Fréttir

Vilt þú taka þátt í rannsókn á nýju andlitskremi?

Viltu taka þátt í rannsókn á áhrifum efna úr þangi á öldrunareinkenni heilbrigðrar húðar?

Rannsóknin felur í sér samanburð á teygjanleika, raka og húðfitu í andliti fyrir og eftir um 12 vikna notkun á andlitskremi. Helmingur þátttakenda fær krem með efnum úr þangi en hinn helmingurinn sama krem án efna úr þangi. Eftir að rannsókn lýkur verður dregið úr hópi þátttakenda tvö 20.000 kr. peningaverðlaun.

Þú getur tekið þátt ef þú ert:

  • á aldrinum 40 til 60 ára
  • með heilbrigða húð og ekki með þekkt undirliggjandi húðvandamál

Hvað þarf þú að gera?

  • Nota andlitskremið tvisvar á hverjum degi, kvölds og morgna.
  • Ekki nota önnur andlitskrem meðan á rannsókn stendur
  • Mæta þrisvar í mælingu til Matís, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík: fyrir notkun, eftir um 6 vikna og um 12 vikna notkun á andlitskreminu
  • Svara spurningakönnun um upplifun á kreminu eftir síðustu mælingar

Hvernig skráir þú þig?

  • Sendir tölvupóst til Aðalheiðar Ólafsdóttur adalheiduro@matis.is með eftirfarandi upplýsingum:
  • nafni
  • fæðingarári
  • netfangi
  • símanúmeri
  • stuttri lýsingu á því hvaða húðvörur þú notar reglulega á andlit (t.d. andlitskrem, tóner, serum, hreinsivörur)

Rannsóknin er hluti af verkefninu MINERVA sem miðar að því að auka og bæta nýtingu stórþörunga sem framleiddir eru á sjálfbæran hátt og þróa nýjar verðmætar vörur úr þeim. Verkefnið er styrkt af ERA-NET Cofund Blue Bioeconomy og er samstarfsverkefni fyrirtækja, háskóla og rannsóknafyrirtækja á Írlandi, Íslandi og í Svíþjóð.

Nánari upplýsingar eru sendar ef áhugi er fyrir þátttöku.

Fréttir

Sumarhátíð Matís

Verið öll hjartanlega velkomin á sumarhátíð Matís þann 7. júní næstkomandi kl 16:00 – 18:00 að Vínlandsleið 12.

Það verður sannkölluð skemmtun fyrir alla fjölskylduna, þar sem Stjörnu Sævar mun mæta á svæðið, andlitsmálning fyrir börnin ásamt spennandi vísindastöðvum fyrir unga sem aldna.

Smelltu á myndina hér fyrir neðan til að fara á viðburðinn á Facebook.

Sjáðu myndirnar frá sumarhátíðinni:

Fréttir

Þekkir þú matarlistamann framtíðarinnar?

Verkefnið NextGenProteins, sem unnið er að hjá Matís, hefur efnt til myndasamkeppni fyrir nemendur á aldrinum 8-10 ára (3-4. bekkur grunnskóla). Viðfangsefni keppninnar er matur framtíðarinnar, en krakkarnir eru hvattir til þess að láta hugan reika og setja niður á blað hvernig þeir sjá fyrir sér mat framtíðarinnar. Það má senda teikningu, málverk eða aðra myndræna útfærslu. Hámarksstærð mynda er A3 og skulu þær berast til Matís í bréfpósti.

Helstu upplýsingar: 

  • Opnar:  1. maí 2023
  • Hverjir mega taka þátt? Krakkar á aldrinum 8-10 ára
  • Lokar: 1. júní 2023

Til mikils að vinna!
Verðlaun:

  1. Nintendo Switch Light
  2. 15.000 króna gjafabréf í Smáralind
  3. 10.000 króna gjafabréf í Spilavini

Með því að taka þátt í keppninni, er veitt samþykki fyrir birtingu myndanna á miðlum verkefnisins. Þegar myndum er skilað, skal nafn þátttakanda og nafn myndar fylgja.

Nánari upplýsingar veitir Katrín Hulda Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Matís í netfang: katrinh@matis.is

Fréttir

Málþing Matís um framtíð matvælaframleiðslu

Þann 6. júní næstkomandi stendur Matís fyrir sérstöku málþingi um framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi og hlutverk matvælarannsókna til að stuðla að sjálfbærri framleiðslu, nýsköpun og aukinni verðmætasköpun.

