Dagana 14.-16. október hittust allir 43 þátttakendur Evrópuverkefnisins Natalie í Las Palmas á Gran Canaria til þess að ræða framgang verkefnisins fyrsta árið og næstu skref. Þar gafst þátttakendum líka tækifæri til þess að hittast í eigin persónu, margir hverjir í fyrsta skipti. Í verkefninu koma saman 43 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar úr Evrópu með það að markmiði að þróa náttúrutengdar lausnir sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er til fimm ára og er styrkt af Horizion áætlun Evrópusambandins.
Í kringum 100 manns tóku þátt í fundinum og voru fulltrúar flestra samstarfsaðila mættir, ásamt hagsmunaaðilum á svæðinu og fleiri hluteigandi. Umræður fundarins snerust m.a. að eftirfarandi:
Staða verkefnisins eftir fyrsta árið
Verkefnið nær til margra þátttakenda í ólíkum löndum þar sem þarfir eru fjölbreyttar. Að fara yfir stöðuna saman gaf því tækifæri til þess að fá innsýn í hvað er í gangi annars staðar í Evrópu. Hvert rannsóknarsvæði uppfærði samstarfsaðila um hvað hafði gengið vel og hverjar helstu ákoranirnar hefðu verið undanfarið ár.
Rannsóknarsvæðið á Gran Canaria heimsótt. Á myndinni sést uppbyggt votlendi með mælitæki.
Hluti þátttakenda í CS7. Frá vinstri : Annar Berg Samúelsdóttir (Matís), Tinna Halldórsdóttir (Austurbrú), Gabríel Arnarsson (Austurbrú), Katrín Hulda Gunnarsdóttir (Matís) og Jess Penny (University of Exeter).
Undirbúningur næstu vinnustofu
Mikilvægur þáttur verkefnisins er að tengjast hagsmunaaðilum á svæðinu og til þess eru haldnar fjórar vinnustofur. Sú fyrsta hefur þegar farið fram en á fundinum var farið yfir hvernig væri hagkvæmast að halda þá næstu.
Næstu skref
Í lok fundar gafst þátttakendum tækifæri til þess að setjast saman niður og skipuleggja næstu skref. Í svona umfangsmiklu verkefni eru margir þættir sem þarf að hafa yfirsýn yfir og því mikilvægt að allir séu á sömu blaðsíðu.
Þar að auki var farið í vettvangsheimsókn á eitt rannsóknarsvæðanna og fengu þátttakendur þar góða hugmynd um raunveruleg áhrif þess að innleiða náttúrutengda lausn á nærumhverfið. Eftir langa, en árangursríka fundardaga, fara fulltrúar Matís fullir tilhlökkunar inn í næsta ár verkefnisins.
Um verkefnið
Verkefnið Natalie snýr að þróun náttúrutengdra lausna sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn loftslagsbreytingum. Austurland var valið sem sjöunda rannsóknarsvæði (CS7) verkefnisins og þátttakendur í CS7 eru Matís, Austurbrú, University of Tromsø og University of Exeter. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins.
Alþjóðlegt ráðstefna um nýprótein fyrir mat og fóður verður haldin í Berlín dagana 3.-5. desember næstkomandi. Matís er einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar, en um er að ræða mikilvægan vettvang þar sem leitað er leiða til stuðla að sjálfbærum landbúnaðarháttum og matvælakerfum, sem nær yfir framleiðslu og neyslu, á heildrænan hátt og samþætta nýsköpun og umhverfisvernd.
Matvæla- og fóðurkerfi um allan heim standa frammi fyrir áskorunum við að tryggja fæðuöryggi og næringu fyrir alla jarðarbúa, á sama tíma og þau þurfa að tryggja lífsviðurværi bænda og annarra hagsmunaaðila í fæðukeðjunni og viðhalda sjálfbæru umhverfi.
Nýprótein (e. alternative protein) eins og skordýr, sveppir, þörungar og örverur fylla skarð sjálfbærrar, næringarríkrar og öruggrar fæðu í framtíðinni.
