News

Viltu taka þátt í rannsókn á Omega Cold lýsi?

Við hjá Matís leitum að þátttakendum í rannsókn á virkni lýsis með viðbættum fríum fitusýrum í baráttunni gegn kvefi og flensum.

Meira um lýsið sem er til rannsóknar

Lýsið sem algengast er á markaði í dag hefur verið hreinsað af svokölluðum fríum fitusýrum. Áður en farið var að hreinsa lýsi á þennan hátt innihélt það fríar fitusýrur í nokkru magni. Omega Cold lýsið, sem notað er í þessari rannsókn, er hreinsað lýsi líkt og algengast er á markaði í dag en líkist gamla lýsinu að því leyti að það inniheldur fríar fitusýrur (2%). Rannsóknir sem Lipid Pharmaceuticals ehf. lét gera í Bandaríkjunum sýndu að lítið magn þessara fitusýra í tilraunaglösum drap veirur sem valda COVID-19 og kvefi. Þessi rannsókn er fyrsta skrefið í því að kanna hvort  lýsi með fríum fitusýrum geti hindrað framgang þessara veira í fólki. Rannsóknin gengur því út á það að bera saman tvo hópa fólks með tilliti til kvefs og annarra öndunarfærasýkinga, þeirra sem taka Omega Cold lýsið og hinna sem taka jurtaolíu í staðinn. Jurtaolían sem notuð verður í rannsókninni er hreinsuð sólblómaolía með háu hlutfalli af omega-9 fitusýrum. Bæði lýsið og jurtaolían verða með sítrónubragði.

Rannsóknaraðilar

Rannsóknin er á vegum Háskóla Íslands og Lipid Pharmaceuticals ehf. og styrkt af Tækniþróunarsjóði. Matís annast framkvæmd rannsóknarinnar.

Hvað felst í þátttöku?

Skilyrði fyrir þátttöku eru að geta tekið lýsi með sítrónubragði, vera á aldursbilinu 18-80 ára og almennt við góða heilsu

  • Allir þátttakendur verða beðnir um að skrá upplýsingar um heilsufar með tilliti til kvef- og flensueinkenna vikulega í fjóra mánuði með stuttum spurningalistum.
  • Þátttakendum verður skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn fær Omega cold lýsið til að taka tvisvar sinnum á dag í fjóra mánuði. Hinn hópurinn fær jurtaolíu til að taka á sama hátt.
  • Þátttakendur verða ekki beðnir um að breyta neinu öðru í neyslu eða hegðun en að taka olíuna og skrá heilsufarsupplýsingar.
Nánar um framkvæmd rannsóknarinnar

Stefnt er að því að hefja rannsóknina í lok nóvember eða byrjun desember. Í upphafi rannsóknar verða allir þátttakendur beðnir um að svara spurningalista um almennt heilsufar og líðan, sjúkdómasögu, lyfjanotkun, neyslu á fæðubótarefnum, mataræði, munn- og tannheilsu, hreyfingu, tóbaks- og , áfengisnotkun, félagshegðun, almenna heilsu og smitvarnir, ásamt spurningum um kyn, aldur, fjölda og aldur barna, atvinnuþátttöku og menntun.

Þátttakendum verður skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn fær Omega Cold lýsi til að taka tvisvar sinnum á dag í fjóra mánuði, eina skeið (5 til 7 ml) í hvort sinn. Hinn hópurinn er viðmiðunarhópur og tekur jurtaolíu á sama hátt í stað lýsisins. Þátttakendur fá ekki upplýsingar um hvorum hópnum þeir tilheyra. Þátttakendur verða ekki beðnir um að breyta neinu öðru í neyslu eða hegðun en að taka olíuna og skrá heilsufarsupplýsingar. Séu þátttakendur vanir að taka hefðbundið lýsi eða önnur fæðubótarefni, eru þeir hvattir til að halda því áfram, auk þess að taka olíuna fyrir rannsóknina.

Meðan á rannsókninni stendur fá þátttakendur vikulega tengil á mjög stuttan spurningarlista til að skrá heilsufarsupplýsingar með tilliti til kvef- og flensueinkenna.

