árskóli Sauðárkróki, Nesskóli Neskaupstað, Grunnskóli Bolungarvíkur, Djúpið Frumkvöðlasetur Bolungarvík (Gunnar Ólafsson), FabLab Ísafjörður, FabLab Neskaupstaður, FabLab Sauðárkrókur, N4 Sjónvarpsstöð, Cambridge University. Dögun rækjuvinnsla, FISK Seafood, ArcticFish og Eskja.

Skráning er hafin

Opnað hefur verið fyrir skráningu í Græna Frumkvöðla Framtíðar fyrir næsta skólaár. Verkefnið hentar elstu bekkjum grunnskóla og grunnáföngum framhaldsskóla. Fyrir frekari upplýsingar geta áhugasamir haft samband við verkefnastjóra verkefnisins, Justine Vanhalst í netfangið Justine@matis.is. Skráning fer fram með því að smella á hnappinn hér að neðan:

Fréttir

Rannsóknir á hrossakjöti

Hrossakjöt er takmörkuð auðlind og mikil gæðavara. Liggja hér tækifæri í vöruþróun og markaðsetningu sem ekki er verið að nýta?

Í þessum þætti heyrum við í Evu Margréti Jónudóttur sem er sérfræðingur hjá Matís, en hún hefur gert fjölbreyttar rannsóknir á hrossakjöti. Eva hefur meðal annars kannað viðhorf og kauphegðun íslenskra neytanda og rannsakað kjötgæði í folaldakjöti. Eva segir skemmtilega frá niðurstöðum þeirra rannsókna og það er einstaklega áhugavert að heyra hana greina frá niðurstöðum gæða og geymsluþols hrossakjöts.

Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan:

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir

IS