Fréttir

Evrópuverkefnið BIO2REG býður til vinnustofu um lífhagkerfi

Matís og RISE frá Svíþjóð munu leiða saman sérfræðinga á sviði lífhagkerfis í vinnustofu sem ber heitið “BIO2REG expert workshop on research infrastructure and living labs” 5. og 6. september næstkomandi í húsakynnum Matís í Reykjavík.  

Í vinnustofunni verður farið yfir verkefni sem tengjast lífhagkerfum, þróun síðustu áratuga og mikilvægi grænnar orku. Innlendir og erlendir sérfræðingar munu taka til máls auk þess sem farið verður í vettvangsheimsóknir í valin fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. 

Vinnustofan er opin öllum og ókeypis.

Skráningarhlekk ásamt frekari upplýsingum og dagskrárdrögum má finna hér:

Fréttir

Lambakjöt og hliðarafurðir ,,Við getum haldið áfram að segja að íslenskt lambakjöt sé best”

Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum rannsóknar- og þróunarverkefnum um kjöt í samstarfi við framleiðendur og ýmsa hagaðila. Markmiðið er að styrkja innlenda kjötframleiðslu og efla verðmætasköpun. Nýlega lauk verkefni sem styrkt var af Matvælasjóði og bar yfirskriftina Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða og var unnið af Matís og markaðsstofunni Íslenskt lambakjöt.

Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við afurðastöðvarnar Kjarnafæði-Norðlenska /SAH Afurðir á Blönduósi,  Sláturfélag Suðurlands og kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga. Verkefninu var hrundið af stað til þess að mögulegt væri að leggja fram ný og traust gögn til að koma í stað þeirra 20-30 ára gömlu gagna sem alla jafna var stuðst við og voru orðin úrelt. Skortur á nýjum og uppfærðum gögnum um nýtingu og næringargildi var farinn að há markaðsstarfi á lambakjöti og hliðarafurðum bæði á innanlandsmarkaði og útflutningsmörkuðum.

Í verkefninu var gerð úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts en lambakjöt er almennt flokkað í 40 flokka á sláturhúsi og eftir því fá bændur greitt. Undanfarin ár hafa bændur staðið í miklu kynbótastarfi byggðu á gögnum sem þeir hafa safnað í miðlægan gagnagrunn og með því aukið framleiðni kjöts á hverja kind um u.þ.b. 30%. Það hefur í för með sér að þeir flokkar kjöts sem eru algengastir í dag m.t.t. hlutfalls vöðva og fitu á móti beinum, eru allt aðrir flokkar en þeir sem voru algegnastir fyrir 20-30 árum. Gögnin sem stuðst var við á íslenskum markaði endurspegluðu raunverulega stöðu íslensks lambakjöts þannig ekki nægilega vel áður en farið var af stað með þessa rannsókn. Auk þess vantaði ný gögn um næringarefnagildi þar sem þau gögn voru einnig um 20-30 ára gömul. Slíkar mælingar gagnast þeim sem vilja rökstyðja að varan sé heilnæm, bragðgóð, hafi einhverja sérstöðu o.s.frv.  Þriðji útgangspunktur rannsóknarinnar var svo athugun á því hvort kjötmatið sem framkvæmt er á Íslandi væri sanngjarnt og fullnægjandi.

Mikilvægt þótti að magn og gæði rannsóknarefnisins myndi endurspegla þýðið vel svo niðurstöðurnar sem fengjust yrðu marktækar og haldbærar. Því voru 63 skrokkar úr sjö kjötmatsflokkum valdir sem ná yfir 92% framleiðslunnar miðað við skiptingu í kjötmatsflokka árið 2021. Skrokkar voru valdir á þremur mismunandi sláturdögum, í tveimur sláturhúsum, norðanlands og sunnan, og staðfesti fagsviðsstjóri kjötmats hjá Matvælastofnun að hver skrokkur væri hefðbundinn skrokkur í sínum matsflokki en ekki á mörkum flokksins.

Hlutfall kjöts, fitu og beina í mismunandi gæðaflokkum staðfesti að kjötmat á Íslandi er raunhæft og í samræmi við skilgreiningar sem liggja að baki matinu að evrópskri fyrirmynd. Hér má lesa skýrsluna í heild og skoða nánari útlistun á mælingunum.

Mælingar voru svo gerðar á næringarefnum og þungmálmum og uppfærðar tölur settar inn í ÍSGEM næringarefnagagnagrunninn. Mælingarnar voru gerðar á lambakjötsstykkjum og lambakjötsafurðum, lambainnmat og öðrum hliðarafurðum s.s lifrum, nýrum, hjörtum, lungum, eistum, vélinda, brisi, milta, og blóði.