Á ráðstefnunni verður fjallað um sjálfbær nýprótein og kannað hvernig þau geta umbreytt núverandi matvælakerfum. Áhersla er á öryggi og næringu, auk skynjun neytenda og efnahagslegan grundvöll.
Sem fyrr segir fer ráðstefnan fram í Berlín dagana 3.–5. desember 2024, en það er einnig hægt að sitja ráðstefnuna í gegnum netið, svo þú getur tekið þátt hvar þú ert.
Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru:
German Federal Institute for Risk Assessment (Bundesinstitut für Risikobewertung, BfR)
Föstudaginn 1. nóvember næstkomandi ver Anna Þóra Hrólfsdóttir doktorsritgerð sína í matvælafræði við Háskóla Íslands í samvinnu við Matís. Ritgerðin ber heitið: Bætt nýting, varðveisla og gæði brúnþörunga.
Doktorsvörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands klukkan 9:00 til 12:00.
Andmælendur verða dr. Susan Løvstad Holdt, dósent við Matvælastofnun Danska tækniháskólans,DTU, og dr. Marthe Jordbrekk Blikra, vísindamaður við norsku matvælarannsóknarstofnunina Nofima.
Umsjónarkennari er María Guðjónsdóttir og leiðbeinendur auk hennar eru Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og sérfræðingur hjá Matís, og Sigurjón Arason, prófessor emeritus og sérfræðingur hjá Matís. Auk þeirra situr Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, prófessor, í doktorsnefnd.
Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor og forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.
Eftirfarandi ágrip af ritgerðinni: Þrátt fyrir gífurlega aukningu í stórþörungaframleiðslu á síðustu áratugum eru þeir enn frekar vannýtt auðlind í Evrópu. Hins vegar hefur áhugi á stórþörungum aukist verulega í Evrópu undanfarin ár og spáð hefur verið að framleiðslan gæti aukist gríðarlega næstu áratugi. Með aukinni framleiðslu stórþörunga er mikilvægt að fullnýta, varðveita og meðhöndla lífmassann á viðeigandi hátt til að hámarka gæði afurðarinnar. Því var markmið rannsóknarinnar að kanna og bæta virðiskeðjur valinna brúnþörunga, með áherslu á fullnýtingu hráefnis í mjölvinnslu úr klóþangi, varðveislu og geymsluþol á ræktuðum beltisþara og marinkjarna, og meta nýtingu fjöllitrófsmyndgreiningartækni (MSI) til að meta gæði stórþörunga innan iðnaðarins. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna tækifæri í því að auka verðmæti stórþörunga með bættum framleiðsluferlum. Enn fremur benda niðurstöðurnar til þess að sýring gæti hentað vel sem varðveisluaðferð fyrir ræktaða brúnþörunga og að MSI gæti verið notuð til gæðamats á stórþörungum innan iðnaðarins.
Örverur eru hluti af matnum okkar. Þekking á því hvaða örverur finnast í matvælum og í framleiðsluumhverfi er þó enn takmörkuð. Nýleg rannsókn, sem Matís tók þátt í, hefur veitt nýja innsýn í þetta viðfangsefni. Niðurstöðurnar munu stuðla að betri skilningi á áhrifum örvera á ýmsa þætti matvæla, eins og geymsluþol, öryggi, gæði og bragð.
Rannsóknin var hluti af Evrópuverkefninu MASTER, sem sameinaði 29 samstarfsaðila frá 14 löndum. Eitt af markmiðum verkefnisins var að skapa gagnagrunn utan um örverur í matvælum með því að raðgreina erfðaefni úr 2533 sýnum sem tekin voru úr ýmsum matvælum og framleiðsluumhverfi þeirra. Matís sá um að rannsaka sýni úr íslenskum fiskvinnslum en rannsóknarverkefnið náði til allra helstu fæðuflokka. Þetta er stærsta rannsókn sem hefur verið gerð á örverusamsetningu í matvælum og framleiðsluumhverfi en betri skilningur á þessum örverum gæti stuðlað að bættri heilsu fólks þar sem sumar örverur úr matvælum geta orðið hluti af örveraflóru okkar.
