Fréttir

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra í Vestmannaeyjum

Tengiliður

Tinna Brá Sigurðardóttir

Mannauðsstjóri

tinnabra@matis.is

Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV) og Matís ohf. óska eftir að ráða verkefnastjóra í 100% starf, um 50% starf hjá hvoru fyrirtæki. Starfstöðin er í skapandi umhverfi ÞSV og samstarfsaðila að Ægisgötu 2 í Vestmannaeyjum.

Meginhluti starfsins hjá ÞSV í samstarfi við framkvæmdastjóra þess felst í að sinna svæðisbundnum verkefnum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) samkvæmt sérstökum samningi þar um. Þar á meðal að veita ráðgjöf á sviði atvinnu og menningar og hafa umsjón með styrkveitingum til áhugaverðara verkefna á sviði byggðaþróunar á Suðurlandi. 

Starfið hjá Matís snýr að öflun, skipulagningu og þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknar og nýsköpunarverkefnum á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Starfsstöðin í Vestmannaeyjum verður í góðum tengslum við matvælaframleiðendur á öllu Suðurlandi. Viðkomandi mun veita þjónustu m.a. við matvælarannsóknir, ráðgjöf og styrkumsóknir til rannsóknasjóða í samstarfi við aðra sérfræðinga Matís.

Starfssvið

■ Samstarf við fyrirtæki, einstaklinga og sveitarfélög um byggðaþróun og nýsköpun á Suðurlandi  

■ Viðskipta- og rekstraráðgjöf 

■ Verkefnaöflun og aðstoð við fjármögnun verkefna s.s. með gerð styrkumsókna 

■ Verkefnastjórnun 

Hæfniskröfur

■ Menntun sem nýtist í starfi t.d. matvælafræði, sjávarútvegsfræði, verkfræði, viðskiptafræði eða tæknimenntun 

■ Góð færni í mannlegum samskiptum 

■ Góð færni í tjáningu í ræðu og riti 

■ Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður 

Öll kyn eru hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá auk símanúmers eða tölvupóstfangs hjá meðmælenda.  

Nánari upplýsingar um starfið veita:  

Hörður Baldvinsson, frkvstj. ÞSV hbald@setur.is simi 841 7710 og Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís jonas@matis.is 422 5107. 

Umsóknarfrestur er til 13. nóvember n.k.

Ljósmynd: Shutterstock

Fréttir

Bætiefni matvælaframleiðslunnar
– Ný ásýnd Matís

Upprunalegt útlit og merki Matís var hannað við stofnun fyrirtækisins árið 2007. Merkið hefur þjónað okkur vel í gegnum árin, en nú er komið að því endurnýja merkið og fríska upp á ásýnd fyrirtækisins í takt við nýja tíma og skjámiðla. Á sama tíma viljum við nýta tækifærið og skerpa á skilaboðum okkar og sérstöðu í verðmætasköpun í matvælaframleiðslu, lýðheilsu og matvælaöryggi í landinu.

Með nýjustu tækni og vísindum getum við nú gert okkur mat úr því sem áður var óhugsandi. Við veitum fyrirtækjum og stofnunum í matvælaframleiðslu stuðning með þekkingu, rannsóknum og hugviti. Markmið okkar er að framleiðsla neysluvara verði sjálfbærari, hagkvæmari og heilnæmari, auk þess að þróa leiðir til að efla fæðuöryggi í heiminum.

Bætiefni matvælaframleiðslunnar

Nýtt tákn Matís er dropi, bætiefni. Við gerum gott betra, lengjum líftíma matvæla og erum bætiefni matvælaframleiðslu. Samskipti við hagaðila eru okkur hjartansmál og getur dropinn einnig táknað talbólu til marks um það.

ENNEMM auglýsingastofa sá um hönnun á nýju útliti Matís.

Fréttir

Af hverju saltfiskur?

Vinnustofan „Af hverju saltfiskur?“ var haldin þann 28. september 2022. Markmið vinnustofunnar var að miðla þekkingu úr hinum ýmsu áttum, og leita leiða til að styrkja stöðu saltfisksins á innanlandsmarkaði. Vinnustofuna sóttu um 40 manns, matreiðslunemendur, matreiðslumeistarar, framleiðendur, markaðsfólk, og síðast en ekki síst Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir.