Í ljós kom að lambakjötið var það ríkt af B12-vítamíni, fólat vítamíni, kalíum og sínki að leyfilegt er að merkja þessi efni sem hluta af næringargildismerkingu kjötsins á umbúðum. Þungmálmarnir kvikasilfur, kadmín, blý og arsen voru ekki mælanlegir í kjötinu, þ.e. voru undir þeim mörkum sem mögulegt var að mæla með öryggi. Þessi mörk eru mjög lág og því er mögulegur styrkur þungmálmanna afar lágur.

Lambainnmaturinn og hliðarafurðirnar eru auðugar af járni og seleni en þessi efni eru mikilvæg næringarefni. Þegar um marktækt magn er að ræða er merking á umbúðum matvæla leyfileg samkvæmt merkingareglugerð. Þungmálmurinn kadmín var mælanlegur í lifur og nýrum en ekki öðrum sýnum. Kvikasilfur, blý og arsen voru ekki mælanleg í sýnunum, þó með þeirri undantekningu að kvikasilfur í nýrum var mælanlegt.

Þessar niðurstöður úr efnamælingunum eru sannarlega athyglisverðar og gefa ríkt tilefni til endurbóta á merkingum á þessum afurðum og upplýsingagjöf til hagaðila og almennings.

Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Íslenskt lambakjöt og Óli Þór Hilmarsson, verkefnastjóri hjá Matís ræddu um framkvæmd og niðurstöður verkefnisins í nýjum þætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Það er bæði skemmtilegt og fróðlegt að hlusta á þessa fagmenn ræða um málið sem er þeim greinilega kært. Hlaðvarpsþátturinn er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum en einnig í spilaranum hér að neðan.

Mikilvægar niðurstöður gerðar aðgengilegar

Mikill fjöldi fólks mun geta nýtt sér niðurstöður þessa verkefnis. Til að mynda munu allar afurðastöðvar í sauðfjárslátrun auk úrvinnslufyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja, smásöluaðila, bænda sem stunda heimavinnslu og annarra smáframleiðenda, fá nákvæm gögn sem auka hagræði við áætlanagerð, kostnaðar- og framlegðarútreikninga við úrvinnslu og mat á afurðaverði.

Smáframleiðendur í nýsköpun hafa ríka þörf fyrir uppfærð og nákvæm gögn um efnainnihald hráefna, til staðfestingar á næringarinnihaldi og hollustu afurða sinna. Vægi hliðarafurða í tekjugrunni greinarinnar er eitt stærsta tækifæri framtíðarinnar og öll gögn sem staðfesta fullyrðingar um hreinleika afurða og hátt gildi nauðsynlegra næringarefna eru því afar mikilvæg.

Smásöluverslanir, sérverslanir, veitingahús, stofnanir og mötuneyti munu einnig geta nýtt gögnin til hagsbóta í rekstri og endurmats á merkingum um næringarinnihald. Niðurstöðurnar nýtast svo einnig við kennslu og rannsóknir í landbúnaði, kjötiðnaði og matreiðslu.

Sigurgeir Höskuldsson vöruþróunarstjóri hjá Kjarnafæði Norðlenska og Benedikt Benediktsson framleiðslustjóri hjá SS eru sammála um að rannsóknir á efnainnihaldi lambakjöts nýtist vel þegar kemur að því að reikna út næringargildi kjötvara sem framleiddar eru. Af augljósum ástæðum er ekki hægt að mæla hverja einustu vöru en þá er mikilvægt að hafa aðgang að næringarefnagrunni sem er  uppfærður og með bestu mögulegu upplýsingum. Niðurstöðurnar muni nýtast bæði við umbúðamerkingar og einnig í markaðslegum tilgangi.

Ægir Friðriksson, deildarstjóri matreiðslugreina hjá Menntaskólanum í Kópavogi nefnir að í heimi matreiðslumanns sé ekki mikið hugað að kjötmati því afurðastöðvar og dreifingaraðilar flokki kjötið en það sé þeim mun mikilvægara að matreiðslumenn séu meðvitaðir um í hverju munurinn liggur hvað varðar nýtingarhlutfall og kjötgæði. Þessi skýrsla gefur góða innsýn í hvernig kjötmat og nýting fara saman.

María Guðjónsdóttir prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands nefnir að um þessar mundir sé til skoðunar lífsferilsgreining lambavirðiskeðjunnar í háskólanum. Hærri nýting úr lambakjötsframleiðslunni þýðir hlutfallslega lægri umhverfisáhrif á hvern ætan bita, sérstaklega þegar litið er til umhverfisáhrifa próteinanna, sem er aðal neysluhlutinn. Greiningin sýnir að framleiðslan á íslensku lambakjöti er á svipuðu róli umhverfislega og framleiðsla í öðrum löndum. Lambið hefur þá einnig sérlega sterk áhrif á fæðuöryggi landsins, þar sem kindurnar þurfa minna af innfluttu fóðri og áburði en mörg önnur dýr. Ítarlegar greiningar líkt og þær sem koma fram í lambaskýrslu Matís eru nauðsynlegar fyrir áframhaldandi rannsóknir bæði á gæðum, nýtingu, og umhverfisáhrifum virðiskeðjanna okkar. Að auki má svo nefna að HÍ og Matís eru hluti af samnorrænu rannsóknarnetverki sem einblínir á kjötrannsóknir á Norðurlöndunum. Niðurstöður skýrslunnar nýtast þar í samanburðarrannsóknum á gæðum og nýtingu lambakjöts á milli landa. 

