Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu.
Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum, það er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynleg.
Þessi skýrsla tekur saman niðurstöður sem fengust árið 2022 og eru almennt í samræmi við fyrri niðurstöður sem fengust á vöktunarárunum 2003 til 2012 og 2017 til 2021.
Öll sýni af sjávarfangi, sem greind voru árið 2022, innihéldu díoxín, díoxínlík PCB (DL-PCB) og ekki díoxínlík PCB (NDL-PCB) undir hámarksgildum skv. ESB reglugerðum. Niðurstöðurnar leiddu einnig í ljós að styrkur þungmálma, t.d. kadmíums (Cd), blýs (Pb) og kvikasilfurs (Hg) í ætum hluta sjávarafla var vel undir þeim hámarksmörkum sem ESB setur.
Í nýjasta hefti World Fishing & Aquaculture er viðtal við Jónas R. Viðarsson, Sviðsstjóra hjá Matís, um hvernig tekist hefur að auka fullnýtingu á sjávarfangi á Íslandi á undanförnum áratugum, og hvaða tækifæri séu fyrir hendi varðandi enn frekari nýtingu og verðmætasköpun í sjávarútvegi.
Horft er til Íslands sem fordæmi um hvernig hægt sé að stórauka nýtingu og verðmætasköpun í sjávarútvegi, en þar hefur Matís í samstarfi við fyrirtæki, háskóla og yfirvöld spilað stórt hlutverk.
Viðtalið við Jónas var tekið á ráðstefnunni Fish Waste For Profit, sem haldin var í júní sl. En þar komu saman sérfræðingar og hagaðilar alls staðar að úr heiminum til að ræða hvernig unnt sé að auka nýtingu í sjávarútvegi.
Viðtalið við Jónas má finna með því að smella hér:
Saltfiskur er nátengdur sögu okkar Íslendinga og menningu. Matís hefur undanfarin ár unnið að verkefnunum Lífið erSaltfiskur fyrr og nú og Saltfiskkræsingar til að styrkja stöðu saltfisksins og þróa nýja og bætta tilbúna rétti sem byggja á hefðbundnum saltfiski. Kolbrún Sveinsdóttir verkefnastjóri, ásamt fleiri sérfræðingum hjá Matís, hefur unnið ötullega að verkefnunum og segir okkur hér allt frá gangi mála.
Alvöru saltfiskur ætti í raun að vera á pari við það sem Parmaskinka er Ítölum
Löng hefð er fyrir vinnslu saltfisks hér á landi, og hefur saltfiskurinn verið samofinn sögu Íslendinga og matarmenningu í árhundruð. Í dag er útflutningur á fullsöltuðum fiskafurðum á meðal verðmætustu útflutningsvara okkar. Mestur hluti útflutts saltfisks fer til landa eins og Spánar, Portúgals, Ítalíu, Grikklands, Frakklands og Brasilíu en í þessum löndum hefur skapast löng og mikil hefð fyrir neyslu saltfisks sem lúxusvöru á veitingarhúsum og eins hjá hinum venjulega neytenda þar úti.
„Á sama tíma er varla hægt að fá alvöru saltfisk hér heima, hvort heldur sem væri í fiskbúðum, matvöruverslunum eða veitingahúsum. Saltaður fiskur er jafnvel seldur sem saltfiskur. Okkur fannst afar mikilvægt að skapa þessari alvöru lúxusvöru hærri sess á Íslandi, Ísland ætti eiginlega að vera Mekka saltfisksins,” útskýrir Kolbrún.
„Þá er ekki gáfulegt að bjóða upp á fisk, sem ekki er raunverulegur saltfiskur. Það þarf að greina á milli þess sem sannarlega telst saltfiskur annars vegar og saltaður fiskur hins vegar,“ segir Kolbrún. Saltaður fiskur, yfirleitt léttsaltaður eða nætursaltaður hefur ekki sömu verkunnar einkenni og saltfiskur, sem er fullverkaður með salti og saltpækli og þá þurrsaltaður jafnvel vikum saman, áður en hann er útvatnaður, sem gefur þessari vöru einstaka eiginleika á borð við einkennandi verkunnarbragð og stinna áferð. Alvöru saltfiskur ætti í raun að vera á pari við það sem Parmaskinka er Ítölum, að mati Kolbrúnar.