Alls voru 10899 fæðutengdar örverur greindar í þessum sýnum, þar sem helmingur þeirra voru áður óþekktar tegundir. Niðurstöðurnar sýndu að matvælatengdar örverur mynda að meðaltali um 3% af þarmaflóru fullorðinna en um 56% af þarmaflóru ungbarna.
„Þessar niðurstöður benda til þess að sumar örverur í þörmum okkar komi beint úr mat, eða að mannkynið hafi sögulega fengið þær úr fæðunni, þar sem þær hafa síðar aðlagast og orðið hluti af þarmaflóru mannsins,“ segir Nicola Segata, örverufræðingur við háskólann í Trento og Evrópsku krabbameinsstofnunina í Mílanó. Þótt 3% kunni að virðast lágt hlutfall, þá geta þessar örverur haft mikil áhrif á virkni þarmaflórunnar. Gagnagrunnurinn er því mikilvægt framlag til vísinda og lýðheilsu, þar sem hann mun nýtast við rannsóknir á áhrifum matvælatengdra örvera á heilsu okkar.
Þó að fáar sjúkdómsvaldandi örverur hafi verið greindar í matvælasýnunum, voru nokkrar tegundir sem geta verið óæskilegar vegna áhrifa þeirra á bragð eða geymsluþol matvæla. Þekking á því hvaða örverur tilheyra ákveðnum matvælum getur því verið gagnlegt fyrir framleiðendur, bæði stóra og smáa, til að bæta vörugæði. Einnig geta þessar upplýsingar aðstoðað við matvælaeftirlit við að skilgreina hvaða örverur ættu og ættu ekki að vera til staðar í tilteknum matvælum ásamt því að rekja og votta uppruna þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar 29. ágúst síðastliðinn í tímaritinu Cell Press og gagnagrunnurinn er nú aðgengilegur. Niðurstöður sem sérstaklega varða sjávarafurðir hafa einnig verið birtar í tímaritinu Heliyon sem er gefið út af Cell Press. Rannsóknin er sem fyrr segir hluti af evrópska rannsóknaverkefninu MASTER og var styrkt af Horizon 2020, Horizon Europe, Utanríkisráðuneyti Ítalíu, Evrópska rannsóknarráðinu, Spænska vísinda- og nýsköpunarráðuneytinu, Vísindastofnuninni á Írlandi og Írska landbúnaðar-, matvæla- og sjávarútvegsráðuneytinu.
Thursday November 7th 2024. Held in Ríma conference room in Harpa, Austurbakka 2, 101 Reykjavík. Supported by Nordic Council of Ministers – Working Group for Fisheries (AG-Fisk).
Workshop description:
The workshop is held to discuss and investigate factors that affect catch quality and pricing, how they interconnect and differ between the Nordic countries. This includes discussions on quality characteristics, how quality parameters currently are and should be measured, regulation frameworks and what affects pricing and market situations. The outcome of the workshop will outline the strengths of different strategies that relate to catch quality within the Nordic region and explore if there are opportunities to implement different methods between regions to achieve higher overall catch quality and value.
Revised suggestions for topics in the workshop agenda are:
Price and catch value: What affects the prices? Are they reflected correctly by quality parameters?
Quality characteristics: What are the most important quality parameters (handling factors, fish size, condition factor,…)? How do we measure the catch quality parameters? Suggestions for standardization of quality assessment?
Fishing methods: How do different fishing strategies and methods affect catch quality?
Regulations and legal matters: How do regulation vary between the Nordic countries? How does the regulation work across the countries and are there lessons to be transferred?
Market aspects: How do prices differ between direct sales vs auction markets and Vertically integrated company’s vs fish market.
Skyr er hefbundin íslensk afurð sem að öllum líkindum hefur verið gerð á Íslandi frá landnámi en mjólkurafurð undir þessu sama heiti var þá þekkt á öllum Norðurlöndunum. Skyrgerð virðist þó eingöngu hafa varðveist á Íslandi. Skyrgerð var leið til að varðveita mjólk og hámarka fæðugildi en skyrið var mikilvæg grunnfæða sem hjálpaði Íslendingum að lifa af. Áður fyrr þótti smjör vera úrvalsfæða en skyrið vera matur fátæka mannsins. Nú vitum við að vegna mikils próteininnihalds í skyri hafi það sannarlega verið hjálpræði fátækari heimila og gefið þá orku sem þurfti til daglegrar vinnu. Skyr er búið til úr undanrennu sem verður eftir þegar rjóminn er skilinn frá mjólkinni til smjörgerðar. Skyr er enn vinsæll matur og um aldir var það langalgengasta mjólkurvaran á Íslandi ásamt smjöri og mysu.