Í lok rannsóknarinnar fá þátttakendur sendan spurningalista um upplifun sína af notkun olíunnar ásamt nokkrum lokaspurningum (endurtekning frá upphafs-spurningalista). Forritið SurveyMonkey verður notað til að keyra kannanirnar og skrá gögnin.

Þeir þátttakendur sem ljúka rannsókninni fá 15.000 kr. gjafabréf sem þakklætisvott.

Vísindasiðanefnd hefur veitt leyfi fyrir rannsókninni. Hvorki nöfn þátttakenda né aðrar persónugreinanlegar upplýsingar munu koma fram í túlkun niðurstaðna, skýrslum, greinum eða öðru efni sem fjallar um rannsóknina. Vinnsla gagna verður í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

News

Saltfisksvindl

Saltfiskframleiðendur hér á landi hafa lengi grunað að saltaðar þorskafurðir frá Noregi geti verið ranglega merktar sem íslenskar á mörkuðum í Suður-Evrópu.

Markaðsstaða íslenskra saltfiskafurða hefur um langa tíð verið mjög sterk í Suður-Evrópu, sérstaklega á Spáni og Portúgal. Á þessum mörkuðum hafa íslenskar afurðir ákveðna sérstöðu og er verð fyrir Íslenskan saltfisk almennt hærra en fyrir salfisk frá öðrum svæðum. Vegna þessara grunsemda var ákveðið að ráðast í rannsókn til að kanna uppruna saltfisks sem merktur er sem íslenskur á mörkuðum á Spáni og Portúgal.

Til að geta sannreynt uppruna saltfiskafurða var þróuð erfðafræðileg aðferð til að greina megi á milli þorsks frá Íslandsmiðum og þorsks sem er veiddur er við Noregsstrendur og í Barentshafi. Þá var saltfiskafurðum safnað í Barcelona, Bilbao, Porto, Lissabon og Aveiro. Til þess að saltfisksýni væri samþykkt í rannsóknina þurfti að fylgja honum fullyrðing þess efnis að um íslenska afurð væri að ræða, annað hvort á merkingu eða staðfestingu frá fisksala. Ekki var nóg að fiskurinn væri sagður frá Norður Atlantshafi. Þá var einungis safnað sýnum af fullunnum saltfiski sem markaðssettur var sem þorskur (cod) eða bacalao, en einnig mátti afurðin vera útvatnaður saltfiskur. Safnað var alls 266 sýnum á fiskmörkuðum, stórmörkuðum og í sælkeraverslunum.

Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að nokkuð sé um saltfisksvindl, þar sem 44 sýnanna, eða 16.5%, reyndust vera af Barentshafsþorski.

Er hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir íslenska saltfiskframleiðendur þar sem verið er að misfara með hið góða orðspor sem fer af íslenskum saltfiski og það samkeppnisforskot sem íslenskir framleiðendur hafa. Þá er einnig hætta á að Barentshafsþorskur sem seldur er sem íslenskur saltfiskur geti skaðað ímynd okkar góðu afurða, þar sem gæðin eru einfaldlega ekki þau sömu. Frekar má fræðast um rannsóknina og niðurstöður hennar í skýrslu sem nálgast má here.

Rannsóknaverkefnið var styrkt af Matvælasjóð.

News

Dalahvítlaukur: Verðmæt reynslusaga sem skilar sér í gæðaafurð

Hjónin Haraldur Guðjónsson og Þórunn Ólafsdóttir rækta hvítlauk að neðri Brekku í Saurbæ í Dölum. Matís vinnur í samstarfi við þau að verkefninu Dalahvítlaukur, en vöruþróunin fer alfarið fram í aðstöðu Matís að Vínlandsleið. En hvernig hófst þetta ævintýri? Hjónin í Dölum greina hér frá.

Hugmyndin að hvítlaukssaltinu kom þegar við sáum hversu mikið af afgangsrifjum af hvítlauknum varð eftir. Hvernig væri hægt að nýta þetta magn, það hlyti að vera hægt að búa eitthvað til. Þegar laukurinn er tekinn í sundur, verður eftir hráefni, þar sem aðeins stærstu rifin eru tekin fyrir útsæði. Þá vaknaði spurningin hvað ætti að gera við afganginn, sem einnig er verðmæti. Raunar verðmætabjörgun.