Fréttir

Vel heppnuð vinnustofa um lífhagkerfi

Þann 20.-21. júní var haldin vinnustofa í Düren í Þýskalandi á vegum verkefnisins BIO2REG sem Matís er þátttakandi í. Sjálfbærniráðgjafar hjá BioökonomieREVIER sem starfar á vegum rannsóknastofnunarinnar Forschungszentrum Jülich GmbH, héldu vinnustofuna “Circular Bioeconomy in practices – Discovering value chains in bioeconomy model regions” fyrir hönd BIO2REG, í húsnæði pappírsverksmiðjunnar Reflex GmbH & Co. KG.

Vinnustofuna sótti fjölbreyttur hópur fólks sem innihélt m.a. hagsmunaaðila á svæðinu, sérfræðinga á sviði lífhagkerfis og eigendur fyrirtækja sem starfa á sviði pappírsframleiðslu í Evrópu. Á dagskránni voru bæði kynningar og stýrðar umræður ásamt því að hin yfir 150 ára gamla pappírsverksmiðja var heimsótt og starfsemi hennar kynnt fyrir gestum. Verksmiðjan sérhæfir sig í ákveðnum gerðum pappírs, þ.m.t. skjalapappír og það er gaman að segja frá því að þar er einmitt löggiltur íslenskur skjalapappír framleiddur.

Daginn eftir var svo farið í skoðunarferð um Norðurrín-Vestfalíu. Gestgjafarnir voru heimsóttir og starfsemi þeirra á sviði landbúnaðar og jarðræktar var kynnt. Annar viðkomustaður skoðunarferðarinnar var þorpið Morschenich-Alt, en það hefur verið yfirgefið að mestu í meira en áratug. Ástæða þess er sú að grafa átti fyrir kolum þar sem þorpið stendur núna. Flestir íbúanna seldu því orkufyrirtækinu heimilin sín og fluttu til Morschenich-Neu. Síðan þá hefur verið fallið frá áformum um áframhaldandi námugröft á svæðinu, m.a. vegna mótmæla loftslagssinna, og nú stendur til að byggja þorpið upp á ný.

Morschenich-Alt er ekki eina þorpið á svæðinu sem þurfti að víkja fyrir námugreftri. Hambach náman var líka heimsótt, en það er gríðarstór, opin kolanáma sem ennþá er í notkun. Áform eru um að loka öllum kolanámum á svæðinu fyrir árið 2030. BioökonomieREVIER hefur það hlutverk að drífa áfram græna umbreytingu svæðisins. Verkefnið ráðleggur fyrirtækjum, bændum og svæðisyfirvöldum um hvernig hægt er að færa hagkerfi sem byggir á jarðefnaeldsneyti (kolum) yfir í lífhagkerfi.

Vinnustofan var gríðarlega vel heppnuð og fóru þátttakendur ánægðir heim. Mikilvæg umræða skapaðist um áhrif þess að umbreyta svæðum, ekki bara fyrir efnahaginn heldur einnig á samfélagið. Í byrjun september verður svo haldin vinnustofa á Íslandi, á vegum Matís og sænsku rannsóknarstofnunarinnar RISE sem fjallar um rannsóknarinnviði. Fljótlega verður opnað fyrir skráningu á hana, en hún mun fara fram á heimasíðu BIO2REG og verður auglýst á miðlum Matís. Dagskrá verður birt þegar nær dregur.

Verkefnasíða BIO2REG

Fréttir

Samstarfssamningur Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands

Þann 3. júlí undirrituðu Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands samstarfssamning milli Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands um samstarf til að auka þekkingu og bæta þjónustu á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu.

Samningurinn er um rannsóknasamstarf bæði í innlendum sem erlendum verkefnum og samstarf um tillögur og sérverkefni fyrir stjórnvöld á sviði landbúnaðar og matvæla.

Samstarf verður um uppbyggingu rannsóknainnviða og sérfræðiþekkingar þar sem við á. Sérfræðingar beggja munu tengjast betur í gegnum sameiginleg verkefni.  Áherslusviðin þar sem samstarfið mun gagnast eru t.d. sauðfjárrækt, kynbætur (erfðafræði), ný prótein, tenging vinnslu og frumframleiðslu, nýting hliðarafurða, fóður, áburður, vöruþróun og samstarf við neytendur. Þá er stefnt að nýtingu sértækra rannsóknainnviða hvors annars til að skapa samlegðaráhrif í starfseminni og um leið að styrkja rekstrarforsendur innviðanna.