Líklega hefur skyrið á landnámsöld verið ólíkt því sem við þekkjum í dag, bæði súrara og þynnra. Mikil breyting hefur orðið á framleiðslu skyrs á síðustu öld með tilkomu verksmiðjuframleiðslu þess. Skyr er mikilvægur hluti af menningararfi okkar Íslendinga og því nauðsynlegt að öðlast meiri þekkingu á þessari afurð.
Nýverið hófu Matís og Háskóli Íslands rannsókn á íslensku skyri sem líffræðilegum menningararfi. Rannsóknin leiðir saman bændur, þjóðfræðinga, mjólkufræðinga, matvælafræðinga og líffræðinga og beinir sjónum að samvinnu tegundanna sem koma að því að búa til skyrið: menn, húsdýr og örverur. Lifandi skyrgerlar eru gott dæmi um hvernig samlífi örvera og manna í gegnum aldirnar hefur stuðlað að fjölbreyttri örveruflóru í skyri og í þörmum Íslendinga. Í verkefninu verður þessi fjölbreytileiki rannsakaður og stefnt að því að endurskapa afbrigði af skyri sem samsvara bragði og áferð fyrri tíma út frá minningum landsmanna um skyr og reynslu bænda og mjólkurfræðinga af skyrgerð. Markmiðið er að dýpka skilning á fjölbreytileika og seiglu líffræðilegs menningararfs með því að skoða margbreytileika og umbreytingu skyrs í gegnum tíðina.Óskað er eftir viðmælendum sem hafa reynslu af því að búa til skyr bæði fyrr og nú og viðmælendum sem hafa borðað skyr í marga áratugi og geta sagt frá skyri frá fyrri tíð og breytingum sem þeir hafa upplifað. Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni eru vinsamlegast beðin að hafa samband við Jón Þór Pétursson þjóðfræðing eða Þóru Valsdóttur matvælafræðing á netfangið skyrlifi@gmail.com eða í síma 853-5118. Sjá nánar um verkefnið á www.matis.is.
Humarveiðar hafa verið bannaðar á Íslandi síðan 2021, vegna hruns í stofni hans. Mikið vantar upp á þekkingu á mælingu á stofnstærð humars og mikilvægt að bæta rannsóknir framtíðar. Liður í því var verkefnið NowLobster til að fá aðila frá hinum Norðurlöndunum sem stunda humarveiðar, fræðimenn, sjómenn, framleiðendur, embættismenn og veiðarfærasérfræðina, til að deila þekkingu og reynslu. Verkefnið var ekki síður hugsað til að fá breiðan hóp hagaðila til að ræða saman og skiptast á skoðunum og deila reynslu.
Vinnufundur var haldið á Best Western hótelinu á Kastrup við Kaupmannahöfn, dagana 13 til 14 maí 2024. Tuttugu og þrír aðilar frá Íslandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð mættu til skrafs og ráðagerðar. Fyrri daginn var farið yfir veiðar og vinnslu, veiðarfæri og ráðgjöf og stofnmat. Þeim degi lauk með kynningu á upphafi humarveiða við Ísland. Seinni daginn var meira um samtal fræðimanna, til að skiptast á skoðunum hvernig humarveiðum væri best stýrt til framtíðar, með sjálfbærum veiðum og hámarks verðmætasköpun í huga.