Haldnar voru stuttar kynningar af sérfræðingum Matís um sögu, menningu, verkun og útvötnun saltfisks. Jafnframt um þekkingu og viðhorf neytenda til saltfisks og neyslu hans á Íslandi. Skynrænir eiginleikar saltfisks voru kynntir og fundargestir fengu tækifæri til að smakka og bera saman tvær gerðir saltfisks og tvær gerðir af söltuðum fiski. Þá kynntu matreiðslunemar MK hugmyndir sínar á bakvið saltfiskrétti, sem voru reiddir á borð. Að því loknu var unnið í þremur hópum, sem hver um sig tók efirfarandi umræðuefni:  “Hvað er saltfiskur- má kalla saltaðan fisk saltfisk?”, “Hvernig náum við til unga fólksins?” og “Hvernig er hægt að auka vöruframboðið?”

Niðurstöður vinnustofunnar sýndu að mikilvægt er að greina á milli þess sem sannarlega telst saltfiskur annars vegar og saltaðs fisks hins vegar. Saltaður fiskur, yfirleitt léttsaltaður eða nætursaltaður, hefur ekki sömu einkenni og saltfiskur, sem er fullverkaður með salti og saltpækli og þá þurrsaltaður jafnvel vikum saman, sem gefur þessari vöru einstaka eiginleika á borð við einkennandi verkunnarbragð og stinna áferð, eftir útvötnun.

Svo virðist sem það séu til staðar endalaus tækifæri og sóknarfæri fyrir saltfiskinn. Við þurfum hins vegar að greiða betur leið saltfisksins á íslenskan markað. Saltfiskur ætti í raun að vera okkur íslendingum, á pari við það sem parma skinka er Ítölum, hið minnsta.

Vinnustofan var haldin í húsakynnum Menntaskólans í Kópavogi, í samstarfi Matís, Gríms Kokks, Klúbbs Matreiðslumeistara, Menntaskólans í Kópavogi og Íslenskra saltfiskframleiðenda. Vinnustofan er hluti af verkefninu Saltfiskkræsingar (e. Trendy Cod) sem Matís hefur umsjón með, en NORA og AG-Fisk (Arbejdsgruppen for Fiskerisamarbejdet) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur veitt styrk til.

Vinnslustöðin hf og KG Fiskverkun gáfu saltfisk til vinnustofunnar.

Kynntu þér verkefnið Saltfiskkræsingar nánar, með því að smella hnappinn hér að neðan:

Forsíðumynd af saltfisk: Lárus Karl Ingvarsson

Fréttir

Trefjaríkt og hollt hýði ?

Viðtal við Ástu Heiðrúnu E. Pétursdóttir, sviðstjóra lýðheilsu og matvælaöryggis hjá Matís, birtist í Bændablaðinu þann 20. október síðastliðinn. Ásta greinir þar frá frumniðurstöðum í rannsóknarverkefninu „Trefjaríkt og hollt hýði? “ sem styrkt er af Matvælasjóði.

Í verkefninu Trefjaríkt og hollt hýði? er verið að rannsaka hliðarafurðir af ávöxtum og grænmeti, til að mynda hýði og börk, sem alla jafna er hent. Rannsakaðar eru ýmsar leiðir við nýtingu þessara hliðarafurða, ásamt því að kanna þátt varnarefna. Munur á varnarefni í íslensku grænmeti og því innflutta var rannsakaður og var áhugavert að sjá að niðurstöður sýndu að meira er af varnarefnum í innfluttu grænmeti heldur en því íslenska.

Niðurstöður gefa okkur vísbendingar um aukna notkun varnarefna, en líkt og Ásta greinir frá í viðtalinu þá þarf að taka fleiri sýni til þess að geta dregið ályktanir af niðurstöðum.

