Ásdís Agla Sigurðardóttir nemandi í matvælafræði við Háskóla Íslands hlaut tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrir verkefni sitt Lífkol: Brú milli fiskeldis og landbúnaðar. Jafnframt var verkefnið viðurkennt sem öndvegisverkefni.
Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 20. janúar þar sem forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti verðlaunin. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2025.
Verkefnið er hluti af Matvælasjóðsverkefninu Jarðvegsbætandi lífefni. Leiðbeinendur Ásdísar Öglu voru Jónas Baldursson og Katrín Hulda Gunnarsdóttir hjá Matís. Við þökkum Ásdísi fyrir vel unnið verkefni.
Nánar um verkefnið:
Lífkol: Brú milli fiskeldis og landbúnaðar
Landeldi á lax fer ört vaxandi hér á Íslandi með tilheyrandi myndun á fiskeldismykju. Á sama tíma er íslenskur landbúnaður að stórum hluta háður innfluttum tilbúnum áburði. Skortur er á tæknilegum lausnum til að nýta fiskeldismykju en nú til dags er henni yfirleitt fargað þrátt fyrir hátt næringarefnainnihald. Verkefnið snýst um að nýta þessa hliðarafurð með lífkolun og meta hvort lífkol úr fiskeldismykju geti verið nýtt sem jarðvegsbætandi efni. Með lífkolun er mykjunni breytt í stöðugt kolefnisríkt efni sem getur bætt jarðvegseiginleika og frjósemi og skapað nýjan farveg fyrir vannýtt hráefni.
Framkvæmd var sex vikna pottatilraun þar sem bornir voru saman meðferðarhópar með mismunandi hlutföllum lífkola úr saltvatns og ferskvatnsfiskeldismykju auk viðarlífkola. Markmið tilraunarinnar var að meta áhrif lífkola úr fiskeldismykju á plöntuvöxt og jarðvegseiginleika og bera niðurstöður saman við viðarlífkol. Mæld voru meðal annars sýrustig og vatnsinnihald í jarðvegi, vöxtur og uppskera plantna og efnainnihald hráefna.
Niðurstöður sýndu að lífkol úr ferskvatnsfiskeldismykju og viðarlífkol höfðu jákvæð áhrif á vöxt en lífkol úr saltvatnsfiskeldismykju leiddu til affalla og minni uppskeru sem tengdist háu saltmagni. Þungmálmar og salt mældust í sumum lífkolum en skiluðu sér þó ekki í ætan hluta plantna. Heildarniðurstöður benda til að uppruni og efnasamsetning hafi áhrif á notagildi lífkola og að lífkol úr ferskvatnsfiskeldismykju geti verið raunhæfur kostur sem jarðvegsbætandi efni, en frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að meta langtímaáhrif og fýsileika.
Ljósmynd af síðunni forseti.is
















