Fréttir

Matur, orka, vatn: Leiðin að sjálfbærni

Hugsaðu stórt, hugsaðu grænt, er yfirskrift vefstofu (netfundar) sem Eimur stendur fyrir, ásamt Nýsköpun í Norðri, SSNE, SSNV og Hacking Hekla. Vefstofan verður haldin næsta fimmtudag frá kl. 14:00 til 16:00. Fundurinn er öllum opinn, og verður streymt á Facebook síðum Eims og sérstakri síðu viðburðarins.

Markmið fundarins er að hvetja fólk til að hugsa um það hvernig við getum nýtt auðlindir Norðurlands með sjálfbærum hætti til framtíðar. Þemað er orka-matur-vatn, heilög þrenning í sjálfbærni. Þessar auðlindir tengjast órjúfanlegum böndum og þannig getur verið gagnlegt að hugsa um þær saman. Þetta eru auðlindir sem við erum rík af, og auðlindir sem við bruðlum með. Hvernig getum við verið sjálfbær og til fyrirmyndar á heimsvísu? Við höfum sannarlega efnin og tækifæri til þess.

Við erum stolt af dagskránni, sem okkur þykir glæsileg, en þar koma saman ráðherra, listafólk, vísindafólk og fólk úr orku- og nýsköpunargeiranum og ræða sín hugðarefni. Sérstaklega verður spennandi að heyra af niðurstöðum nýrrar skýrslu sem gerð var um fýsileikann á stórsókn í ylrækt á Íslandi!

Dagskrána má nálgast hér.

Fréttir

Fæðuöryggi á Íslandi – tækifæri í framleiðslu á korni

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Í febrúar 2021 gaf Landbúnaðarháskóli Íslands út skýrsluna Fæðuöryggi á Íslandi. Margt merkilegt kemur fram í skýrslunni og má taka korn sem dæmi. Bent er á að innlend framleiðsla á korni til manneldis er aðeins um 1% af heildarneyslu. Um er að ræða afar lítið hlutfall sem gæti verið hærra þar sem skilyrði til framleiðslu hér á landi eru til staðar.

Matís hefur á undanförnum árum staðið að nokkrum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum um korn og möguleika þess á Íslandi. Dæmi um þetta er verkefnið um korn á norðurslóðum en einnig má nefna ýmis verkefni um íslenskt bygg sem unnin hafa verið í samstarfi við Landbúnaðarháskólann og fleiri innlenda og erlenda aðila. Auk þess er nú hafið samstarf um rannsóknir á notkun íslenskra hafra. 

Bygg og hafrar búa yfir ýmsum áhugaverðum eiginleikum fyrir matvælaframleiðslu og hafa rannsóknir hjá Matís fjallað um virðiskeðju korns frá kornskurði til framleiðslu matvæla. Bygg er um allan heim notað til framleiðslu á byggmalti sem er eitt mikilvægasta hráefnið til framleiðslu á áfengum drykkjum. Talsvert af byggmalti er flutt inn til landsins en nota mætti meira af íslensku byggi í drykkjarvöruiðnaði á Íslandi sem hefur verið í miklum vexti síðustu ár. Nú er í gangi verkefni hjá Matís þar sem eru gerðar tilraunir með möltun á íslensku byggi. 

Sýnt hefur verið fram á hollustu byggsins með mælingum á beta-glúkönum en þeir eru vatnsleysanleg trefjaefni og skýrslu um þessar mælingar má finna hér: Íslenskt bygg til matvælaframleiðslu. Þessi trefjaefni stuðla að lækkun kólesteróls í blóði og draga úr blóðsykursveiflum. Hveiti býr ekki yfir þessum eiginleikum og því er hægt að auka hollustugildi bökunarvara með því að nota bygg í staðinn fyrir hluta hveitisins. Hér eru miklir möguleikar á nýsköpun sem nýta mætti í hvers kyns bakstursiðnaði. 