Dagskrá:

Ávarp

  • Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, opnar fundinn

Erindi

  • Rannsóknir á uppsjávarfiski
  • Rannsóknir á fiskeldi
  • Matvælaöryggi á Íslandi | nýjar áskoranir
  • Matvælaframleiðsla og loftlagsmál
  • Sjálfbær áburðarframleiðsla á Íslandi
  • Kátur er kjötfullur krummi
  • Íslenskt korn og fæðuöryggi
  • Eru þörungar matur framtíðarinnar?
  • Ný tækifæri í þörungarækt. Prof. Alejandro H. Buschmann
  • Umræður

Fundarstjórn:

Bergur Ebbi Benediktsson

Hvenær

6. júní, 2023 – frá 9:00 – 12:30 

Hvar

Norðurljósasalur Hörpu

Skráning á viðburðinn

Viðburður á Facebook

Fréttir

Ársskýrsla Matís fyrir 2022 er komin út

Ársskýrsla Matís fyrir árið 2022 er nú aðgengileg hér á vefnum.

Það er ljóst að framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi felur í sér stórar áskoranir en jafnframt stórkostleg tækifæri. Við þurfum að tryggja að hér sé nægur öruggur og heilnæmur matur fyrir alla. Við þurfum að draga úr neikvæðum um hverfisáhrifum matvælaframleiðslu og stuðla að sjálfbærri nýtingu lands og sjávar til að auðlindirnar geti áfram þjónað komandi kynslóðum.

Ársskýrsluna má nálgast hér.

Fréttir

Doktorsvörn í matvælafræði – Hang Thi Nguyen

Þriðjudaginn næsta, 18. apríl, mun Hang Thi Nguyen verja doktorsverkefni sitt í matvælafræði. Verkefnið ber heitið: Ný prótein til manneldis úr hliðarstraumum fiskvinnslu og vannýttum fisktegundum.

Doktorsvörnin fer fram í hátíðarsal aðalbyggingar HÍ og hefst kl 13:00.

Andmælendur:

Dr. Heidi Nielsen, rannsóknarstjóri Nofima í Tromsö, Noregi

Dr. Ida-Johanne Jensen, aðstoðar  prófessor við NTNU/UiT í Þrándheimi, Noregi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi:

Umsjónarkennari var María Guðjónsdóttir og leiðbeinandi Sigurjón Arason, prófessor og yfirverkfræðingur hjá Matís.

Einnig í doktorsnefnd: Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor.

Dr. María Guðjónsdóttir, prófessor og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni.

Frekari upplýsingar má finna með því að smella hér.

Fréttir

Fagfundur Sauðfjárræktarinnar 2023

Fagfundur Sauðfjárræktarinnar var haldin í gær, fimmtudaginn 13. apríl á Hvanneyri. Fundurinn sem er árlegur var haldinn í húsakynnum Landbúnaðarháskólans og er það fagráð sauðfjárræktar sem stendur fyrir viðburðinum.

Mörg áhugaverð erindi voru tekin fyrir á fundinum. Guðjón Þorkelsson stefnumótandi sérfræðingur hjá Matís var með erindið: Skiptir fitusprenging máli fyrir bragðgæði íslensks lambakjöts? og Sæmundur Sveinsson fagstjóri hjá Matís var með erindið: Leitin að erfðaþáttum bógkreppu- Staða verkefnis og framtíðarhorfur.

Mynd: Lbhí
Mynd: Lbhí

Við hvetjum áhugasama til að horfa á fagfundinn í heild sinni á Youtube rás Bændasamtaka Íslands, með því að smella hér.

Erindið: Leitin að erfðaþáttum bógkreppu- Staða verkefnis og framtíðarhorfur hefst 1:43:00

Erindið: Skiptir fitusprenging máli fyrir bragðgæði íslensks lambakjöts? hefst 2:07:00

Forsíðumynd: Lbhí

Fréttir

Örverumæliþjónusta Matís fær endurvottun á faggildingu NYSDOH

Örverumæliþjónusta Matís fékk nýverið úttektaraðila frá NYSDOH (New York State Department of Health) í heimsókn. Þessi úttekt er liður í að viðhalda faggildingu rannsóknarstofunnar til að mæla örverur í átöppuðu neysluvatni sem er ætlað til sölu á Ameríku markað.