Gert er ráð fyrir vinnu ný-doktora, doktors- og eða meistaranema í völdum samstarfsverkefnum og skulu þeir að jafnaði vera undir leiðsögn sérfræðinga annars eða beggja aðila. Aðilar vinna að fjölgun doktorsnema á sviði landbúnaðar og matvæla.

Aðilar leggi áherslu á nýtingu á erlendum tengslanetum í Evrópu og Norðurlöndum, sbr. UNIgreen og annarra samstarfsaðila eftir því sem við á.

Fréttir

Plastrannsóknir ,,Það þurfa öll lönd að gyrða sig í brók, fara að mæla þetta og segja stopp“

Undanfarin ár hafa verið unnin ýmis verkefni hjá Matís sem viðkoma plasti á einn eða annan hátt. Sophie Jensen, verkefnastjóri í faghópi sem fæst við lífefni hefur unnið að flestum þeim verkefnum en þar er til dæmis um að ræða verkefnin NordMar Plastic og verkefni um kemísk efni í veðruðu örplasti í sjónum sem styrkt voru af Norrænu ráðherranefndinni, LuLam Wrap og verkefni um áskoranir við pökkun grænmetis sem styrkt voru af Matvælasjóði.

Brýn þörf er á því að þróa nýjar, umhverfisvænar lausnir þegar kemur að pökkunarefnum fyrir matvæli til þess að leysa plastið af hólmi og Matís hefur unnið með frumkvöðlum og rannsóknaraðilum innanlands og utan að því að finna heppilega staðgengla. Einnig hafa verið unnin almennari verkefni um plast t.d. til þess að skilgreina, rannsaka og fylgjast með plasti í umhverfinu með það fyrir augum að auka umhverfisvitund fólks og draga úr plastnotkun.

Á vef Landverndar og á vefsíðu átaksins Plastlaus september er spurningunni Hvað er plast? svarað og þar kemur fram að plast þyki mörgum vera undraefni því það er auðvelt að móta það, það er slitsterkt og endingargott. Plast hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar það með tímanum í smærri og smærri einingar eða agnir. Til framleiðslu á plasti þarf jarðefnaeldsneyti, þ.e. olíu og gas en þær auðlindir eru ekki endurnýjanlegar sem þýðir einfaldlega að á endanum munu þær klárast.

Vandamálið við plast er í raun ekki plastið sjálft heldur hvernig það er notað. Hver Íslendingur notar að meðaltali 40 kg af umbúðaplasti árlega, að megninu til einnota plastvörur. Mikið af þessu plasti endar í sjónum þar sem það veldur skaða á lífríki náttúrunnar.

Verkefni sem Matís hefur unnið að og tengjast plasti eru fjölbreytt. NordMar Plastic verkefnið var afar metnaðarfullt verkefni sem ráðist var í árið 2019 og stefnan var að setja upp norrænt netverk af sérfræðingum í plasti með sérstaka áherslu á örplast. Það hafði þá vantað staðal eða staðlaðar aðferðir til þess að mæla og greina örplast í umhverfinu. Áhersla var lögð á norðurlöndin því þar hefur vantað upplýsingar t.d. um hvar örplastið er að finna, í hve miklum mæli o.s.frv. Markmiðið var að samhæfa aðgerðir í þessum málum á svæðinu og skoða hvað þarf að gera og hvernig.

Annað stórt markmið var að vekja einfaldlega athygli á plast vandanum í samfélaginu. Í dag er fólk farið að átta sig á því að stórir plast hlutir í sjónum á borð við einnota borðbúnað, plastumbúðir, veiðarfæri og fleira eru vandamál en við sjáum örplast ekki og áttum okkur því ekki jafn vel á því hve stórt vandamálið í kringum það er. Örplast verður til annars vegar þegar stærri plasteiningar brotna niður með tímanum og hinsvegar er það framleitt sérstaklega og notað í ýmsar vörur eins og hreinsiefni, málningu, fatnað og fleira.

Örplast má finna í öllu mögulegu. Í vatni, á jöklum og í andrúmsloftinu. Sýnt hefur verið fram á að við mannfólkið innbyrðum því sem jafngildir einu greiðslukorti á viku vegna plastmengunar.

Haldnir voru allskyns viðburðir og vinnustofur um allt land í samstarfi við Landvernd, Oceans missions og fleiri samtök þar sem markmiðið var að vekja athygli á plasti. Einnig var útbúið kennsluefni um plast í hafinu fyrir grunnskóla sem unnið er með í mörgum íslenskum skólum í dag. Ráðstefnan Arctic Plastic symposium sem haldin hefur verið í Hörpu undanfarin ár er einnig afrakstur NordMar Plastic verkefnisins.

Ein afurð verkefnisins var Instagramsíða og þangað inn voru sett stutt en afar fróðleg og nytsamleg myndbönd um það hvernig þú getur minnkað plastnotkun í mismunandi herbergjum á heimilinu þínu. Það eru ýmsar lausnir til nú þegar.