Hafrar eru vel þekkt hráefni í margs konar matvæli eins og hafraflögur (haframjöl), múslí og hafradrykki. Á Sandhólsbúinu nálægt Kirkjubæjarklaustri hefur verið unnið ötult frumkvöðlastarf við ræktun hafra og hafraflögur frá búinu eru vinsæl vara í verslunum. Landbúnaðarháskólinn hefur hafið tilraunir með heppilegustu hafraafbrigðin fyrir íslenskar aðstæður. Sandhólsbúið er svo einnig í samstarfi við Matís og unnið er að því að þróa hafradrykk úr þeirra eigin framleiðslu.

Matís hefur í gegnum tíðina gefið út margvíslegar upplýsingar um þróun matvara úr korni. Víðtækustu upplýsingarnar er að finna á vefsíðu norræns verkefnis um korn.

Fréttir

Veiðar og vinnsla krossfisks við Ísland

Aurora Seafood og Matís hafa tekið saman skýrslu um óbeinar veiðar á krossfiski við Íslands, hugsanlegar beinar veiðar og möguleika á verðmætasköpun úr afurðum.

Rætt var við fjölda skipstjóra sem stunda veiðar með plóg, þar sem þeir voru spurðir álits á möguleikum á nýtingu krossfisks og hvort þeir teldu beinar veiðar líklegar til árangus. Skoðanir skipstjóra voru mjög mismunandi og ekki er hægt að tala um niðurstöður úr þeirri könnun.

Við mælingar vakti það vonbrigði hversu hátt magn kadmíns mældist í krossfiski, bæði sem veiddur var við austurströnd Íslands og vesturströndina. Leyfilegt magn kadmíns fyrir manneldisafurðir eru aðeins 0,5 mg í gr. en mælt magn var 6,3 fyrir austan og 2,5 fyrir vestan. Vitað er að nálægð við eldvirkni veldur kadmín mengun í hægfara botnfiskdýrum og aðstæður hér við land eru einmitt á þann veg.

Einnig vakti það vonbrigði hversu hratt krossfiskurinn brotanaði niður og voru sýni orðin maukuð vegna ensímvirkni á einum til tveimur dögum. Prótein magn krossfiska er aðeins um 12%, en vantsinnihald um 67%. Ekki er talið líklegt að hægt verði að nýta krossfiskinn til manneldis miðað við þessar niðurstöður. Aurora Seafood hefur flutt út frosinn krossfisk til Bandaríkjanna, en það skilar varla kostnaðarverði við pökkun, frystingu og flutning og því er engin verðmætasköpun við framleiðsluna. 

Verkefnið sem fól í sér þessa forathugun á veiðum og vinnslu krossfisks við Ísland var stutt af Matvælasjóði (AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi). Ómögulegt hefði verið að vinna þetta verkefni án þess stuðnings.

Lokaskýrslu um forathugun á veiðum og vinnslu krossfisks má finna hér.

Fréttir

Nýtt húsnæði Matís á Austurlandi komið í gagnið

Starfstöð Matís á Austurlandi hefur flutt starfsemi sína í nýtt húsnæði að Bakkavegi 5 í Neskaupstað. Húsnæðið ber nafnið Múlinn-Samvinnuhús.

Byggingin sem að hluta hýsti áður verslunarrými hefur fengið yfirhalningu og viðbyggingu sem rúmar fjölbreytta atvinnustarfsemi. Húsið skiptist í skrifstofuklasa, sérhæfðar rannsóknarstofur og opin rými en auk Matís nýta Origo, Deloitte, Stapi lífeyrissjóður, Advania, Hafró, Mast, Austurbrú, Nox health og Náttúrustofa Austurlands sér vinnuaðstöðu í Múlanum. 

Starfstöðin var lokuð um tveggja vikna tímabil meðan á flutningum stóð frá 15.febrúar til 26.febrúar. Á þeim tíma var lokahönd lögð á uppsetningu innréttinga, vaska og rafmagns í rýminu sem Matís leigir. Auk þess nýtti starfsfólk tímann til þess að koma tækjum og tólum fyrir á sínum stað og framkvæmda mælingar og prófanir á búnaði til að ganga úr skugga um að allt virkaði eins og það ætti að gera og í samræmi við kröfur faggildingaraðila rannsóknarstofunar. 