Niðurstaða vinnufundanna var að auka þyrfti rannsóknir á humri, með bættu samstarfi Norðurlandanna, og með þátttöku hagaðila greinarinnar. Mikið var rætt um þann skaða sem svart hagkerfi humarveiða veldur, en mikið er um að landað sé fram hjá vigt, og oft á tíðum með slæmri umgengni og lélegum gæðum. Finna þarf leiðir til að koma í veg fyrir þessa starfsemi. Ekki eru átök milli gildru-veiðimanna og þeirra sem nota botnvörpu, þar sem þessar tvær aðferðir eru notaðar við ólíkar aðstæður og samhljómur um að báðar aðferðir eigi rétt á sér. Brottkast er víða vandamál og eins meðafli, þar sem á sumum svæðum verða menn að losa sig við afla þar sem ekki má veiða hann eða landa. Niðurstaða vinnufundarins var að nauðsynlegt væri að stofna til framhaldsfundar þar sem þessar áskoranir verði ræddar, og miðað við að gera tillögur um stjórnun humarveiða áður en veiðibanni lýkur á Íslandi.
Skýrsla er nú komin út um vinnufundinn og niðurstöður hans, sem nálgast má hér.
Starfsstöð Matís á Hvanneyri er að Hvanneyrargötu 3 og þar eru tveir starfsmenn með aðstöðu. Byggingin er stór og deilir Matís henni með fjölbreyttum fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. síðastliðinn mánudag heimsótti matvælaráðherra starfsstöðina.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ásamt aðstoðarmanni sínum, Pálínu Axelsdóttur Njarðvík átti fund með Evu Margréti Jónudóttur og Margeiri Gissurarsyni, starfsfólki Matís auk starfsfólks frá Landi og skógi og Matvælastofnun. Ráðherra hefur nú þegar heimsótt höfuðstöðvar sinna stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ráðuneytið en er nú á ferð um landið að heimsækja aðrar starfstöðvar. Rætt var um starfsemi á svæðinu, þau verkefni sem fengist er við um þessar mundir og ýmis framtíðartækifæri.
Við þökkum þeim Bjarkeyju og Pálínu fyrir ánægjulegan fund.
Matís og RISE frá Svíþjóð munu leiða saman sérfræðinga á sviði lífhagkerfis í vinnustofu sem ber heitið “BIO2REG expert workshop on research infrastructure and living labs” 5. og 6. september næstkomandi í húsakynnum Matís í Reykjavík.
Í vinnustofunni verður farið yfir verkefni sem tengjast lífhagkerfum, þróun síðustu áratuga og mikilvægi grænnar orku. Innlendir og erlendir sérfræðingar munu taka til máls auk þess sem farið verður í vettvangsheimsóknir í valin fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.
Vinnustofan er opin öllum og ókeypis.
Skráningarhlekk ásamt frekari upplýsingum og dagskrárdrögum má finna hér:
Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum rannsóknar- og þróunarverkefnum um kjöt í samstarfi við framleiðendur og ýmsa hagaðila. Markmiðið er að styrkja innlenda kjötframleiðslu og efla verðmætasköpun. Nýlega lauk verkefni sem styrkt var af Matvælasjóði og bar yfirskriftina Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða og var unnið af Matís og markaðsstofunni Íslenskt lambakjöt.
Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við afurðastöðvarnar Kjarnafæði-Norðlenska /SAH Afurðir á Blönduósi, Sláturfélag Suðurlands og kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga. Verkefninu var hrundið af stað til þess að mögulegt væri að leggja fram ný og traust gögn til að koma í stað þeirra 20-30 ára gömlu gagna sem alla jafna var stuðst við og voru orðin úrelt. Skortur á nýjum og uppfærðum gögnum um nýtingu og næringargildi var farinn að há markaðsstarfi á lambakjöti og hliðarafurðum bæði á innanlandsmarkaði og útflutningsmörkuðum.