„Annað sem okkur langaði að laga varðandi ímynd saltfisks, var sú mýta, að saltfiskur eigi að vera saltur. Við vildum koma því til skila að saltfiskur, sem er rétt útvatnaður, eigi ekki að vera brimsaltur.”
„Málið er nefnilega, að eftir útvötnun ætti saltmagn að vera á pari við saltmagn í fjölda matvæla sem margir neyta, oft daglega, eins og algeng morgunkorn á borð við kornflex eða Cheerios.”
„Margir réttir, á borð við pizzur og hakkrétti innihalda gjarnan sambærilegt saltmagn, eða töluvert hærra, eins og farsbollur, soðna skinku og hangikjöt, samkvæmt gagnagrunninum ÍSGEM,” segir Kolbrún.
Mikil þekkingtilá verkun, útvötnun, geymsluþoli og gæðum
Matís hefur unnið ötullega að rannsóknaverkefnum um saltfisk, og hér hefur orðið til gríðarleg þekking á verkun, útvötnun, geymsluþoli og gæðum. Þrír doktornemar hafa stundað fræðilega rannsóknir í samráði við sjávarútvegsfyrirtæki á öllu verkunarferlinu og markmið þeirrar vinnu var öðlast dýpri þekkingu á eðlis- og efniseiginleikum hráefnis og lokaafurðar til að bæta afkomu greinarinnar og um leið að geta framleitt afurð með rétt gæði fyrir kröfuharða markaði. Þeirri þekkingu hefur verið miðlað með ýmsu móti til hagaðila, ekki síst saltfiskframleiðenda.
„Hins vegar var þörf á að efla virðiskeðjuna innanlands í heild, og kynna saltfiskinn betur sem þá sælkeraafurð sem hann er,” segir Kolbrún.
Meginmarkmið verkefnisins Lífið er saltfiskur fyrr og nú, sem styrkt var af AG-Fisk, var að auka þekkingu á sjávarfangi, eins og saltfiski, og stuðla þannig að aukinni virðingu og þannig auknu virði þess. Í verkefninu voru skoðaðar og kynntar hefðir, nýjungar, vinnsluaðferðir, eiginleikar og gæði saltfisks. Haldnar voru vinnustofur og fundir með matreiðslumönnum, ásamt kynningum, sem fram fóru á Íslandi og öðrum norðurlöndum í samvinnu við Íslandsstofu, markaðsfyrirtæki og saltfiskframleiðendur.
Vel heppnuð vinnustofa um saltfisk
Haldin var vinnustofa um saltfisk á vegum Matís þann 30. apríl 2019. Vinnustofuna sóttu saltfiskframleiðendur, matreiðslumeistarar og nemar við matreiðslunám Menntaskólans í Kópavogi (MK). Markmið vinnustofunnar var að gera saltfiski hærra undir höfði, kynnast eiginleikum saltfisks, sögu og menningu, meta stöðuna eins og hún er, velta upp tækifærum og hindrunum og skiptast á skoðunum og reynslu af saltfisk.
Niðurstöður vinnustofunnar sýndu að þátttakendur fundu verulegan mun á útvötnuðum saltfiski og léttsöltuðum fiski og voru sammála um að það þarf að kenna fólki hvernig saltfiskur er ólíkur ferskum fiski.
Matreiðslunemar sem þátt tóku töldu tækifæri saltfisks eru ærin og þeim fannst saltfiskur skemmtilegt hráefni að vinna með. Samhljómur var um að það vantaði vitundarvakningu hjá matreiðslumönnum og almenningi um það að saltfiskur eigi ekki að vera mjög saltur. Fiskur á veitingastöðum og fiskbúðum væri oft of saltur. „Það gæti ýtt undir að neytendur veigri sér við að kaupa saltfisk en velji frekar léttsaltaðan eða nætursaltaðan fisk þar sem saltbragð er jafnara,” útskýrir Kolbrún.
Saltfiskvika sem sló í gegn
Í kjölfar vinnustofunnar var ákveðið að ráðast í ímyndarátak fyrir saltfisk sem sælkerafæði, viku viðburð sem bar heitið „Saltfiskvika“. Helsta markmið Saltfiskvikunnar var að gera saltfisknum hærra undir höfði hérlendis og kynna óþrjótandi möguleika, gæði og áhugaverða sögu saltfisks fyrir íslenskum og erlendum gestum. Leiðbeiningar um meðhöndlun og útvötnun voru útbúnar og veitingastaðir og mötuneyti hvött til þátttöku.