Í verkefninu um kemísk efni í veðruðu örplasti í sjónum var kannað hvort og í hversu miklu magni efnin sem eru í plasti og eru skaðleg skila sér út í sjávarumhverfið. Tvær gerðir af plasti voru hakkaðar niður í örlitlar agnir og settar í netapoka út í sjóinn í fjóra mánuði. Gerðar voru efnamælingar bæði áður en plastið var sett í sjóinn og eftir að það var tekið upp aftur og þá var hægt að sjá muninn á því hve mikið af plastefnunum hafði losnað.

Einnig var framkvæmt áhættumat þar sem lítið er vitað um það nákvæmlega hvaða efni eru notuð í mismunandi tegundir plasts. Vegna skorts á reglugerðum um plast eru ekki gerðar kröfur á plastframleiðendur um að gefa þær upplýsingar sérstaklega upp.

Efnin sem fundust og höfðu losnað úr plastinu voru mörg hver krabbameinsvaldandi eða hafa hormónaáhrif, t.d. á estrógen og þar með á frjósemi fólks. Ekki var hægt að draga neinar ályktanir út frá þessari rannsókn en mikilvægt þótti að vekja athygli á því að þessi efni eru að losna út í sjóinn og þarna er tilefni til frekari rannsókna.

Í verkefninu um áskoranir við pökkun grænmetis tók Sophie saman hvernig staðan er í dag hvað matvælaumbúðir varðar en plastið hefur vissulega ýmsa eftirsóknarverða eiginleika þegar kemur að því að varðveita matvæli. Aftur á móti er mikilvægt að vega þá kosti og meta á móti neikvæðum áhrifum plastnotkunar. Í samantektinni var munur á hefðbundnu plasti, lífrænu plasti og  lífbrjótanlegu plasti skoðaður og ýmsir kostir og gallar metnir. Umbúðir úr lífplasti teljast umhverfisvænar og hafa þær komið sterkt inn sem staðgengill plastumbúða.

Í lokaskýrslu verkefnisins kemur fram að ýmsar framtíðarlausnir fyrir umhverfisvænar umbúðir séu við sjóndeildarhringinn og mikið þróunarstaf á þessu sviði hefur verið unnið bæði á Íslandi og erlendis. Umbúðir úr íslensku hráefni og þekkingu á efnisvinnslu fyrir þær hefur skort, en nokkur nýsköpunarverkefni eru þó í farvatninu. Einnig er mikil nýsköpun erlendis tengd umbúðum úr hreinu frumhráefni og má þar nefna má þróun á umbúðum úr stoðvef plantna og þörungum. Því er rétt að fylgjast vel með nýjungum sem líta dagsins ljós.

Sophie Jensen var viðmælandi í nýjum þætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Í viðtalinu fór hún vel yfir öll helstu plastverkefni sem Matís hefur unnið að undanfarin ár, sagði frá því sem er að gerast í rannsóknum á plasti í heiminum og gaf hlustendum allskyns góð ráð við að minnka plastnotkun á heimilunum.

Hlustið á hlaðvarpsþáttinn hér: Plastrannsóknir – ,,Það þurfa öll lönd að gyrða sig í brók, fara að mæla þetta og segja stopp!“

Fréttir

Íslensk ungmenni slógu í gegn á matarfundi ungs fólks í Danmörku

Í lok maí var haldinn Matarfundur ungs fólks, Ungdommens madmøde, í Danmörku. Á matarfundinum kynntu nemendur Matvælaskóla Menntaskólans í Kópavogi íslenskan mat fyrir öðrum norrænum nemendum í matvælagreinum og um 150 dönskum grunnskólanemendum.

Það er skemmst frá því að segja að íslensku nemendurnir, Markús Eðvarð Karlsson, Svanfríður Elín Bjarnadóttir og Sölvi Hermannsson, stóðu sig frábærlega og var íslensku réttunum mjög vel tekið. Uppskriftirnar og framreiðslan var gerð undir leiðsögn Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara og kennara.

Kynning íslensku ungmennanna var hluti af vinnustofu sem var kölluð Nordic kitchen þar sem ungmenni frá Norðurlöndunum kynntu mat frá sínum löndum. Auk Nordic kitchen vinnustofunnar voru vinnustofur sem fólu m.a. í sér bragðþjálfun og innblástur fyrir hollar máltíðir og snarl.

Markmiðið með matarfundinum var að hvetja til sjálfbærrar matarmenningar meðal matgæðinga framtíðarinnar og skapa tengsl meðal ungmenna og fagfólks. Hugmyndin var að skapa tækifæri og áhuga hjá næstu kynslóð neytenda á að borða og elda matvæli sem eru bæði holl og góð fyrir þau sjálf og heiminn sem þau lifa í.

Samhliða vinnustofunum var haldin ráðstefnan Matur í skólanum í norrænu ljósi. Hvernig getur matur stuðlað að heilsu, námi og vellíðan í skólum? og greindi þar Dr. Ellen Alma Tryggvadóttir frá Háskóla Íslands, frá þeirri reynslu af skólamáltíðum sem hefur orðið til á Íslandi.