Þórunn Ólafsdóttir, Ólafur Guðjón Haraldsson og Erling Þ. Kristinsson

Í upphafi stóð bara til að rækta hvítlauk og gera það eins lífrænt og við getum. Við notum engan tilbúinn áburð eða önnur kemísk efni, eins og skordýra- sveppa- og arfaeitur. Notum sem fjölbreyttastan þekjugróður úr eingöngu einærum plöntum úr flestum flokkum. Við sáum byggi, hveiti, rúgi, sumarrýgresi, gulrætum, salati, rauðsmára, fóðurflækju, sinnepblóm, grænkál, radísum, ertum, spínati, næpum o.fl. Erum ekki að snúa eða plægja jarðveginum, en með því erum við að rífa upp heimili örvera, jarðorma, rótarsveppsins o.fl.lífrænu efni. Með þessari aðferð, með því að raska jarveginn sem minnst og nota þekjugróður, þá er verið að byggja upp jarðveginn og lífrænan massa hans og örverulífið, sem þar býr. Það mætti kalla það neðjanjarðarbúfénað.

Lífrænn jarðvegur með auðgandi landbúnaði

Þekjugróðurinn deyr um veturinn og leggst sem kápa – eða þekja yfir jarðveginn og hlífir moldinni þannig veðrum, vindum og hitabreytingum. Er einnig fæða fyrir örverurnar. Með tímanum byggist upp lífrænn jarðvegur. Það hefur komið í ljós að það tekur að jafnaði ekki langan tíma. Árangur kemur fljótt í ljós, jafnvel á 2 til 4 árum. Þetta er hluti af því sem kallast auðgandi landbúnaður.

Áburður sem gefinn er hvítlauknum er þaramjöl, glæðir, hæsnaskítur, kúamykja og annar lífrænn áburður.

Með þessu ræktun við hollari hvítlauk, sem er bragðgóður og getur geymst í marga mánuði.

Þegar það fréttist víðar að við værum að rækta hvítlauk, þá var haft samband við okkur frá fyrirtækinu Bananar ehf. Vildu þeir gera samning við okkur um sölu á megninu af sölulegri uppskeru af heilum hvítlauk og koma til sölu í verslunum sínum. Stofnað var félagið Svarthamar Vestur ehf í kringum hvítlaukinn og gerður samningur við Banana, hvað varðar sölu á heilum hvítlauk.

Hvernig er árangur metinn í ræktuninni?

Verkefnið setur upp þrjá megin mælikvarða til að meta árangur og stöðu. Þessir kvarðar meta aðallega hvar verkefnið stendur hverju sinni og hvert enda markmið hvers kvarða er og verkefnisins í heild.

Eitt af megin markmiðum verkefnisins er að auka og bæta vistkerfi og ræktunarskilyrði jarðvegsins út frá þeim aðferðum sem verkefnið beytir við framleiðslu. Sá mælikvarði sem mun gefa skýrustu mynd af árangri verður framleiðni á ræktun miðað við stærð ræktunarsvæðis. Ræktunarsvæðið er í dag um 2 hektarar á stærð og gerum við ráð fyrir að það svæði skili af sér einhver tonn af hvítlauk á ári eftir 3-4 ár.

Annar mælikvaði er aukin sjálfbærni í framleiðslu. Til að byrja þessa ræktun þarf að flytja inn hvítlauk erlendis frá, þar sem ekki er til íslensk framleiða á hvítlauk í dag.

Loka mælikvarði verkefnsins væri að framleiðni og arðbærni þess verði kominn á þann stað að allur sá kostnaður er snýr að ræktun og rekstri, eins og kaup á lífrænum áburði (molta, moltute, glæðir, hænsna- og ormaskítur), viðhald beða (trjákurl og þaramjöl) verði orðinn sjálfbær þ.e. að sá hagnaður sem kemur úr sölu heils hvítlauks og hliðarafurða standi undir framleiðslu og ræktunarkostnaði.

Annað sem verkefnið gerir er að mæla reglulega pH gildi og rakagildi jarðvegsins, til að fylgjast með lífrænum skilyrðum til ræktunar og að gildin séu eðlileg. Einnig er fylgst með þróun og myndun lífræns massa í jarðveginum.