Opnað var fyrir rannsóknir hjá Matís á Austurlandi á ný mánudaginn 1.mars, í tæka tíð fyrir loðnuhrognavertíðina sem nú stendur yfir og er alla jafna annatími á starfsstöðinni.

Vinnuaðstaðan er öll til fyrirmyndar eins og myndirnar bera vitni um.

Fréttir

Aukið samstarf Matís við Garðyrkjuskóla Íslands

Föstudaginn 19. mars síðastliðinn tók Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís ohf. á móti Gunnari Þorgeirssyni, formanni stjórnar Garðyrkjuskóla Íslands, í húsakynnum Matís að Vínlandsleið. Tilefni heimsóknarinnar var að ræða framhald á samstarfsverkefnum aðilanna tveggja á vettvangi garðyrkju og tengdum sviðum og þá fjölmörgu möguleika sem felast í samstarfinu.

Matís hefur í gegnum árin unnið að fjölbreyttum verkefnum sem snúa að ræktun og landyrkju í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila. Með aukinni áherslu á umhverfismál, lýðheilsu og sjálfbærni í samfélaginu hefur þörfin fyrir frekari þekkingu og fjölbreyttari starfsemi á þessu sviði aukist jafnt og þétt. Því standa vonir til þess að aukið samstarf Matís og Garðyrkjuskóla Íslands muni leiða til enn meiri grósku þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun á þessum vettvangi. 

Á fundinum undirrituðu Oddur Már og Gunnar eftirfarandi viljayfirlýsingu:

,,Matís ohf. Kt. 670906-0190 staðfestir hér með vilja sinn til að auka samstarf um rannsóknar- og þróunarverkefni í garðyrkju í samstarfi við forsvarsaðila Garðyrkjuskóla Íslands kt. 560720-0410 og tengdra aðila.

Á undanförnum árum hefur Matís átt samstarf við fjölda aðila á vettvangi íslenskrar garðyrkju og hefur það samstarf einkennst af faglegum metnaði, gagnkvæmu trausti og virðingu í samskiptum.“

Gunnar Þorgeirsson væntir góðs af samstarfinu og í viðtali við Bændablaðið sem kom út í vikunni segir hann:. ,,Það bíða fjölmörg verkefni úrlausnar og við höfum þá reynslu að innan Matís sé bæði að finna faglega getu og samstarfsgetu. Við hlökkum því til framhaldsins“.

Umfjöllun Bændablaðsins um aukið samstarf Matís við Garðyrkjuskóla Íslands má lesa hér.

Fréttir

Fóðurtilraunir Matís hafa víða áhrif

Í tilraunaeldisstöð Matís eru stundaðar margskonar fóðurtilraunir þar sem meðal annars er verið að prófa nýja próteingjafa eða íblöndunarefni sem hafa jákvæð áhrif á vöxt og gæði. Eru þessar tilraunir annað hvort unnar sem þjónusta við fóðurframleiðendur og fiskeldisfyrirtæki, eða sem hluti af rannsóknarverkefnum sem fjármögnuð eru af sjóðum.

Margir af stærstu fóðurframleiðindum í heimi eru meðal viðskiptavina Matís á þessu sviði, enda tiltölulega fáir aðilar í heiminum sem geta boðið upp á vaxtar- og meltanleika tilraunir, mælingar á áhrifum fóðurs á efna og eðliseiginleika fisksins, og skynmat. Einn af viðskiptavinum Matís á þessu sviði er Austurríska stórfyrirtækið Agrana sem framleiðir breiða línu af matvælum og fóðri. Meðal þeirra afurða sem þeir standa í þróun með um þessar mundir er Betaine sem unnið er mestmegnis úr sykurrófum og hefur að þeirra sögn jákvæð áhrif á vöxt og gæði dýra þ.m.t. í fiskeldi. Agrana hefur nú fengið einkaleyfi á virka efninu ActiBeet® og lét í vetur Matís um að gera tilraunir með efnið í fóður fyrir hvítleggjarækjur (hlýsjávar rækjur). Niðurstöður tilraunarinnar voru jákvæðar og nú stendur Agrana í að því að greina frá niðurstöðunum meðal fóður- og fiskeldisframleiðenda um allan heim. Sýnir þetta vel hvernig rannsóknir Matís hafa áhrif víðsvegar um heim og stuðla að verðmætaaukningu fyrir samstarfsaðila, og bættu fæðuöryggi, matvælaöryggi og lýðheilsu fyrir samfélagið í heild.