Viðburðurinn Ungdommens madmøde var hluti af stærri matarviðburði Madens folkemøde sem hefur verið haldinn árlega síðastliðinn áratug og hefur það að markmiði að skapa vettvang fyrir samtal um danska matarmenningu og matvælakerfi. Þar er á ferðinni sérstaklega áhugaverður viðburður sem vert er að heimsækja og jafnvel taka upp hérlendis. 

Matís tók þátt í skipulagi Ungdommens madmøde en viðburðurinn var styrktur af Norrænu ráðherranefndinni gegnum Ny nordisk mad verkefnið.

Fréttir

Norrænt netverk um útbreiðslu selastofna í Norður Atlantshafi og áhrif þeirra á sjávarútveg og aðra hagaðila

Nýlega lauk rannsóknar & netverksverkefninu Nordic Seals, eða „Norrænt netverk um selastofna á norðurslóð“, sem Matís leiddi. Verkefnið var styrkt af vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í málefnum sjávarútvegs og fiskeldis AG-fisk. Meginmarkmið verkefnisins var að stuðla að myndun netverks hagaðila er koma að rannsóknum á selastofnum, eða verða fyrir áhrifum af selum á svæðinu. En á þann hátt var unnt að stuðla að virku samtali milli lykil hagaðila varðandi útbreiðslu og áhrif sela á umhverfið og samfélögin í N-Atlantshafi þ.m.t. á sjávarútveg og fiskeldi.

Selveiðar voru mikilvæg atvinnugrein víða á Norðurlöndunum fyrr á tíðum, enda veiddu selfangarar frá Noregi, Finnlandi, Grænlandi, Danmörku, Íslandi, Rússlandi og Kanada hundruð þúsunda sela á ári hverju. Þessi iðnaður varð fyrir harðri gagnrýni á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar dýravelferð fór að skapa stærri sess í umræðunni um nýtingu villtra dýrastofna. Um aldamótin voru svo selveiðar orðnar pólitískt óásættanlegar, sem hafði áhrif á markaði fyrir afurðirnar og gerði það að verkum að selveiðar í atvinnuskyni lögðust að lokum nánast af. Selveiðar í N-Atlantshafi hafa nú verið nánast engar í rúma tvo áratugi. En hvaða áhrif hefur þessi breyting á nýtingu selastofna haft á vistkerfi og efnahag þeirra sem verða fyrir áhrifum af breytingum á stærð og útbreiðslu selastofna?

Nordic Seals netverkið hefur frá því þegar því var komið á fót árið 2021 safnað, greint og miðlað upplýsingum um selastofnana á norðurslóðum og hefur til dæmis:

  • Safnað upplýsingum um selastofna og útbreiðslu á N-Atlantshafi, í Íshafinu, sem og á aðliggjandi hafsvæðum (t.d. Norðursjó, Eystrasalt, Skagerrak, Kattegat o.fl.),
  • Greint möguleg áhrif selastofna á vistkerfið, og kynnt sér þá vinnu sem er í gangi til að meta þau áhrif,
  • Greint hvaða áhrif selastofnar hafa á norrænan sjávarútveg,
  • tilgreint leiðir til að hafa stjórn á selastofnum, þar með talið sjálfbærar veiðar,
  • Kannað og tilgreint hugsanlegar vörur og markaði fyrir selaafurðir, samhliða því að huga að hindrunum eins og dýravelferð, stefnu og pólitískri rétthugsun, matvælaöryggi og eiturefnum.

Helstu niðurstöður áðurnefndrar vinnu má nú sjá í nýútkominni skýrslu, sem nálgas má hér.

Aðrar mikilvægar afurðir verkefnisins eru eftirfarandi:

Í samantekt lokaskýrslu verkefnisins kemur eftirfarandi fram:

Samhliða því sem selastofnar hafa stækkað í N-Atlantshafi, Íshafinu og aðliggjandi hafsvæðum á undanförnum misserum, hafa þeir orðið sífellt umdeildari á meðal sjómanna og annarra hagaðila innan virðiskeðja sjávarafurða. Er því gjarnan haldið fram að stækkandi selastofnar hafi neikvæð áhrif á nytjastofna, aflamagn, afurðagæði og efnahagslega afkomu í sjávarútvegi. Margir vísindamenn og náttúruverndarsinnar hafa aftur á móti bent á skort á upplýsingum og skilningi á hlutverki sela í vistkerfinu. Þó vitað sé að selir nærist á ýmsum fisktegundum er rannsóknum á áhrifum þeirra á stofnstærð, aldursdreifingu og viðgangi nytjastofna ófullnægjandi. Almennt skortir verulega upp á þekkingu á hlutverki og áhrifum sela í vistkerfinu. En þar sem sumir selastofnar hafa enn ekki jafnað sig að fullu á þeim veiðum sem fram fóru fyrir mörgum áratugum síðan er ljóst að ákvarðanir um veiðar og nýtingu sela þurfa að vera grundvallaðar á góðri vísindalegri þekkingu. Í dag er það helst að selir veiðist sem meðafli við aðrar veiðar, og getur það haft veruleg áhrif á viðgang einstakra selastofna. Er seladauði við veiðar á grásleppu hér við land gott dæmi um það.