Við nýtum okkur þekkingu og reynslu frá aðilum, sem stunda auðgandi landbúnað og leitum ætíð að hvítlauksútsæði og fræjum, sem henta svæðinu.

Eldri ræktunarsvæði gefa ríkari jarðveg og stærri hvítlauk

Þetta eru tvö gömul tún rétt utan okkar lóðir, sem verkefnið tók í notkun fyrir þessa ræktun árið 2024, sem hluti af uppskölun ræktuninnar. Það tekur tíma að auka lífrænan massa í jarðvegi, þar sem borin hefur verið tilbúinn áburður á í fjölda ára, eins og fyrr segir hér að ofan. Elstu beðin, sem eru í okkar landi eru á fjórða ári, en nýja svæðið er á öðru ári. Nú þegar er sjáanlegur munur á jarðveginum milli elstu ræktunarsvæða og nýrri og var hvítlaukurinn yfirleitt líka stærri í eldri jarðveginum.

Þannig er verkefnið á réttri leið að þeim markmiðum verði náð að auka lífrænt efni og lífrænum fjölbreytileika í jarðveginum.

Ræktunin skilar auknu dýralífi og verðmætu lærdómsferli

Við höfum orðið vör við aukningu í dýralífi. Fleiri fugla og jafnvel fleiri tegundir af fuglum, meira er af býflugum, meira af jarðvegsormum og bara meira líf af ýmsu tagi. Það eru jafnvel nýjar tegundir af plöntum að skjóta upp kollinum, sem við höfum ekki séð áður á svæðinu.

Í fyrra, árið 2024 var notast við sérstakan hvítlauksplantara, sem við fengum styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands að kaupa og flytja inn. Illa gekk að nota hann í fyrra, vegna bleytu og drullu og þess vegna náði tækið ekki að sá hvítlauknum nægilega djúpt.

Í ljós kom að laukurinn snéri á hvolf, lá á hliðinni og þegar laukurinn snýr ekki rétt þá fer auka orka fyrir vaxtarlegginn í að finna leiðina upp og snúa rétt. Þannig dregur það úr vexti hvítlauksins að hann verður ekki eins stór. Okkar reynsla af þessu tæki er sú að betra er að handsetja laukinn niður eins og gert var á nokkrum stöðum í fyrra því þar kom laukurinn 95% upp og góð stærð á honum og því betri árangur. Hvítlaukurinn þarf að fara niður um 10-12 cm og rótarhliðin að snúa niður. Þannig rætir hann sig rétt og fljótar og vex rétt. Þetta er sá lærdómur sem við höfum öðlast.

Mikilvægt er að ph gildi jarðvegsins sé ekki of súrt

Í fyrra grófum við margar tilraunaholur á báðum túnunum sem við tókum á leigu og mældum þar ph sýrugildið. Greinilega ekki með nægilega góðum mæli, því hann sagði að sýrustigið væri yfir 6 á öllum stöðum. Hvítlaukurinn fór vel af stað bæði á efra og neðra túninu, en svo fór að bera á því að hann væri eitthvað slappur á neðra svæðinu. Ástandið lagaðist ekki, þrátt fyrir áburðargjöf. Var þá jarðvegurinn mældur aftur, þá með betri og nákvæmari mæli. Kom þá í ljós að allt neðra svæðið var alltof súrt, eða alveg niður í 5.3. Hvítlaukurinn þrífst ekki í svo súrum jarðvegi. Þarf ph gildi á milli 6 og 7. Á endanum drapst allur hvítlaukurinn á neðra svæðinu vegna of súrs jarðvegs. Við brugðumst strax við því að sá mörgum þekjugróðursplöntum, sem eiga að hækka aðeins ph gildið. Næsta vor munum við blanda jarðveginn þar með dolomitkalki og skeljasandi til að koma sýrustiginu yfir það mark, sem er ásættanlegt fyrir hvítlaukinn. Sá þarf þekjugróðri næsta vor og planta hvítlauk þar næsta haust.

Alltaf að læra eitthvað!

Hvernig lítur framhaldið út?

Við sjáum mikinn mun á öllum gróðri og grænmeti frá því á síðasta ári og að hvítlaukarnir eru stærri en í fyrra, en betur má gera. Við erum mjög bjartsýn á framhaldið og gerum okkur grein fyrir því að þetta er stöðug vinna og aðgæsla sem er framundan.