Til að meta upplifun þeirra sem tóku þátt í saltfiskvikunni, var þeim sendur spurningalisti. Almenn ánægja mældist meðal þeirra 13 veitingastaða og 10 mötuneyta sem buðu upp á saltfisk í Saltfiskviku. Hlutfallslega margir pöntuðu saltfiskrétt á veitingastöðum og saltfiskréttum var vel tekið af gestum. Helstu hvataþættir þátttöku í Saltfiskviku voru margvíslegar, en helst mætti þar nefna skemmtilega tilbreytingu, gaman væri að hitta erlenda kokka og að viðburðurinn hafi góð áhrif á fjölbreytni og sköpunargleði á vinnustaðnum, sem og að það væri mikilvægt að kynna hráefnið bæði fyrir Íslendingum og erlendum ferðamönnum.
„Flestir þátttakenda sem hafa sjaldan eða aldrei boðið upp á saltfisk telja líklegt að þeir muni hafa hann oftar á boðstólum eftir saltfiskvikuna,” segir Kolbrún.
Áhrifin láta ekki á sér standa
Þar sem verkefninu var ætlað að stuðla að bættir ímynd saltfisks og styðja jafnframt við aukna þekkingu matreiðslufólks, á meðferð, gæðum og möguleikum saltfisks almennt, mætti segja að saltfiskframleiðendur og matreiðslufólk séu beinir hagaðilar. Einnig neytendur, bæði innlendir og erlendir, sem bera hag af því heilsulega að borða rétt útvatnaðan saltfisk, sem ekki er of saltur, auk þess að hafa fjölbreyttara úrval sælkerarétta sem dekra við bragðlauka og matarupplifun almennt.
Þrátt fyrir útgáfu Saltfiskbókarinnar, hefur saltfiskur orðið útundan í kennslu matreiðslunema. Verkefnið hefur komið með nýja áherslu í fræðsluefni og um leið breytt þeirri stöðu til batnaðar, og eftir að vinnustofan innan verkefnisins var haldin, hefur MK nýtt það efni sem þar var kynnt, til kennslu í skólanum. Því má ætla að upprennandi og nýir matreiðslumeistarar kunni góð skil á saltfiski sem mun skila sér í veitinga og matarflóruna á Íslandi til framtíðar.
Frábærir og meira úrval af saltfiskréttum hafa skilað sér á matseðla veitingastaða, og nefna má sem dæmi að hjá Einsa Kalda í Vestmanneyjum, er saltfiskréttur þeirra einn af vinsælustu réttunum frá því að Saltfiskvikan var haldin. Þar hefur skapast samvinnugrundvöllur saltfiskvinnslunnar í Vestmannaeyjum (Vinnslustöðin í Vestmanneyjum) og Einsa Kalda við útvötnun á fullverkuðum saltfiski.
„Í magni talið, selur þessi eini veitingastaður nú meira af útvötnuðum fullverkuðum saltfiski (í rétti af matseðli), en eina matvöruverslunarkeðjan á Íslandi sem selur útvatnaðan fullverkaðan saltfisk, á ársgrundvelli,” útskýrir Kolbrún.
FramhaldsverkefniðSaltfiskkræsingar
Verkefninu Lífið er saltfiskur fyrr og nú er lokið. Þó að það verkefni hafi skilað góðum árangri, þarf meira til þess að koma saltfiski almennilega á kortið hjá okkur Íslendingum, sem sælkerafæða, með alla sína sögu, menningu og sérkenni. Til að fylgja þessu eftir var sótt um framhaldsverkefni, Saltfiskkræsingar, sem hófst núna 2022, en það hlaut einnig styrk frá AG Fisk. Verkefnið snýst mikið um miðlun þekkingar, og í haust var haldin vinnustofa í húsakynnum Menntaskólans í Kópavogi, í samstarfi Matís, Menntaskólans í Kópavogi (MK), Gríms Kokks, Klúbbs Matreiðslumeistara og íslenskra saltfiskframleiðenda. Niðurstöður þeirrar vinnustofu sýndu að það virðast endalaus tækifæri og sóknarfæri fyrir saltfiskinn, en að við þurfum hins vegar að greiða betur leið saltfisksins á íslenskan markað, og að því miða næstu skref innan Saltfiskkræsinga.