Afrán og skemmdir á veiðarfærum og eldiskvíum af völdum sela er vel þekkt vandamál, en vistfræðileg- og efnahagsleg áhrif þessa eru hins vegar að mestu órannsökuð. Þá eru hringormar þekkt vandamál sem tengis selum, en hringormar hafa mikil áhrif á gæði, nýtingu og efnahagslega aflkomu í sjávarútvegi. Hér á árum áður voru selir veiddir sérstaklega til að koma í veg fyrir útbreiðslu hringorma, en hver man ekki eftir hingormanefnd?

Rannsóknir sýna að þær selategundir sem eru í N-Atlantshafi og tengdum hafsvæðum þurfa að borða lífmassa sem samsvarar 4-6% af líkamsþyngd sinni á dag til að viðhalda sér. Fjöldi sela á svæðinu er nú orðinn um 14 milljónir einstaklinga og því líklegt að neysla sela á lífmassa sé um þreföld á við veiðar mannanna á svæðinu. En eins og áður sagði er þekking á áhrifum neyslu sela á viðgang nytjastofna ófullkomin.

Selir eiga sér langa sögu sem mikilvægur fæðugjafi á norðurslóðum. Selkjöt er næringarríkt og fullt af mikilvægum amínósýrum, vítamínum og steinefnum. En kjötið inniheldur einnig óæskileg efni sem ógnað geta matvælaöryggi, svo sem hringorma, þungmálma og önnur snefilefni. Innflutningsbann á selaafurðum sem Bandaríkin og ESB settu á fyrir all-löngu-síðan hafa gert hvers kyns viðskipti með selaafurðir nær ómöguleg. En þar sem sumir selastofnar stækka á ákveðnum svæðum verður spurningin um mögulega nýtingu áleitnari. Til að svara þeirri spurningu er þörf á frekari rannsóknum til að skilja betur hlutverk sela í vistkerfinu og hvernig hægt sé að framleiða sjálfbær, örugg og stöðug matvæli og fóður úr selaafurðum.

Fréttir

Sjálfbær hágæða matvæli úr stórþörungum

Upphafsfundur SEAFOODTURE verkefnisins fór fram þann 13. maí 2024 hjá Institute of Food Science Research (CIAL) í Madríd á Spáni. Verkefnið miðar að því að nýta lífmassa stórþörunga til þróunar á sjálfbærum, hágæða matvælum. Verkefnið er styrkt af Sustainable Blue Economy Partnership (SBEP).

Það voru 10 samstarfsaðilar frá 8 löndum sem sóttu upphafsfund verkefnisins sem fór fram þann 13. maí 2024 á Institute of Food Science Research (CIAL) í Madríd á Spáni.

Um er að ræða þriggja ára verkefnið sem felur í sér 9 vinnupakka þar sem eftirtaldir samstarfsaðilar taka þátt:

  • Spanish Council for Scientific Research (CSIC – verkefnisstjórn), Spánn
  • Universidade de Santiago de Compostela (USC), Spánn
  • Tarsus Üniversitesi (Tarsus), Tyrkland
  • Porto-Muiños, Spánn
  • Sapienza Università di Roma (Sapienza), Ítalía
  • Universidade de Aveiro (UA), Portúgal
  • Innovate Food Technology LTD. T/A Innovate Solutions, Írland
  • Matís, Ísland
  • SINTEF Ocean, Noregur
  • Þang / Tartu Ülikool (Tartu), Eistland

Verkefnasíða verkefnisins er aðgengileg hér.

Vefsíðu verkefnisins má svo finna hér.

Fréttir

Austfirðingar áhugasamir um loftslagsmál

Þann 5. júní hélt Matís, ásamt Austurbrú, vinnustofu á vegum Evrópuverkefnisins NATALIE á Reyðarfirði. Í lok síðasta árs hófst Evrópuverkefnið NATALIE, sem Matís og Austurbrú eru þátttakendur í. Megin áhersla verkefnisins er að þróa svokallaðar náttúrutengdar lausnir (e. Nature-based solutions; NBS). Lausnum þessum er ætlað að bregðast við þeim vandamálum sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér. Þar má nefna aukna skriðuhættu, hækkandi sjávarstöðu, þörungablóma og fleira.