Verkefnið fékk styrk frá Matvælasjóð til að þróa fleiri vörur úr hvítlauknum, en fyrir var búið að þróa hvítlaukssalt, sem heitir Skjöldur og var það komið í framleiðslu. Gerð var gæðahandbók um framleiðslu þess með hjálp Óla Þórs Hilmarssonar í Matís og fékk verkefnið starsfleyfi frá HER. Síðan fór fram þróun á hvítlaukssalti með blóðbergi, sem heitir Auður, hvítlauks konfit (hægelduð hvítlauksrif í olívuolíu), sem heitir Bersir og hvítlauksolía, sem heitir Hyrna.

Auður og Bersir seldust fljótt upp, en eitthvað er enn til af Skildi, því það náðist að framleiða meira af honum. Ekki var til meiri hvítlaukur til að hefja framleiðslu á hvítlauksolíunni Hyrnu í vor en hún verður framleidd í haust og kemur á markaði fyrir jól. Hvítlauksolían fór í skynmats rannsókn í Matís og kom vel út og erum við bjartsýn á sölu hennar.

Næst skref eru að vinna laukinn eftir að hann var tekinn upp. Hann hefur verið hengdur upp til þurrkunar, sem tekur um fjórar vikur. Það er til þess að hann dragi í sig alla næringu úr laufunum og leggnum. Þannig verður hann bragðmeiri og geymist lengur.

Hvítlaukurinn er síðan klipptur, snyrtur, flokkaður og seldur. Um miðjan september kemur hvítútsæði frá Frakklandi, eins og í fyrra og verður það sett niður handvirkt eins fljótt og hægt er.

Þegar niðursetningu er lokið er haldið í bæinn og framleitt úr þeim hvítlauksrifjum, sem ekki urðu útsæði og eða fóru í sölu í ofangreindar hliðarafurðir úr þessum afgangshvítlauk. Það verður allt unnið í tilraunaeldhúsi Matís á Vínlandsleið.

Helstu samstarfsaðilar okkar í Matís hafa verið þeir Óli Þór Hilmarsson og Ólafur Reykdal. Þóra Valsdóttir og Aðalheiður Ólafsdóttir hafa einnig komið að þessu verkefni. Styrktarsjóðir eru: Matvælasjóður -Afurð, Matvælasjóður – Fjársjóður DalaAuður og Uppbyggingarsjóður Vesturlands.

News

Sjálfbærari fiskveiðar og verndun vistkerfa

Hvernig eflum við sjálfbærar fiskveiðar og stuðlum að verndun sjávarvistkerfa?

Haraldur Arnar Einarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brim komu til okkar í Matvælið og ræddu meðal annars hafrannsóknir, sjálfbærar fiskveiðar, verndun vistkerfa og aðlögunarhæfni í sjávarútvegi.

MarineGuardian verkefnið hefur það að markmiði að efla sjálfbærar fiskveiðar og stuðla að verndun sjávarvistkerfa í Atlantshafi og Norðuríshafi, með aukinni þekkingu og þróun lausna sem draga úr meðafla, brottkasti, olíunotkun, neikvæðum áhrifum á botnvistkerfi, auka afla á sóknareiningu, og tryggja bætta gagnaöflun og úrvinnslu til ákvarðanatöku og framsetningu sjálfbærniskýrslna.

News

Doktorsvörn í matvælafræði – Monica Daugbjerg Christensen

Fimmtudaginn 2. október 2025 ver Monica Daugbjerg Christensen  doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Einangrun og niðurbrot sjávarfjölsykra og mat á ónæmismótandi áhrifum þeirra. Refining marine polysaccharides and their immunomodulatory effects.

Andmælendur eru dr. Kari Tvete Inngjerdingen, dósent við Háskólann í Ósló, og dr. Finn Aachmann, prófessor við Norwegian University of Science and Technology. 

Umsjónarkennarar voru Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og Guðjón Þorkelsson, prófessor. Leiðbeinendur voru Guðmundur Óli Hreggviðsson, prófessor og stefnumótandi sérfræðingur, og Jóna Freysdóttir, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ólafur H. Friðjónsson, fagstjóri og Eva Nordberg Karlsson, prófessor.

Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.30.

Abstract

Brúnþörungar innihalda mikið magn af fjölbreytilegum fjölsykrum sem hafa margvíslega lífvirkni. Í þessu doktorsverkefni var kannað á fjóra vegu hvernig nota megi ensím til umbreyta sjávarfjölsykrum og áhrifum þeirra á ónæmiskerfið. 1) Nýr súlfatasi, SulA1, úr sjávarbakteríunni Arthrobacter, var framleiddur með erfðatæknilegum aðferðum og rannsakaður ítarlega.  SulA1 súlfatasinn gat fjarlægt súlfathóp af N-Acetyl-D-galactosamine-4-sulfate sem endurspeglar eiginleika hans við að fjarlægja súlfathópa og breyta þannig lífvirkni fjölsykra. 2) Laminarin sameindir úr þremur gerðum brúnþörunga (Laminaria digitata, L. hyperborea, and Saccharina latissima) voru einangraðar og klipptar niður í smásykrur. Bygging smásykranna var greind og kom í ljós að stærð og greining þeirra hafði áhrif á boðefnaseytun angafrumna og getu þeirra til að ræsa og sérhæfa T-frumur. Þessar niðurstöður benda til þess að hugsanlega sé unnt að nota laminarin sameindir og afleiður þeirra í meðferð á sjúkdómum tengdum ónæmiskerfinu. 3) Fúkóídan úr S. latissima var klippt niður í fásykrur af mismunandi stærð. Stuttar fásykrur höfðu bólguhamlandi áhrif með því að minnka seytun angafrumna á bólguboðefnum og draga þannig úr Th1 ónæmissvari. Þær gætu því hugsanlega nýst við meðferð á bólgusjúkdómum. 4) Tvær fásykrur úr algínati juku seytun angafrumna á bólguboðefnum og ýttu undir Th1 svörun T frumna í samrækt. Þetta bendir til þess að þessar fásykrur geti nýst við eflingu ónæmissvars, t.d. í meðferð við krabbameinum eða sem ónæmisglæðar. Til samans sýna niðurstöður þessa verkefnis að niðurbrot sjávarfjölsykra með ensímum geti haft áhrif á ónæmisvirkni niðurbrotsefnanna sem eykur líkur á notkun þeirra í þróun meðferða á sjúkdómum í ónæmiskerfinu. Auk þess gæti þetta leitt til umhverfisvænnar vinnslu á fjölsykrum úr brúnþörungum með ensímum sem getur aukið verðmæti þeirra og notkunargildi í lyfja- og fæðubótariðnaði.

News

Hvað gerist þegar lífkol úr fiskeldismykju eru notuð í kálrækt?

Í sumar hefur Matís, í samstarfi við Íslenska sjávarklasann, staðið fyrir spennandi rannsóknarverkefni þar sem áhrif lífkola á jarðveg og plöntuvöxt voru könnuð. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna en fellur líka undir stærra rannsóknarverkefni sem kannar möguleikan á því að nota lífkol sem jarðvegsbætandi efni; verkefnið Soil improving biomaterials sem stýrt er af Íslenska sjávarklasanum.

Verkefnið var unnið af nemanda sem hafði umsjón með daglegri framkvæmd tilraunarinnar í sumar, Ásdísi Öglu Sigurðardóttur. Hún hefur m.a. fylgst með vöxt plantna, vökvað, haldið utan um gögn og mun hún skila niðurstöðum í lokaskýrslu á næstu vikum.  Um verkefnið hafði hún þetta að segja:

Í tilrauninni, sem fór fram á þaki starfstöðvar Matís við Vínlandsleið, voru kálplöntur ræktaðar í mismunandi blöndum af mold og lífkolum. Meðal annars voru notuð lífkol sem unnin voru úr fiskeldisseyru. Markmiðið var að sjá hvort þessi óhefðbundnu lífkol hafi sambærileg eða jafnvel betri áhrif en hefðbundin lífkol úr viðarafgöngum.