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Agrana auk þess sem hægt er að skrá sig á netkynningu sem fram fer hjá Agrana 19 maí.

Fréttir

Gjöfult samstarf um þróun nýrra tækja og búnaðar fyrir sjávarútveg og fiskeldi

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Matís hefur átt langt og farsælt samstarf við Skaginn 3X við þróun nýrra tækja og búnaðar fyrir sjávarútveg og fiskeldi. Slíkt samstarf er mjög mikilvægt fyrir rannsóknar- og þróunarfyrirtæki eins og Matís, en þannig geta sérfræðingar fyrirtækisins greint betur þarfir atvinnulífsins.

Samstarf Matís við Skaginn 3X er afar mikilvægt fyrir starfsmenn Matís og gefur verkefnum tilgang, auk þess að styðja við þau markmið fyrirtækisins að auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu Íslendinga. 

Þau eru ófá verkefnin sem hafa verið unnin í samstarfi þessara fyrirtækja og hafa skilað umtalsverðum árangri í að bæta gæði og verðmæti í sjávarútvegi og eldi, öllum landsmönnum til heilla.

Sjá einnig:

Over 20 Years of Research Innovation and Value Creation

Fréttir

Mikilvægt að sjávarútvegur hugi að aðgerðum til að aðlaga starfsemi sína að breyttu umhverfi vegna loftslagsbreytinga

Vísindatímaritið Climatic Change birti á dögunum grein sem lýsir kerfisbundinni aðferð og leiðsögn um það hvernig sjávarútvegur og fiskeldi geta aðlagað starfsemi sína að áhrifum loftslagsbreytinga. Starfsmenn Matís, þau Ragnhildur Friðriksdóttir og Jónas R. Viðarsson, fóru fyrir þeirri vinnu sem liggur að baki aðferðafræðinni sem lýst er í greininni, en sú rannsóknarvinna átti sér stað innan verkefnisins ClimeFish sem lauk á síðasta ári.

Samstarfsverkefninu ClimeFish, sem styrkt var af Rannsóknaáætlun Evrópu (Horizon 2020), lauk á síðasta ári en niðurstöður og afurðir verkefnisins halda þó áfram að birtast í vísindatímaritum víða um heim. Ein slík var birt í vísindatímaritinu Climatic Change á dögunum, tímariti sem sérhæfir sig í rannsóknum og lýsingum á loftslagsbreytingum, orsökum þeirra, afleiðingum og samverkun þess á milli. Umrædd grein fjallar um mikilvægi þess að sjávarútvegur hugi að aðgerðum til að aðlaga starfsemi sína að breyttu umhverfi vegna loftslagsbreytinga og þeim áskorunum og tækifærum sem í slíkum breytingum felast. Gefnar eru leiðbeiningar fyrir þriggja fasa ferli sem miðar að því að 1) meta helstu áhættur og tækifæri sem starfsemin stendur frammi fyrir út frá framtíðarsviðsmyndum, 2) greina aðlögunarþörf, aðlögunargetu og viðeigandi aðlögunaraðgerðir, og 3) setja upp og fjármagna aðlögunaráætlun. Þessi aðferðafræði var prófuð og sannreynd í sjö evrópskum tilviksrannsóknum (e. case studies) innan fiskeldis og sjávarútvegs í ClimeFish verkefninu, en það var Matís sem leiddi þá vinnu, sem og þróun og útfærslu aðferðafræðinnar.