Markmið vinnustofunnar var að kynna verkefið fyrir helstu hagsmunaaðilum svæðisins og fá þeirra sýn á þá möguleika sem verkefnið býður upp á. Í tilfelli NATALIE eru hagsmunaaðilar allir þeir aðilar sem þurfa að glíma við einhvers konar áskoranir tengdar loftslagsbreytingum og það er því fjölbreyttur hópur sem kemur að verkefninu. Þátttakendur vinnustofunnar voru 11 og komu frá sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Verkefnið NATALIE var kynnt fyrir þátttakendum  og hópavinna fór svo fram samkvæmt stöðluðu vinnulagi verkefnisins. Unnið var með loftslagsáskoranir, mögulegar náttúrutengdar lausnir og hindranir sem gætu staðið í vegi fyrir innleiðingu þeirra. Lykilatriði er að fá sjónarhorn hagsmunaaðila áður en hafist er handa við innleiðingu náttúrutengdra lausna. Þeir eru sérfræðingar þegar kemur að þeim vandamálum sem svæðið stendur frammi fyrir og geta því lagt til þekkingu sem  ekki er augljós utanaðkomandi aðilum, t.d. um stöðu aðgerða, fyrirhugaðar lausnir og mikilvægi ákveðinna innviða.

Vinnustofan gekk vel og ánægjulegt að sjá hve virkir þátttakendur voru og viljugir til þess að leggja sitt af mörkum svo markmiðum NATALIE verði náð. Hagaðilar svæðisins eru þegar meðvitaðir um þær loftslagstengdu áskoranir sem Austurland stendur frammi fyrir og vilja auka viðnámsþrótt svæðisins varðandi þær. Þessi mikli áhugi fyrir loftslags- og umhverfismálum hjá hagsmunaaðilum á Austurlandi er dýrmætur fyrir NATALIE verkefnið og Matís og Austurbrú hlakka til frekari samvinnu.

NATALIE er fimm ára verkefni og eru þátttakendur alls 43, víðsvegar að úr Evrópu, allt frá Rúmeníu til Íslands. Áskoranirnar sem þessi svæði glíma við eru mismunandi en eiga það allar sameiginlegt að tengjast hringrás vatns. Verkefnið er umfangsmikið en Matís hefur umsjón með rannsóknarsvæði 7 (e. Case study 7) sem snýr að norðurslóðum. Matís og Austurbrú munu, í góðu samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu, taka þátt í þróun nýrra NBS lausna á svæðinu. Lausnirnar eru unnar í samstarfi við sérfræðinga hjá Exeter háskóla og Heimskautaháskólanum í Tromsö (UiT).

Verkefnið NATALIE er fjármagnað af Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins undir styrk N° 101112859.

Fréttir

Upphafsfundur í BioProtect verkefninu

Dagana 22.-23. maí fór fram í Kaupmannahöfn upphafsfundur í evrópska rannsóknar- og nýsköpunarverkefninu BioProtect, sem leitt er af Matís og Hafrannsóknastofnun. Verkefnið mun standa yfir næstu 4 ár, þar sem saman koma 18 fyrirtæki og stofnanir víða að úr Evrópu með það að markmiði að þróa lausnir til að takast á við loftslagsbreytingar og ógnun manna við líffræðilegan fjölbreytileika sjávar. Verkefnið hefur hlotið 8 milljón evra stuðning frá Horizon Europe rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun og er því á meðal stærstu verkefna sem íslenskir aðilar hafa stýrt innan rammaáætlana Evrópu.

Þennan upphafsfund sóttu um 40 lykil-fulltrúar þátttakenda, ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og utanaðkomandi ráðgjöfum. Á fundinum var sérlega jákvætt andrúmsloft þar sem allir hlutaðeigandi eru spenntir fyrir komandi verkefnum, og nýttu meðal annars fundinn til að skipuleggja í þaula þá vinnu sem fram mun fara á komandi misserum.

Sophie Jensen lagði áherslu á mikilvægi samstarfs í BioProtecgt og að allir þátttakendur standi undir þeirri ábyrgð sem til er ætlast svo að verkefnið skili tilætluðum niðurstöðum
Sophie Jensen hjá Matís og Julian Burgos hjá Hafró stýra verkefninu

Í aðalhlutverki á fundinum voru þau Sophie Jensen hjá Matís, sem stýrir verkefninu (e. coordinator), og Julian Burgos hjá Hafró, sem er vísindalegur leiðtogi verkefnisins (e. scientific manager), en saman mynda þau frábært stjórnunarteymi fyrir þetta áhugaverða og þarfa verkefni.

Christophe Pamoulie, rannsóknarstjóri Hafró, fer yfir hlutverk stofnunarinnar í BioProtect.
Sæmundur Sveinsson og Cecile Dargentolle hjá Matís tryggðu að ekki kæmu upp tæknileg vandamál, auk þess að halda nákvæma fundargerð.
Jónas R. Viðarsson hjá Matís hefur það hlutverk í BioProtect at tryggja að allar formlegar kröfur Horizon Europe séu uppfylltar (e. Administrative manager) s.s. varðandi samninga, hugverk, skráningu á vinnuframlagi og kostnaði o.m.fl.
Fríður hópur lykilþátttakenda í BioProtect sem tóku þátt í upphafsfundi verkefnisins
IS