Með þessu verkefni er stigið mikilvægt skref í átt að sjálfbærri nýtingu lífrænna aukaafurða og betri nýtingu jarðvegs. Niðurstöðurnar gætu haft jákvæð áhrif á hvernig við hugsum um úrgangsstrauma og landbúnað í framtíðinni og hver veit nema lífkol úr fiskeldismykju verði hluti af lausninni. Við hlökkum til að deila niðurstöðum þegar þær liggja fyrir. Niðurstöðurnar nýtast einnig fyrir evrópuverkefnið OCCAM sem fór af stað í maí 2025.

Styrkir til nemenda, eins og þessi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, skipta sköpum fyrir ungt fólk sem vill öðlast reynslu af raunverulegum rannsóknarverkefnum og leggja sitt af mörkum til nýsköpunar og sjálfbærni.

Matís tekur reglulega á móti nemendum í fjölbreytt verkefni og hvetur áhugasama til að hafa samband, kannski verður það einmitt þú sem tekur þátt í tilraun næsta sumar!

Niðurstöður verkefnisns verða birtar í skýrslu seinna í haust.

Frekari upplýsingar veita:
Jónas Baldursson – jonasb@matis.is
Katrín Hulda Gunnarsdóttir – katrinh@matis.is

News

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum – Andrea Rakel Sigurðardóttir

Miðvikudaginn 10. september 2025 ver Andrea Rakel Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Sjálfvirkar fjöllitrófs- og myndgreiningar til gæðaeftirlits á sjávarfangi. Automatic multispectral and imaging methods for quality monitoring of seafood.

Andmælendur eru dr. Frosti Pálsson, vísindamaður hjá deCode Genetics, og dr. Silje Ottestad, sérfræðingur hjá Maritech í Noregi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var María Guðjónsdóttir, prófessor. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Hafsteinn Einarsson, dósent, Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og verkefnastjóri hjá Matís, og Nette Schultz, Ph.D, Chief Innovation Officer (CINO) hjá Videometer A/S í Danmörku.

Ólafur Ögmundarson, dósent og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Abstract

Sjálfbær nýting sjávarauðlinda er forsenda þess að tryggja framboð á sjávarafurðum til lengri tíma og til að vernda vistkerfi hafsins. Á sama tíma er gæða- og öryggiseftirlit í gegnum alla virðiskeðjuna flókið verkefni, þar sem sjávarafurðir eru viðkvæmar, líffræðilegur fjölbreytileiki mikill og þær eru næmar fyrir umhverfisáhrifum og meðhöndlun. Hefðbundnar aðferðir eins og skynmat, sjónrænt mat og efnagreiningar eru vel þekktar og gagnlegar en þær eru oft tímafrekar, eyðileggja sýnin eða byggja á huglægu mati.

Auknar kröfur um rekjanleika, gagnsæi, gæði afurða og skilvirkari vinnslu kalla á nýjar lausnir sem eru hlutlægar, hraðvirkar og valda ekki skemmdum á sýnum.

Í þessu verkefni var skoðaður möguleikinn á nýtingu myndgreiningartækni, einkum fjöllitrófsmyndgreiningar, í samspili við efnatölfræði, vélrænt nám og djúptauganet, til að sjálfvirknivæða gæða- og eftirlitsverkefni innan sjávarútvegarins. Verkefnið samanstendur af fjórum vísindagreinum sem fjalla um mismunandi notkunarmöguleika þessara tæknilausna: aldursgreining fiskikvarna, hringormagreiningu í hvítfiski, ferskleikamat á heilum þorski, og gæðamat á brúnþörungum.

Niðurstöðurnar sýna að samþætting myndgreiningar og gagnadrifinna líkana býður upp á möguleika til sjálfvirknivæðingar og til að bæta gæða- og eftirlitsferla í sjávarútvegi. Það er ljóst að tæknin býður upp á mikla möguleika til frekari notkunar víðs vegar um virðiskeðju sjávarafurða og opnar þannig tækifæri til frekari rannsókna og þróunar. 

News

Viltu smakka saltfisk og eiga möguleika á að vinna 25.000 kr. gjafabréf?

Matís leitar að þátttakendum í neytendakönnun um saltfisk!

Könnunin tekur aðeins 20 mínútur – þú smakkar 3 tegundir af saltfiski og svarar stuttum spurningalista.
Að lokinni þátttöku bjóðum við upp á kaffi og bakkelsi!