Í verkefninu var gerð úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts en lambakjöt er almennt flokkað í 40 flokka á sláturhúsi og eftir því fá bændur greitt. Undanfarin ár hafa bændur staðið í miklu kynbótastarfi byggðu á gögnum sem þeir hafa safnað í miðlægan gagnagrunn og með því aukið framleiðni kjöts á hverja kind um u.þ.b. 30%. Það hefur í för með sér að þeir flokkar kjöts sem eru algengastir í dag m.t.t. hlutfalls vöðva og fitu á móti beinum, eru allt aðrir flokkar en þeir sem voru algegnastir fyrir 20-30 árum. Gögnin sem stuðst var við á íslenskum markaði endurspegluðu raunverulega stöðu íslensks lambakjöts þannig ekki nægilega vel áður en farið var af stað með þessa rannsókn. Auk þess vantaði ný gögn um næringarefnagildi þar sem þau gögn voru einnig um 20-30 ára gömul. Slíkar mælingar gagnast þeim sem vilja rökstyðja að varan sé heilnæm, bragðgóð, hafi einhverja sérstöðu o.s.frv. Þriðji útgangspunktur rannsóknarinnar var svo athugun á því hvort kjötmatið sem framkvæmt er á Íslandi væri sanngjarnt og fullnægjandi.
Mikilvægt þótti að magn og gæði rannsóknarefnisins myndi endurspegla þýðið vel svo niðurstöðurnar sem fengjust yrðu marktækar og haldbærar. Því voru 63 skrokkar úr sjö kjötmatsflokkum valdir sem ná yfir 92% framleiðslunnar miðað við skiptingu í kjötmatsflokka árið 2021. Skrokkar voru valdir á þremur mismunandi sláturdögum, í tveimur sláturhúsum, norðanlands og sunnan, og staðfesti fagsviðsstjóri kjötmats hjá Matvælastofnun að hver skrokkur væri hefðbundinn skrokkur í sínum matsflokki en ekki á mörkum flokksins.
Mælingar voru svo gerðar á næringarefnum og þungmálmum og uppfærðar tölur settar inn í ÍSGEM næringarefnagagnagrunninn. Mælingarnar voru gerðar á lambakjötsstykkjum og lambakjötsafurðum, lambainnmat og öðrum hliðarafurðum s.s lifrum, nýrum, hjörtum, lungum, eistum, vélinda, brisi, milta, og blóði.
Í ljós kom að lambakjötið var það ríkt af B12-vítamíni, fólat vítamíni, kalíum og sínki að leyfilegt er að merkja þessi efni sem hluta af næringargildismerkingu kjötsins á umbúðum. Þungmálmarnir kvikasilfur, kadmín, blý og arsen voru ekki mælanlegir í kjötinu, þ.e. voru undir þeim mörkum sem mögulegt var að mæla með öryggi. Þessi mörk eru mjög lág og því er mögulegur styrkur þungmálmanna afar lágur.
Lambainnmaturinn og hliðarafurðirnar eru auðugar af járni og seleni en þessi efni eru mikilvæg næringarefni. Þegar um marktækt magn er að ræða er merking á umbúðum matvæla leyfileg samkvæmt merkingareglugerð. Þungmálmurinn kadmín var mælanlegur í lifur og nýrum en ekki öðrum sýnum. Kvikasilfur, blý og arsen voru ekki mælanleg í sýnunum, þó með þeirri undantekningu að kvikasilfur í nýrum var mælanlegt.
Þessar niðurstöður úr efnamælingunum eru sannarlega athyglisverðar og gefa ríkt tilefni til endurbóta á merkingum á þessum afurðum og upplýsingagjöf til hagaðila og almennings.
Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Íslenskt lambakjöt og Óli Þór Hilmarsson, verkefnastjóri hjá Matís ræddu um framkvæmd og niðurstöður verkefnisins í nýjum þætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Það er bæði skemmtilegt og fróðlegt að hlusta á þessa fagmenn ræða um málið sem er þeim greinilega kært. Hlaðvarpsþátturinn er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum en einnig í spilaranum hér að neðan.
Mikilvægar niðurstöður gerðar aðgengilegar
Mikill fjöldi fólks mun geta nýtt sér niðurstöður þessa verkefnis. Til að mynda munu allar afurðastöðvar í sauðfjárslátrun auk úrvinnslufyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja, smásöluaðila, bænda sem stunda heimavinnslu og annarra smáframleiðenda, fá nákvæm gögn sem auka hagræði við áætlanagerð, kostnaðar- og framlegðarútreikninga við úrvinnslu og mat á afurðaverði.