Viðtalið í heild sinni er hægt að finna í 19. Tölublaði bændablaðsins, á síðu 22, með því að smella hér

Fréttir

Þróun aðferða til vöktunar á lífríki botns við fiskeldi í sjókvíum

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Matís, RORUM, Háskóli Íslands, Tækniháskólinn í Danmörku (Danmarks Tekniske Universitet, DTU) og Fiskeldi Austfjarða (Ice Fish Farm) hafa tekið höndum saman um verkefnið BIOTOOL sem mun vinna að þróun nýrra erfðafræðilegra aðferða til vöktunar á lífríki botns við fiskeldi í sjókvíum.

Um er að ræða mjög umfangsmikið verkefni, sem er einstakt að því leiti að nýtt verður 20 ára gagnasafn og hátækni til þess að nema og vakta breytingar sem geta orðið á lífríki vegna fiskeldis í sjókvíum. Markmiðið er að þróa ódýrari og nákvæmari aðferð til vöktunar á mögulegum breytingum á botndýralífi vegna sjókvíaeldis, sem mun ekki aðeins auka hagkvæmni og bæta umhverfismál fiskeldis, heldur einnig aðstoða stjórnvöld og stofnanir, sem ábyrg eru fyrir leyfisveitingum og vöktun umhverfisins.

BIOTOOL verkefnið byggir á langtíma gögnum um fjölbreytni hryggleysingja á botni undir og nærri eldiskvíum og hvernig tegundasamsetning og fjölbreytni þeirra breytist við aukið lífrænt álag samfara fiskeldi. Í verkefninu verður nýjustu erfðatækni í umhverfisrannsóknum beitt, þar sem notast verður við svokallað „umhverfis erfðaefni“ (environmental DNA, eDNA) til að nema breytingar í botnvist undir sjókvíum. Verkefnið mun nota sjálfvirka umhverfissöfnunarvél (Environmental Sampling Processor, EPS) sem getur síað sjó, einangrað erfðaefni úr sjónum og magngreint allt að fimm dýrategundir til að nema breytingar í botnvist. Verkefnið mun miða að því að skilgreina þær fimm dýrategundir, vísitegundir, sem sýna breytileika í fjölda með auknu lífrænu álagi frá fiskeldi í sjókvíum. Erfðamörk til að nema eDNA þessara tegunda í sjó við fiskeldi, verða þróuð á rannsóknarstofu áður en aðferðin verður aðlöguð að umhverfissöfnunarvélinni, sem í framtíðinni verður hægt að koma fyrir í fjörðum í kringum Ísland til sjálfvirkra mælinga.

BIOTOOL er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Fréttir

Starfsrými til leigu

Matís auglýsir rými til leigu að Vínlandsleið 12 og 14 í Grafarholti.

Húsnæðið er um 30 fm og hentar vel fyrir matvælaframleiðslu þar sem unnið er með vörur sem þarfnast ekki kælingar eða frystingar.

Frekari upplýsingar veitir Jón Haukur Arnarson.

Fréttir

Vegvísir um nýtingu lífrænna efna til áburðargjafar í landbúnaði og landgræðslu

Matvælaráðuneytið vinnur nú að gerð vegvísis um nýtingu lífrænna efna til áburðargjafar í landbúnaði og landgræðslu. Vegvísirinn tekur mið af loftlagsstefnu stjórnvalda og stefnu um hringrásarhagkerfið og er ætlað að varða veginn að því hvernig settu markmiði um sjálfbæra nýtingu lífrænna efna til áburðar verði náð í skrefum árið 2040 eða fyrr.

Verkefnið felst meðal annars í því að setja fram beinskeytta og trúverðuga áætlun sem inniheldur m.a.: mat á núverandi ástandi, greiningu á tækifærum og forgangsröðun þeirra, sem og framsetningu sviðsmynda. Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á gerð vegvísisins, en hefur sér til halds og trausts ráðið Verkfræðistofuna Eflu til að aðstoða við verkið, auk þess sem stofnanir Ráðuneytisins og hagaðilar sitja í stýrinefnd, þ.e. Matís, RML, Landgræðslan og MAST.

Fjórða október sl. var haldinn vinnufundur í verkefninu þar sem 35 hagaðilar úr hinum ýmsu atvinnugreinum fengu tækifæri til að kynna sér gerð vegvísisins og koma með innlegg í vinnuna. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Matís og fóru þar fram góðar umræður sem án efa munu koma að gagni við gerð vegvísisins, sem til stendur að verði birtur fyrir lok árs.