Loftslagsbreytingar hafa þegar haft áhrif á ýmsa þætti sem snerta á starfsemi sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja og rannsóknir benda til þess að slíkar breytingar munu aukast í náinni framtíð. Þó slíkar breytingar komi til með að vera misjafnar í eðli sínu og umfangi eftir heimshlutum, starfsemi og stöðu í virðiskeðjunni, er ljóst er að þær muni geta haft umtalsverð áhrif á starfsemi sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja, bæði neikvæð og jákvæð. Dæmi um slíkar breytingar innan sjávarútvegs eru t.a.m. tilfærsla mikilvægra nytjastofna, s.s. vegna breytingar í stofnstærð, útbreiðslusvæði eða farmynstri, hættulegri og krefjandi aðstæður úti á hafi, auknar sveiflur í markaðsverði, sem og aukið flækjustig og spenna milli strandríkja og flota þegar kemur að kvótaskiptingu deilistofna. Allt eru þetta dæmi um áhrif sem þegar eru merkjanleg í hér í Norðvestur Atlantshafi og fela í sér bæði áskoranir og tækifæri, en geta lagst misjafnlega á svæði og samfélög. Dæmi um áhrif loftslagsbreytinga á starfsemi fiskeldis er t.a.m. samdráttur eða ný tækifæri í framleiðslu, tjón á innviðum vegna ofsaveðurs, sveiflur í markaðsverði, framleiðslutap vegna sjúkdóma, eitraðra þörunga og sníkjudýra, skert aðgengi að fersku vatni og fóðri og skert framleiðni vegna breytinga í eldisumhverfi.

Á meðan að langflest Evrópuríki hafa sett fram aðlögunaráætlanir vegna loftslagsbreytinga er þessi vinna skammt á veg komin hér á landi og því lítil sem engin yfirsýn til staðar yfir mögulegt loftslagstengt tjón eða aðlögunarþörf innan íslensks sjávarútvegs næstu ár eða áratugi. Hjá Matís standa vonir til þess að fjármagn náist til að nýta þá aðferðafræði sem þróuð var innan ClimeFish verkefnisins og yfirfæra hana á íslenskan sjávarútveg og fiskeldi. Með því væri hægt að meta aðlögunarþörf og leggja grunninn að aðlögunaráætlun fyrir eina af mikilvægustu atvinnugreinum Íslendinga. Slík vinna myndi gefa af sér mikilvægar niðurstöður fyrir umræddar atvinnugreinar og íslenskt samfélag, m.a. í gegnum kortlagningu á áhrifum loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg og fiskeldi út frá framtíðarsviðsmyndum, mat á helstu áhættum og tækifærum út frá umhverfis-, efnahags- og félagslegum þáttum, mat á tjónnæmi greinarinnar og mismunandi starfsemi innan hennar, auk upplýsinga um aðgengilegar og árangursríkar aðlögunaraðgerðir gegn viðkvæmustu þáttum starfseminnar. Ragnhildur mun standa fyrir málstofu um bein og óbein áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg á Sjávarútvegsráðstefnunni, sem haldin verður 11.- 12. nóvember á þessu ári. Hún hefur fengið til liðs við sig málsmetandi menn og konur frá iðnaðinum, íslenskri stjórnsýslu og vísindum og er því um gott tækifæri að ræða til að fræðast um þörfina fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum innan íslensks sjávarútvegs og hefja umræðuna fyrir alvöru hér á landi.

Hér má finna umrædda grein í tímaritinu Climate Change.

Fréttir

Hvers virði eru skynmats- og neytendafræði?„Gagnvirk“ ráðstefna á netinu 27.-28. apríl 2021

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Yfirskrift ráðstefnunnar er „What is the Added Value of Sensory and Consumer Science?“. Þar verður m.a. fjallað um miðlun upplýsinga sem fást úr skynmati og neytendarannsóknum. Áherslan verður á vísindalegar niðurstöður og notagildi og miðlun þeirra til iðnaðar sem og samfélagsins.