Örverumæliþjónusta Matís er eina rannsóknarstofan hér á landi sem uppfyllir þessar NYSDOH kröfur samkvæmt NELAC staðlinum. Að auki uppfyllir Matís kröfur ÍST EN ISO / IEC 17025 staðalsins og er einnig með faggildingu á vegum Swedac (Swedish Board for Accreditation and Conformity).

Heimsóknin stóð yfir frá 8. mars til 9. mars og gerði úttektaraðilinn ítarlega könnun á gæðakerfinu í heild sinni auk þess að taka fyrir þær rannsóknaraðferðir sem faggiltar eru samkvæmt NELAC staðlinum. Eins og áður kom fram eru þetta aðferðir til að mæla örverur í átöppuðu neysluvatni.

Úttektir eins og þessar bjóða upp á frábær tækifæri, og starfsfólk Örverumæliþjónustunnar leggur metnað í að nýta þær til að betrumbæta gæðakerfið og alla þjónustu við sína viðskiptavini í heild sinni.

Halla Halldórsdóttir gæðastjóri rannsóknastofa

Kynnið ykkur faggiltar rannsóknaraðferðir sem í boði eru hjá Örverumæliþjónustu Matís með því að smella hér.

Fréttir

Hefur þú áhuga á eldi? Þverfaglegt námskeið á meistarastigi

Með aukinni fólksfjölgun þarf að tryggja fæðuöryggi framtíðarinnar en jafnframt gæta að áhrifum á umhverfi og loftslag. Matur sem kominn er af eldi hefur eitt lægsta kolefnisspor dýraafurða og þá sérstaklega matur sem kemur af lægri stigum fæðukeðjunnar. Það eru til dæmis ostrur, kræklingar og sæeyru. Um þetta, og fleira er fjallað í nýju netnámskeiði sem UiT Norges arktiske universitet (The Arctic University of Norway) býður upp á. Námskeiðið er þverfaglegt og á meistarastigi.

Námskeiðið opnar 3. apríl, og er opið öllum.

Í námskeiðinu er farið yfir víðan völl tengt eldi á lægri stigum fæðukeðjunnar. Fjallað er um líf- og vistfræði helstu tegunda, umhverfisáhrif, sjálfbærni, hagfræði og fleira. Nemendur með ólíka þekkingu og reynslu ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Námskeiðið byggir á stuttum fyrirlestrum á formi myndbanda, verkefnum og lesefni. Ljúki nemendur námskeiðinu geta þeir fengið skírteini þess efnis frá UiT.

Námskeiðið var búið til sem hluti af AquaVitae verkefninu, en það er Evrópuverkefni, styrkt af Horizon 2020 (Grant Agreement No 818173) áætlun Evrópusambandsins, með það að markmiði að auka vægi eldis á lægri stigum. Matís er hluti af bæði verkefninu og þróunarteymi námskeiðsins.

Kynntu þér námskeiðið nánar, hér.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Katrínu Huldu Gunnarsdóttur sérfræðing hjá Matís katrinh@matis.is.

Fréttir

Nýtt vefforrit til að reikna næringargildi

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Á vefsíðu Matís er nú boðið upp á vefforrit til að reikna næringargildi matvæla út frá uppskrift. Forritið sækir upplýsingar í ÍSGEM gagnagrunn Matís en það auðveldar útreikninga á næringargildinu.

Vefforritið var unnið í verkefninu Nýjar lausnir fyrir vinnu við merkingar matvæla en það var styrkt af Matvælasjóði. Verkefnið var unnið í samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla / Beint frá býli. Matís hefur unnið með samtökunum mörg undanfarin ár og því var ljóst að þörf var á því að auðvelda vinnuna við merkingar matvæla. Vefforritið á að flýta fyrir og einfalda vinnuna við merkingar matvælanna þar sem bæði er hægt að vinna með ÍSGEM gögn og eigin gögn. Mjög mikilvægt er fyrir smáframleiðendur að halda vel utan um upplýsingar um öll hráefni. Vefforritinu fylgir ítarleg handbók um notkun forritsins og aðrar upplýsingar sem þarf á að halda við merkingar matvæla. Forritunarvinna var unnin af fyrirtækinu Hugsjá ehf.

Vefforritið má nálgast hér.

Leiðbeiningar um notkun vefforritsins má finna hér:

IS