Fréttir

Sjávarútvegsráðherra Sierra Leóne heimsækir Matís

Sendinefnd frá Sierra Leóne kom til landsins í lok september í boði utanríkisráðuneytisins til að kynna sér starfsemi helstu stofnanna er tengjast bláa hagkerfinu – Matís, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Sjávarútvegsskóla GRÓ.

Fyrir nefndinni var Emma Josephine Kowa, sjávarútvegsráðherra. Heimsókn nefndarinnar var undirbúningur að væntanlegum samstarfsverkefnum Íslands og Sierra Leóne, sem tengjast samkomulagi um tvíhliða samstarf landanna í þróunarmálum. Sierra Leóne er eitt fátækasta ríki veraldar þrátt fyrir aðgengi að töluverðum auðæfum, bæði á landi og sjó. Langvinnt grimmt borgarasrtíð reyndi á þjóðina en núverandi stjórnvöld eru staðráðin í þróa ríkið til betri vegar og horfa þar á betri nýtingu á auðæfum hafsins.

Sendinefndin ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins kom í heimsókn til Matís 20 september s.l. þar sem starfsemi fyrirtækisins var kynnt og húsakynni skoðuð. Í framhaldi voru umræður um aðkomu Matís að ýmsum verkefnum sem snerta bláa hagkerfið og fellur undir markmið utanríkisráðuneytisins um tvíhliða samstarf. Sjávarútvegsráðherra þakkaði Matís sérstaklega fyrir vel heppnað verkefni er varðaði reykingu fisks sem skilar betri gæðum og bættu heilsufari starfsfólks. En Matís hannaði reykofninn og aðstoðaði við smíði hans.

Fréttir

Tæknidagur fjölskyldunnar

Matís og Verkmenntaskóli Austurlands stóðu nýverið að Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð og er það í annað sinn sem staðið er að slíkri keppni. Nemendur á unglingastigi tóku þátt í Nýsköpunarkeppninni og höfðu þau sex vikur til þess að vinna hugmyndir að mögulegri nýtingu þangs og þara úr nágrenninu.

Í ár fór verðlaunaafhendingin fram á Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn var í Neskaupstað þann 1. október síðastliðinn. Tilgangur Tæknidagsins er að kynna tækni- og vísindastarf sem unnið er á Austurlandi auk þess að kynna starf Verkmenntaskóla Austurlands og var því vel við hæfi að tilkynna sigurvegara keppninnar á Tæknideginum.

Kennarar í grunnskólum Fjarðabyggðar unnu frábært starf í því að aðstoða nemendur við útfærslu á hugmyndunum og auk þeirra voru tveir „mentorar“ fengnir til liðs við verkefnið til að aðstoða, það voru Dr. Hildur Inga Sveinsdóttir (Matís) og Dr. Guðrún Svana Hilmarsdóttir.

Til þess að skera úr um sigurvegara keppninnar voru fengnir dómarar úr nærsamfélaginu sem búa yfir mikilli reynslu úr mismunandi áttum. Dómarar þessa árs voru þau Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð og Guðmundur Rafnkell Gíslason, framkvæmdastjóri Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað. Verkefni dómarana var ærið enda bárust um 30 lausnir frá grunnskólunum.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson var fenginn til þess að veita verðlaunin og gerði hann það við hátíðlega athöfn á Tæknideginum. Skemmst er frá því að segja að verkefnið Þaraplast sigraði og voru það nemendurnir Júlíus Sigurðarson og Svanur Hafþórsson úr Nesskóla sem stóðu að verkefninu. Um verkefnið hafði dómnefndin þetta að segja: „Mikil nýsköpun er í því verkefni að mati dómnefndar og höfundar hafa flotta framtíðarsýn um hvernig verkefnið geti breytt heiminum.“

Annað sæti hreppti verkefnið Fjörusalt en að því stóðu þau Þór Theódórsson og Stefanía Guðrún Birgisdóttir úr Nesskóla. Dómnefndin hafði eftirfarandi um verkefnið að segja: „hugmyndin er metnaðarfull um nýtingu fjalls og fjöru og spennandi væri að sjá hana koma á markað.“