Skoðuð verða dæmi um hvernig skynmat og neytendarannsóknir hafa skipt máli í rannsóknum, í vöruþróun, í sjálfbæru samfélagi, menntun o.fl. Fagfólk og vísindafólk sem vinnur við skynmat, gæðamál og neytendamál á sviði matvæla og annarrar neytendavöru, fá þarna tækifæri til að hittast í netheimum og bera saman bækur sínar. Ráðstefnan er einnig kjörin til að efla tengsl og tækifæri á norrænum slóðum. Skynmat, t.d. mat á gæðum, og neytendamál eru mikilvægur hlekkur í þeirri vinnu sem fer fram i fyrirtækjum sem framleiða og selja neytendavöru.

Nordic Sensory Workshop er norræn ráðstefna sem hefur verið haldin um það bil annað hvert ár. Vegna Covid-19 var ráðstefnunni frestað í fyrra, en til stóð að hún færi fram í Gautaborg í Svíþjóð. Hinsvegar, var ákveðið að ráðist yrði í að halda Nordic Sensory Workshop rafrænt nú í ár, 27.-29. apríl 2021. Að ráðstefnunni standa sérfræðingar á sviði skynmats- og neytendarannsókna á Norðurlöndum og skiptast jafnframt á að halda ráðstefnuna. Í ár er það RISE (The Swedish Research Institute) sem sér um utanumhald með aðstoð frá norrænum samstarfsaðilum á Íslandi (Matís), Noregi (NOFIMA), Danmörku (Teknologisk Institut) og Finnlandi (VTT-Technical Research Centre of Finland).

Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna til 15. apríl.

Hér er einblöðungur um ráðstefnuna.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á skráningarsíðu viðburðarins hér.

Frekari upplýsingar veitir Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís (kolbrun@matis.is).

Fréttir

Áskoranir og árangur Íslendinga í frekari vinnslu og fullvinnslu sjávarafurða til útflutnings frá Íslandi

Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri verðmætasköpunar hjá Matís, var með erindi hjá Þekkingarsetrinu í Vestmannaeyjum 25. febrúar síðastliðinn sem bar titilinn „Áskoranir og árangur Íslendinga í frekari vinnslu og fullvinnslu sjávarafurða til útflutnings frá Íslandi“. 

Í erindinu fjallaði Jónas um þróun í fiskvinnslu á Íslandi og leitaðist við að svara þeirri spurningu hvort að íslensk fyrirtæki geti nálgast neytendur í meiri mæli en hingað til eða hvort þau séu dæmd til að vera fyrst og fremst hráefnisframleiðendur fyrir erlenda aðila. Jónas tók nokkur dæmi um verð á útfluttum afurðum frá Íslandi og síðan fullunnum vörum út úr búð. Hann fór yfir magn af óunnum- eða lítið unnum fiski sem flutt var út frá Íslandi árið 2020. Einnig tók Jónas nokkur dæmi um útflutningstilraunir Íslendinga á fullunnu sjávarfangi og velti upp ýmsum ástæðum sem mögulega gætu skýrt út hvers vegna fullvinnsla á Íslandi er ekki meiri en hún er. Hann velti upp ýmsum þáttum sem mögulegum ástæðum fyrir því af hverju fullvinnsla er ekki meiri hér á landi. Að auki voru svo tekin dæmi um framleiðslueiningar erlendis sem eru í eigu Íslendinga, þar sem verksmiðjurnar eru í flestum tilvikum nálægt mörkuðunum.

Í lok erindis síns fjallaði Jónas stuttlega um nokkur vel valin sjávarútvegstengd rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem Matís hefur komið að, tengd frekari vinnslu eða fullvinnslu. Bæði verkefni sem hafa skilað góðum árangri, sem og nokkur sem hafa ekki skilað því sem að var stefnt. Jónas ræddi mikilvægi þess að rýna bæði í verkefni sem hefðu gengið vel sem og verkefni sem hefðu ekki gengið upp.

Upptöku af erindinu og glærurnar má nálgast á heimasíðu Þekkingarsetursins í Vestmannaeyjum hér.  

IS