Location: Matís, Vínlandsleið 12, Grafarholti
3 heppnir þátttakendur
fá gjafabréf að verðmæti 25.000 kr.

Hverjir geta tekið þátt?
• Aldur 18–35 ára →
mæta 28. eða 29. ágúst (nokkrar tímasetningar í boði)

Engar persónugreinanlegar upplýsingar verða tengdar svörum í könnuninni.

Spurningar? Hafðu samband við: Aðalheiði Ólafsdóttur – adalheiduro@matis.is

Skráðu þig hér:

Forsíðumynd: Kolbrún Sveinsdóttir

News

Ísreiknir Matís: Áætlar raunverulega ísþörf aflans

Contact

Jónas Rúnar Viðarsson

Director of the Division of Research & Innovation

jonas@matis.is

Eins og alþjóð veit þá eru strandveiðar nú í fullum gangi, en alls hafa um 800 bátar fengið strandveiðileyfi þetta sumarið.

Eins og við aðrar fiskveiðar er rétt aflameðferð mikilvæg til að tryggja gæði og geymsluþol, en leiðbeiningar má nálgast here. Góð kæling á aflanum er mikilvægasti þátturinn í að tryggja gæði og geymsluþol afurðanna, og því hefur Matís útbúið ísreikni sem aðgengilegur er á heimasíðu fyrirtækisins

Ísreiknirinn gefur ráðleggingar um það magn af ís sem þarf til að kæla afla niður í 0°C miðað við sjávarhita og svo ísþörf til að viðhalda 0°C miðað við umhverfishitastig (t.d. í kæligeymslu) og dagafjölda. Gögnin að baki ísreikninum byggja á varmafræðilíkönum og kælitilraunum.

Í upphafi júní mánaðar tók gildi ný reglugerð sem kveður á um að allri vigtun strandveiðiafla ljúki á hafnarvog þar sem íshlutfall er fastsett við 3%. Hætt er við því að reglugerðin virki sem hvati til þess að takmarka ísnotkun og því getur verð gott að nýta ísreikninn til að áætla hver raunveruleg ísþörf er.

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar má fylgjast með sjávarhita víðsvegar umhverfis landið og má þar t.d. sjá að meðalhitastig síðustu daga á Vestfjörðum hefur verið um 8°C. Samkvæmt ísreikninum ætti því að þurfa um 9 kg af ís til að kæla hver 100 kg af afla niður í 0°C.

Aflasamsetning, hvað varðar tegund og stærð fiska, hefur áhrif á hversu langan tíma það tekur að kæla aflann niður í 0°C, auk þess sem kælimiðillinn skiptir miklu máli, eins og sjá má á þessum monocotyledons.

News

Sendinefnd frá Kyrrahafseyjum heimsækir Matís

Sendinefnd ráðmanna frá Kyrrahafseyjum kom í heimsókn til Matís þann 19. júní síðastliðinn til að kynnast starfsemi Matís og þátttöku fyrirtækisins í uppbyggingu og framþróun í fiskvinnslu á Íslandi.

Fulltrúarnir hrifust af þeirri þekkingu og aðstöðu sem Matís býr yfir og höfðu mikinn áhuga á mögulegum tækifærum til samstarfs í þróun fiskimála á Kyrrahafseyjum. Sérstaklega var rætt um uppbyggingu á rannsóknarstofu, þjálfun starfsfólks og úrbótum á meðhöndlun og kælingu afla, að því gefnu að Alþjóðabankinn myndi veita slíku samstarfi fjárhagslegan stuðning.

Meðal gesta voru Steven Victor fiski- og umhverfismálaráðherra Palau og Fabio Siksei sérfræðingur auk starfsmanna ráðuneytisins á Palau. Frá Papua Nýju-Gíneu var Jelta Wong sjávarútvegsráðherra ásamt Gerri Katai, Simon Kaumi og Api Kassman. Frá sjávarútvegsráðuneyti Salómoneyja var aðstoðarráðuneytisstjóri James Teri og frá Alþjóðabankanum voru Nika Asasi og Xavier Vincent.

Frá Matís voru Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís. Margeir Gissurarson, stefnumótandi sérfræðingur og Hildur Inga Sveinsdóttir, verkefnastjóri.

EN