Þriðja sæti hlaut verkefnið Þaramálning og stóðu að því þær Anna Ragnarsdóttir, Ólafía Danuta Bergsdóttir og Kolka Dögg Ómarsdóttir úr Eskifjarðarskóla og lýsti dómnefndin verkefninu með eftirfarandi hætti: „afar frumlega hugmynd og mikil nýsköpun til staðar.“

Við verkefnastjórn fyrir hönd Matís var Stefán Þór Eysteinsson verkefnastjóri. Matís vill koma sérstökum þökkum á framfæri til Birgis Jónssonar verkefnisstjóra úr Verkmenntaskóla Austurlands, dómnefndar, kennara, skólastjórnenda, „mentora“, forseta Íslands og allra þeirra sem komu að verkefninu.

Hér að neðan má sjá myndband frá sigurverkefninu:

Fréttir

GIANT LEAPS – Hröðun breytinga í átt að nýjum fæðupróteinum

Matís tekur þátt í nýju verkefni sem styrkt er af Horizon Europe. Verkefnið, sem kallast Giant Leaps hefur það að markmiði að hraða skiptum úr dýrapróteinum yfir í ný fæðuprótein.

Þessi breyting á mataræði er lykillinn að því að umbreyta fæðukerfinu með tilliti til umhverfisáhrifa og bættrar heilsu og vellíðan fólks, dýra og jarðar. Verkefnið mun skila stefnumótandi nýjungum, aðferðafræði og opnum gagnagrunni til þess að hraða slíkum breytingum í samræmi við Farm-to-Fork stefnuna og markmið Græns samnings Evrópu um að ná hlutleysi í loftlagsmálum fyrir árið 2050.

GIANT LEAPS verkefnið mun skoða ný prótein, bera þau saman við hefðbundin dýraprótein og skilgreina framtíðarfæði sem stuðlar að betri umhverfi og heilsu. Þau nýju prótein sem verða rannsökuð eru prótein úr plöntum, örveruprótein, sveppaprótein, prótein úr sjó, prótein úr skordýrum, ræktað kjöt og hefðbundin prótein. Verkefnið mun takast á við þær áskoranir sem felast í því að nota ný prótein í vinnslu á matvælum, s.s. vinnslu hráefna og matvælaframleiðslu; öryggi við hönnun, þ.mt ofnæmis; meltingar og heilsu; sjálfbærni, líffræðilegum fjölbreytileika og loftslags.

Ný tækni og endurbættar aðferðir, ásamt aðgengilegum og yfirgripsmiklum upplýsingum um ný prótein munu gera stjórnmálamönnum kleift að forgangsraða breytingum í matvælakerfinu. Það mun einnig nýtast hagaðilum í virðiskeðju matvæla til að taka stefnumótandi ákvarðanir í rannsóknum, viðskiptum og fjárfestingum. Auk þess fær almenningur sjálfbærari og hollari valkost á mataræði.

GIANT LEAPS hópurinn samanstendur af 34 samstarfsaðilum víðsvegar að úr Evrópu, allt frá sprotafyrirtækjum til háskóla og rannsóknastofnana. Í byrjun september hélt verkefnastjóri verkefnisins, Dr. Paul Vos frá Wageningen Research, fyrsta fund verkefnisins í Wageningen í Hollandi. Þar gafst samstarfsaðilum tækifæri á að hittast og skipuleggja verkefnið sem er til 4 ára.

Matís mun leiða sér verkþátt um sjálfbærni þar sem skoðuð verða áhrif framleiðslu próteinanna á umhverfi, samfélag og efnahag, ásamt því að kanna möguleg áhrif á vistkerfi og hvort þau geti lagt sitt af mörkum til þess að sporna við loftslagsbreytingum. Matís tekur einnig þátt í viðamiklum rannsóknum um efnainnihald og næringargildi próteinanna og skoðun á því hvaða eiginleika þau hafa fyrir matvælaframleiðslu.

Fylgdu Giant Leap verkefninu á LinkedIn og Twitter, þar er hægt að fylgjast með gang verkefnisins.



IS