Verkefnið var unnið í samstarfi Matís við Íslandsstofu, Klúbb matreiðslumeistara, Menntaskólann í Kópavogi, Íslenska saltfiskframleiðendur og fleiri. Að verkefninu komu einnig norrænir samstarfsaðilar í Noregi og Færeyjum. Verkefnið hlaut styrk frá AG-Fisk á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og AVS Rannsóknasjóði.
Síðastliðið sumar vann Sigmundur Páll Freysteinsson, meistaranemi í textíl og fatahönnun við Kyoto University og Kyoto Seika Univeristy í Japan, að verkefninu Framtíðarnýting stór- og smáþörunga í textíliðju á Íslandi í nánu samstarfi við Matís. Verkefnið var stutt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Textíl- og fataiðnaður á langt eftir í að tileinka sér betri og umhverfisvænni ferla og talinn einn mest mengandi iðnaður í heiminum. Þörungar geta verið einstakt hráefni til að nýta til umhverfisvænnar textíllitunar. Ýmsar þjóðir hafa áttað sig á nýtingarmöguleikum stór- og smáþörunga en nú er tækifæri til að nýta þá í framleiðslu á náttúrulegum textíllitum, sem ekki hefur þekkst áður. Verkefnið fólst bæði í ítarlegri rannsókn á heimildum um fjörunytjar á Íslandi sem og litatilraunum með þeim stór- og smáþörungum sem koma til greina við framleiðslu á stórum skala. Verkefnið horfir til framtíðar og stuðlar að sjálfbærni, nýsköpun og nýjum tækifærum tengdum textíliðju, hönnun og þörungaræktun á Íslandi. Eitt af hráefnunum sem voru prófuð voru blátt næringar- og andoxunarefni sem VAXA Technologies hefur þróað meðal annars í verkefninu Iceblue. Einnig voru prófaðir stórþörungar úr verkefninu MINERVA.
Matís tekur einnig þátt í báðum þessum verkefnum en Iceblue er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís sem hluti af Eurostars áætlun Evrópusambandsins. MINERVA er styrkt af BlueBio Cofund.
Matís fékk styrk úr Matvælasjóði árið 2022 til að vinna verkefnið Nýjar lausnir fyrir vinnu við merkingar matvæla. Verkefninu er sérstaklega ætlað að auðvelda smáframleiðendum matvæla að upppfylla kröfur um merkingar á nýjum framleiðsluvörum. Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) eru samstarfsaðilar í verkefninu.
Í þessum tilgangi hefur verið unnið að leiðbeiningum, söfnun gagna um hráefni og skráningu þeirra í íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) hjá Matís. Jafnframt hefur verið unnið að þróun einfalds reiknitóls til að setja fram næringargildi framleiðsluvara. Loks hefur framsetning á næringargildisupplýsingum á vefsíðu Matís verið endurbætt. Hægt er að leita að fæðutegundum og hráefnum á vefsíðu Matís og birtist þá listi yfir næringarefnin. Framsetningin er nú mun greinilegri en áður og er næringarefnunum skipt upp í flokka. Í ljós kom að gögn fyrir sum næringarefnin voru orðin gömul og óáreiðanleg og því eru birtar upplýsingar um færri efni en áður. Matís var í samstarfi við Ívar Gunnarsson tölvunarfræðing hjá Hugsjá í þessu verkefni og á hann heiðurinn af forritunarvinnunni.
Hópur nemenda í námskeiðinu Inngangur að verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík, heimsóttu Matís á dögunum. Nemendurnir hlutu verðlaun fyrir verkefni sitt um framleiðslu endurnýjanlegs lífplasts úr þara fyrir drykkjarör.
Í verkefni sínu unnu nemendur að því að leysa af hólmi plaströr, þar sem nýjungar sem hafa komið fram á markaðinn, s.s. stálrör og papparör eru óhentug fyrir notendur. Nemendurnir ákváðu því að framleiða rör úr lífplasti úr þara. Hópurinn heimsótti Matís á dögunum og ræddu við Sophie Jensen verkefnastjóra til að afla sér aukinnar þekkingar á viðfangsefninu.
Við mælum með að horfa á myndband nemendanna hér að neðan.
Nemendur í hópnum eru:
Emil Örn Aðalsteinsson
Hafdís Sól Björnsdóttir
Halldór Jökull Ólafsson
Helgi Hrannar Briem
Katla Ýr Gautadóttir
Við þökkum nemendunum kærlega fyrir heimsóknina og óskum þeim góðs gengis.