Smáframleiðendur í nýsköpun hafa ríka þörf fyrir uppfærð og nákvæm gögn um efnainnihald hráefna, til staðfestingar á næringarinnihaldi og hollustu afurða sinna. Vægi hliðarafurða í tekjugrunni greinarinnar er eitt stærsta tækifæri framtíðarinnar og öll gögn sem staðfesta fullyrðingar um hreinleika afurða og hátt gildi nauðsynlegra næringarefna eru því afar mikilvæg.
Smásöluverslanir, sérverslanir, veitingahús, stofnanir og mötuneyti munu einnig geta nýtt gögnin til hagsbóta í rekstri og endurmats á merkingum um næringarinnihald. Niðurstöðurnar nýtast svo einnig við kennslu og rannsóknir í landbúnaði, kjötiðnaði og matreiðslu.
Sigurgeir Höskuldsson vöruþróunarstjóri hjá Kjarnafæði Norðlenska og Benedikt Benediktsson framleiðslustjóri hjá SS eru sammála um að rannsóknir á efnainnihaldi lambakjöts nýtist vel þegar kemur að því að reikna út næringargildi kjötvara sem framleiddar eru. Af augljósum ástæðum er ekki hægt að mæla hverja einustu vöru en þá er mikilvægt að hafa aðgang að næringarefnagrunni sem er uppfærður og með bestu mögulegu upplýsingum. Niðurstöðurnar muni nýtast bæði við umbúðamerkingar og einnig í markaðslegum tilgangi.
Ægir Friðriksson, deildarstjóri matreiðslugreina hjá Menntaskólanum í Kópavogi nefnir að í heimi matreiðslumanns sé ekki mikið hugað að kjötmati því afurðastöðvar og dreifingaraðilar flokki kjötið en það sé þeim mun mikilvægara að matreiðslumenn séu meðvitaðir um í hverju munurinn liggur hvað varðar nýtingarhlutfall og kjötgæði. Þessi skýrsla gefur góða innsýn í hvernig kjötmat og nýting fara saman.
María Guðjónsdóttir prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands nefnir að um þessar mundir sé til skoðunar lífsferilsgreining lambavirðiskeðjunnar í háskólanum. Hærri nýting úr lambakjötsframleiðslunni þýðir hlutfallslega lægri umhverfisáhrif á hvern ætan bita, sérstaklega þegar litið er til umhverfisáhrifa próteinanna, sem er aðal neysluhlutinn. Greiningin sýnir að framleiðslan á íslensku lambakjöti er á svipuðu róli umhverfislega og framleiðsla í öðrum löndum. Lambið hefur þá einnig sérlega sterk áhrif á fæðuöryggi landsins, þar sem kindurnar þurfa minna af innfluttu fóðri og áburði en mörg önnur dýr. Ítarlegar greiningar líkt og þær sem koma fram í lambaskýrslu Matís eru nauðsynlegar fyrir áframhaldandi rannsóknir bæði á gæðum, nýtingu, og umhverfisáhrifum virðiskeðjanna okkar. Að auki má svo nefna að HÍ og Matís eru hluti af samnorrænu rannsóknarnetverki sem einblínir á kjötrannsóknir á Norðurlöndunum. Niðurstöður skýrslunnar nýtast þar í samanburðarrannsóknum á gæðum og nýtingu lambakjöts á milli landa.
Við notum vafrakökur til að tryggja almenna virkni, mæla umferð og tryggja bestu mögulegu upplifun notenda á matis.is.
Functional
Alltaf virkur
The technical storage or access is strictly necessary for the legitimate purpose of enabling the use of a specific service explicitly requested by the subscriber or user, or for the sole purpose of carrying out the transmission of a communication over an electronic communications network.
Preferences
The technical storage or access is necessary for the legitimate purpose of storing preferences that are not requested by the subscriber or user.
Statistics
The technical storage or access that is used exclusively for statistical purposes.The technical storage or access that is used exclusively for anonymous statistical purposes. Without a subpoena, voluntary compliance on the part of your Internet Service Provider, or additional records from a third party, information stored or retrieved for this purpose alone cannot usually be used to identify you.
Marketing
The technical storage or access is required to create user profiles to send advertising, or to track the user on a website or across several websites for similar marketing purposes.