„Það er raunverulega hægt að þróa matvörur fyrir fólk og fóður fyrir dýr sem inniheldur þessi hráefni. Vörur sem eru þá fyrir vikið í mörgum tilvikum hollari og umhverfisvænni kostur.“ Þetta segir Birgir Örn Smárason, fagstjóri hjá Matís en hann hefur undanfarin fjögur ár leitt stórt samstarfsverkefni þar sem nýprótein (e. Alternative proteins) hafa verið rannsóknarefnið. Verkefninu er nú að ljúka og uppskeruhátíð framundan þegar lokaráðstefnan verður haldin í Bremerhaven 7. og 8. september.
Verkefnið NextGenProteins er samstarfsverkefni 21 aðila frá 10 Evrópulöndum en Birgir Örn stýrði því og fleira starfsfólk Matís vann að ýmsum verkþáttum þess. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa, hagræða og fínstilla framleiðslu þriggja nýpróteina sem framleidd eru á sjálfbæran hátt, og sannreyna notkun þeirra í ýmsum matvælum og fóðri.
„Í stuttu máli má segja að öllum markmiðum verkefnisins hafi verið náð. Auðvitað verða einhverjar litlar áherslubreytingar yfir verkefnatímann vegna nýrra hugmynda eða niðurstaðna en í heildina litið heppnaðist uppleggið fullkomlega og öllu var skilað sem átti að skila.“
Þau nýprótein sem skoðuð voru í verkefninu eru skordýraprótein unnin úr hliðarafurðum matvælaframleiðslu, einfrumuprótein sem er gersveppamassi sem þrífst á sykrum afurða úr skógarvinnslu, og örþörungar sem ræktaðir eru að miklu leiti á útblæstri CO2 úr orkuvinnslu jarðvarmavirkjunar. Unnið var með fjölda fyrirtækja að þróun fóðurs og matvæla sem voru svo prófuð af neytendum og í fóðurtilraunir. Framleiðsla á þessum próteinum er í flestum samanburði sjálfbær og umhverfisvæn, með mun lægra kolefnisspor og krefst minni vatns- og landnýtingar.
„Við sýndum einnig fram á leiðir til þess að vinna með neytendum og fá þeirra samþykki og lögðum fram stefnumarkandi tillögur í þeim tilgangi að einfalda og breyta regluverki og stefnumálum stjórnvalda í átt að sjálfbærara matvælakerfi.“
Gott samstarf á krefjandi tímum
Undanfarin fjögur ár hafa um margt verið sérlega krefjandi fyrir samstarfsverkefni ólíkra aðila og mismunandi rannsóknahópa milli landa þar sem heimsfaraldur setti strik í reikninginn. Birgir segir samstarfið þó hafa gengið ótrúlega vel. Mögulegt var að nýta tæknina við fundahald en aðstandendur verkefnisins fengu að æfa þolinmæðina þegar bið var á niðurstöðum ýmissa mælinga vegna lokana hjá rannsóknastofum.
„þrátt fyrir allt þetta má segja að verkefnið hafi gengið eins og í sögu og er því helst að þakka öflugum hópi þátttakenda sem hafa lagt sig öll fram við að ná markmiðum verkefnisins. Einnig má nefna góðan hóp innan Matís sem hefur leitt verkefnið áfram.“
Grænleitir kjúklingar
Ýmislegt áhugavert og óvænt getur komið í ljós við brautryðjandi rannsóknarvinnu sem þessa og Birgir rifjar upp áskoranir sem komu upp þegar matvæli og fóður með örþörungapróteini var þróað. „Græni liturinn í örþörungum er svo sterkur að jafnvel í litlu magni yfirtekur hann allt. Í einni tilrauninni þar sem gefa átti kjúklingum fóður sem innihélt örþörungaprótein urðu fjaðrirnar grænleitar!“ Með aukinni rannsóknarvinnu var síðar unnt að þróa leiðir til þess að minnka eða fjarlægja litinn og dempa bragðið þannig auðveldara væri að þróa matvörur og fóður.
Mikill áhugi á málefninu og framhaldsverkefni í bígerð
Að sögn Birgis er þörf á frekari rannsóknum og mikill áhugi á málefninu. Niðurstöður verkefnisins þarf að vinna áfram, sýna hvernig mögulegt er að skala upp framleiðslu á nýpróteinum og koma þeim á markað með samþykki neytenda og stjórnvalda. Enn fremur þarf að hefja vinnu við að kynna nýprótein fyrir neytendum, sýna kosti þeirra og útskýra framleiðsluferli og hvers vegna þetta geti verið hollari og sjálfbærari kostur. Grunnur að slíkri vinnu var lagður í verkefninu sem mun nýtast vel í framhaldinu.
„Matís hefur unnið að verkefnum tengdum nýpróteinum og sjálfbærum matvælakerfum í langan tíma og hefur skipað sér í hóp fremstu aðila sem stunda slíkar rannsóknir. Við munum að sjálfsögðu byggja á þessu og halda áfram þessari vegferð. Okkar markmið er að hafa jákvæð áhrif á matvælaframleiðslu í heild sinni hvort sem litið er til Íslands eða Evrópu, með sjálfbærni að leiðarljósi öllum til heilla”.
Lokaráðstefna verkefnisins fer fram 7. og 8. September og er þar um að ræða einskonar uppskeruhátíð. Birgir segist spenntastur fyrir því að hitta hópinn aftur. Verkefnið fór í gegnum allar bylgjur Covid sem gerði það að verkum að við gátum ekkert hist í meira en 2 ár sem er mjög óvanalegt fyrir slíkt samstarfsverkefni og óþægilegt fyrir marga. „Það verður því gaman að geta fagnað góðum árangri með öllum þátttakendum verkefnisins og rætt næstu skref”.
Við hvetjum áhugasöm til þess að fylgjast með niðurstöðum verkefnisins sem koma smám saman inn á vefsíðu þess NextGenProteins.eu og skrá sig jafnvel á lokaráðstefnuna. Mögulegt er að horfa á ráðstefnuna á netinu.