Í þættinum Vísindin og við sem sýndur er á Hringbraut er viðtal við Ingibjörgu Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Agnesi Þóru Árnadóttir, PhD nema hjá Matís.
Í viðtalinu ræðir Ingibjörg um hvaða áhrif næring á meðgöngu hefur á heilsu bæði móður og barns og rannsóknir sem gerðar hafa verið til að meta almennt næringarástand. Agnes Þóra hefur verið að skoða áhrif næringu móður á meðgöngu á þarmaflóru barnsins. Sýnin eru tekin við 4 mánaða aldur, 6 mánaða aldur, 1 árs og 2 ára. Verið er að fylgjast með því hvernig þarmaflóran þróast hjá þessum börnum og það skoðað út frá því hvað móðirin er að borða á meðgöngunni. Bæði er rannsakað lífsýni og spurningarlisti, sem mæður eru beðnar um að svara.
Við mælum með að horfa á þáttinn í heild sinni á Hringbraut:
Webinar um niðurstöður samstarfsverkefnis Matís og Háskólans í Reading sem heitir “Essential minerals in milk: their variation and nutritional implications” verður haldið rafrænt þann 16. desember næstkomandi kl 12:00. Verkefnið sem fjallað er um heitir NUTRIMILK og er styrkt af EIT food.
Mjólkursýni voru tekin úr búðum í Bretlandi í heilt ár (bæði lífræn mjólk og hefðbundin) og mjólkin rannsökuð m.t.t. steinefna og snefilefna. Markmiðið er að sjá hvort það séu árstíðabundnar breytingar, sem gætu m.a. orsakast af því að samsetning fóðurs er mismunandi eftir árstíðum (t.d. eru kýrnar meira úti á sumrin). Niðurstöðurnar eru skoðaðar með næringarþarfir neytenda í huga, en taka þarf tillit til þess að næringarþarfir mismunandi samfélagshópa geta verið breytilegar.
Fyrirlesturinn fer fram í gegnum Teams frá 12:00 – 13:00. Dr Sokratis Stergiadis dósent í Háskólanum í Reading heldur erindið: Macrominerals and trace elements in cows’ retail milk: seasonal variation and implications for consumer nutrition.
Þátttaka er frí en skráning er nauðsynleg með því að smella á skráningarhnappinn hér að neðan:
This activity has received funding from EIT Food, the innovation community on Food of the European Institute of Innovation and Technology (EIT), a body of the EU, under the Horizon 2020, the EU Framework Programme for Research and Innovation.
Abstract: Milk is an important dietary source of essential macrominerals and trace elements (Ca, I, P, Zn, K, Se, Mg, Na), but there is substantial seasonal variation in their concentrations because of different feeding management between seasons. This large variation may increase the risk of nutrient imbalances throughout the year, particularly in demographics with higher requirements (toddlers, children, pregnant/nursing women). Farm-to-fork interventions can improve consistency in mineral composition but the seasonal and production systems’ variation of the retail milk mineral profile is unknown, thus making it difficult for the food and livestock industry to identify the potential risks to nutrient supply. This project study will investigate the seasonal variation in macromineral and trace element concentrations of milk from conventional and organic dairy systems, and assess the impact on mineral intakes of the different demographics across the year. Results can be used to inform food-chain interventions for optimum milk mineral contents.
Jónas Baldursson verkefnastjóri hjá Matís og Eva Margrét Jónudóttir sérfræðingur hjá Matís ræða hér verkefnið Sjálfbær áburðarframleiðsla, heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfið.
Rætt er um næringarefni áburðar, frumniðurstöður tilrauna og hvort að verkefnið hefði í raun átt að heita Skítamix. Farið er yfir sjálfbærni ferla með því að nýta aukaafurði úr ýmsum iðnaði, meðal annars moltu, kjötmjöl, kúamykju, fiskeldiseyru, kjúklingaskít og mannaseyru.
Við fáum að heyra hvað kom á óvart og mikilvægi þess að gera áburðarframleiðslu sjálfbæra.
Ekki láta þennan þátt framhjá þér fara. Hlustaðu í þáttinn í heild sinni hér:
Þáttastjórnandi: Hildur Ýr Þráinsdóttir
Samstarfsaðilar verkefnisins eru: Atmonia, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Landgræðslan og Landsvirkjun.